Beint í efni

Algleymi

Algleymi
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

„Oblivion is a place that has no co-ordinates in time or space“ (Jenny Diski, Skating to Antarctica, bls. 180).

Þessi orð breska höfundarins Jenny Diski komu oftar en einu sinni upp í hug mér við lestur nýjustu skáldsögu Hermanns Stefánssonar, Algleymi. Í algleyminu er ekki tími eða staður, sem kemur þó ekki í veg fyrir þrá okkar eftir að festa hendur bæði á tíma og rúmi og þar með brjótast út úr algleyminu. Önnur orð Diski úr sömu bók voru mér líka ofarlega í huga þar sem hún segir að skammtafræði hafi hingað til ekki haft neinar praktískar víddir í lífi sínu. Ég verð að taka undir með þessu hjá henni eða allt þar til ég las Algleymi og fór á einhvers konar vitundarflakk, gott ef ég breyttist ekki í kött Shrödingers um tíma.

Algleymi er þriðja bók Hermanns um hjónin Guðjón og Helenu og þá er væntanlega hægt að tala um seríu, eins og til dæmis í glæpabókmenntum (þetta eru þá Guðjóns- og Helenubækurnar). Hér eru líka glæpir (að því er virðist) og undarlegir atburðir, sem þau þurfa að finna út úr (ásamt sveittum lesandanum), svo samlíkingin er ekki út í hött, enda stendur á kápu að þetta sé ‘hugmyndatryllir’ – sem má reyndar skilja ýmsum skilningi. Þetta er auðvitað rétt í þeim skilningi að hér er fjallað um ‘trylltar’ hugmyndir, eins og skammtafræði hljómar fyrir óinnvígða: strengjafræði, ormagöng, svarthol o.s.frv. o.s.frv. Og eins og í tryllum af öðru tagi er lesandinn áfjáður í að komast að því hvað gerðist, en það er þó nokkrum erfiðleikum bundið.

‘Hugmyndatryllir’ gæti líka verið annað orð yfir vísindaskáldsögur, sem Algleymi á ýmislegt sameiginlegt með. Þær byggja oft á hugmyndum sem þykja góðar og gildar í vísindum en hljóma í annarra eyrum sem skáldskapur. Hér er tímaflakk og brjálaðir vísindamenn og ýmislegt fleira gott sem tilheyrir þeim heimi. Þá minnir skáldsagan óneitanlega á kvikmyndir á borð við Memento, Being John Malkovich og fleiri sem snúast um gleymsku og vitundir sem tapa sér. Ef ætti að ‘pitsja’ bókina fyrir útgefendum/framleiðendum þá mætti segja að hún sé eins og Oliver Sacks og Stephen Hawking hafi ruglað saman reitum.

Guðjón Ólafsson rithöfundur vaknar í orðasúpu – minnið er farið og með því tök hans á tungumálinu. Hann reynir að pússla vitund sinni og fortíð saman með óljósum árangri. Hann hefur lent í slysi eða jafnvel árás. Pabbi hans reynir að hjálpa honum, kærastan gefst upp, en lendir svo í sömu súpu sjálf og þau þurfa að takast á við dularfullar persónur, lækna og brjálaða vísindamenn. Þau gleymnu eru á eilífu vitundarflakki sem gerir það að verkum að þau eiga í mjög sérkennilegu sambandi við fortíðina og brjálaði vísindamaðurinn reynir að virkja þetta flakk í sína þágu. Ég legg áherslu á að á eftir öllum þessum staðhæfingum mætti standa ‘að því er virðist’ – því það er engin leið að treysta brotinni vitund, sem hefur mjög takmörkuð tök bæði á langtíma- og skammtímaminni.

Í fyrri bókum Hermanns um Guðjón og Helenu, Níu þjófalyklum og Stefnuljósi, er samstuð veruleika og skáldskapar áberandi. Hér á þetta samstuð sér hins vegar stað í vitund persónanna, þ.e. hvað er veruleiki persónanna og hvað ímyndun, skáldskapur, lygi, óminni? Og þá lendir lesandinn í þeirri sérkennilegu klípu að reyna að greina hvað hefur komið fyrir persónurnar ‘í alvöru’ (en auðvitað bara í höfði höfundar)…. úr verður endalaus speglun og ekkert annað að gera en að kasta sér í dýpið.

Minnistap er heillandi viðfangsefni, því svo mikið af sjálfinu er bundið minninu, þeirri sögu sem við segjum um okkur sjálf. Gleymskan kallar á eilífa óvissu um hver maður er og hverjir aðrir eru, lausnir og svör eru meira og minna ágiskun. Í sögunni er svo þessi gleymska og vitundarbrenglun sett í samhengi við skammtafræði svo úr verður skemmtileg pæling um tímaferðalög, skáldskap, ímyndun, heilaskaða og sérkennilega afkima skammtafræðinnar.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2008