Beint í efni

Aldingarðurinn

Aldingarðurinn
Höfundur
Ólafur Jóhann Ólafsson
Útgefandi
hljóðbók.is
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Þorgerður E. Sigurðardóttir

Það má segja að í Aldingarðinum sé Ólafur Jóhann Ólafsson kominn aftur til uppruna síns í skáldskapnum þar sem fyrsta bók hans, Níu lyklar, var einmitt smásagnasafn en síðan hefur hann mestmegnis fengist við það að skrifa skáldsögur. Í Aldingarðinum eru tólf smásögur sem saman rekja eitt ár í þeim skilningi að hver saga ber nafn eins mánaðar ársins, þannig gerist fyrsta sagan í janúar og síðasta sagan í desember. Þessar sögur eiga ýmislegt sameiginlegt, allar fjalla þær um einhverskonar ástarsambönd og hin ýmsu vandamál og tilfinningaflækjur sem upp koma í sambandi við þau. Einnig eru margar sögurnar svipaðar að byggingu þar sem frásögnin flakkar gjarnan milli fortíðar og nútíðar og algengt er að sögurnar endi á einhverskonar ögurstundu og eru endarlokin oft óvænt og jafnvel óræð.

Hér er margt kunnuglegt úr fyrri bókum Ólafs. Eins og svo oft áður fjallar hann til dæmis mikið um Íslendinga sem búa og starfa í útlöndum en það á þó ekki við um allar sögurnar. Einnig er mikið hugsað til fortíðarinnar og sögurnar eru iðulega byggðar upp í kringum einhverskonar upprifjun á henni, þannig er alltaf verið að fjalla um tímann á einhvern hátt og það er annað algengt þema úr skáldskap Ólafs Jóhanns. En það sést engu að síður glögglega ef sögurnar eru bornar saman við sögurnar úr Níu lyklum að höfundurinn hefur þróast mikið. Raunsæið er honum enn ofarlega í huga og stíllinn er ennþá tær og fágaður, í raun allt að því snyrtilegur, en hér leikur hann sér mun meira með formið sem gerir það að verkum að sögurnar verða ekki jafn formúlukenndar og þær eru í fyrstu bókinni. Hinsvegar eru þessar sögur sígildar raunsæissögur, þannig að ekki er um neinar byltingarkenndar formtilraunir að ræða, það má frekar segja að höfundurinn leyfi sér að toga kurteislega í rammann.

Ólafur Jóhann skrifar mjög vandað mál en stundum vantar nokkuð upp á það að textinn sé nægilega blæbrigðaríkur, þessi gagnsæi stíll verður of tilbreytingalítill til lengdar. Það birtast nýjar persónur í hverri sögu en þar sem frásagnarmátinn og stíllinn er svo niðurnjörvaður renna þær hálfpartinn saman í minningunni og það hjálpar ekki til að persónurnar eru oft keimlíkar, konurnar eru flestar fallegar og myndarlegar, bæði í útliti og æði, og karlmennirnir eru annaðhvort traustir og fastir fyrir eða veiklundaðir og tækifærissinnaðir. Þetta er auðvitað ekki algilt, innan um eru persónur sem falla engan veginn inn í þetta munstur og sögurnar þar sem persónugalleríið er brotið upp, sterku persónurnar sýna veikleika og öfugt, eru einmitt þær eftirminninlegustu.

Það er hinsvegar fallegur og býsna innilegur tónn undirliggjandi í þessari bók sem hæfir umfjöllunarefninu vel. Hér er verið að fjalla um hluti sem allir kannast eflaust við í einhverri mynd, margbreytilegar myndir ástarinnar birtast í hversdagsleikanum með tilheyrandi söknuði, svikum og óöryggi. Persónurnar eiga oft erfitt með að gera upp hug sinn gagnvart ástinni, rangar og vanhugsaðar ákvarðanir setja svip sinn á líf þeirra og breytingar í lífinu reynast oft illhöndlanlegar. Höfundurinn hefur mikla tilhneigingu til að útskýra tilurð ástandsins í hverri sögu, rekja forsöguna með því að fara aftur í tímann og þetta stílbragð, sem hann hefur notað nokkuð í verkum sínum, hefur tilhneigingu til að svipta textann dulúð enda eru vinnubrögðin í anda raunsæis. En hér er höfundurinn hinsvegar farinn að leyfa sér það að skilja eftir lausa enda, hann skilur stundum við persónur og lesendur í lausu lofti á ögurstundu sem kemur oft ágætlega út. Mér sýnist á öllu að agað form smásögunnar eigi ágætlega við Ólaf Jóhann og vonandi lætur hann reyna meira á það í næstu bók.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, desember 2006