Beint í efni

Aska

Aska
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Aska er þriðja glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur þar sem lögfræðingurinn Þóra Guðmundsdóttir leysir erfið sakamál fyrir umbjóðendur sína. Í Ösku er þýski vinur hennar, Matthew, fjarri góðu gamni en það kemur ekki að sök því í stað hans hefur Þóra ritarann Bellu sér til halds og trausts.

Eins og bók Yrsu frá því í fyrra, Sér grefur gröf, hefst þessi saga á morði en sjónarhornið færist síðan yfir til Þóru og helst þar það sem eftir lifir frásagnarinnar. Í upphafi sögunnar er Þóra stödd í Vestmannaeyjum þar sem verið er að grafa upp hús sem lentu undir ösku í gosinu 1973, en þegar bernskuheimili skjólstæðings hennar er grafið upp koma í ljós líkamsleifar fjögurra manna. Grunur beinist fljótlega að Markúsi, umbjóðenda Þóru, og þegar Alda, æskuvinkona hans frá Vestmannaeyjum, finnst látin á heimili sínu í Reykjavík skömmu síðar er hann settur í gæsluvarðhald. Þóra hefur rannsókn málsins til að reyna að sanna sakleysi hans en lögreglan, með rannsóknarlögreglumanninn Stefán í broddi fylkingar virðist sannfærð um sekt hans. Viðleitni Þóru leiðir hana aftur til Vestmannaeyja ásamt ritaranum Bellu, sem lesendur þekkja úr fyrri bókum, en hér kemur í ljós að henni er ekki alls varnað.

Aska er samtímasaga sem gerist á nokkrum vikum í júlí og ágúst sumarið 2007. Til þess er vísað í kaflaheitum og athugasemdum um blíðviðrið sunnanlands, jafnframt því sem höfundurinn notar uppgröftinn í Vestmannaeyjum og verkefnið Pompey norðursins sem umgjörð glæpasögunnar. Þar rær Yrsa á sömu mið og til dæmis Arnaldur Indriðason sem einnig hefur notfært sér liðna atburði með góðum árangri í sögum sínum. Stíll bókarinnar er liprari en í fyrri glæpasögum Yrsu, það er helst að útskýringar séu óþarflega orðmargar, sérstaklega í fyrri hlutanum, sem verður til þess að sagan fer hægt af stað. Spennan eykst hins vegar þegar á líður og erfitt er að leggja bókina frá sér þegar frásögnin er komin á skrið.

Það eru sterkar kvenpersónur í bókinni en karlmennirnir standa í skugga þeirra og eru ekki eins eftirminnilegir. Dæmi um það eru hjónin Leifur og María sem Þóra leitar eftir upplýsingum hjá í Vestmannaeyjum, því þó að Leifur komi meira við sögu er María mun áhugaverðari persóna. Þóra kynnist einnig systur og móður hinnar látnu Öldu, þegar hún grennslast fyrir um lát hennar auk þess sem lýtalæknirinn Dís og ung stúlka með átröskun koma við sögu.

Seríuna um lögfræðinginn Þóru, fjölskyldu hennar og vini er skemmtilegast að lesa í réttri röð því að þó að hvert sakamál sé sjálfstætt fylgjast lesendur með lífi sögupersónanna og bíða spenntir nýjustu frétta af barnabarninu og hvernig sambandið við kærastann í Þýskalandi fer, ekki síður en hver myrti hvern og hvers vegna. Vonandi höldum við áfram að fá fregnir af þessari geðþekku fjölskyldu, milli þess sem „húsmóðirin“ leysir úr flóknum sakamálum umbjóðenda sinna.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2007