Beint í efni

Á asklimum ernir sitja

Á asklimum ernir sitja
Höfundur
Matthías Johannessen
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

 

Bíðum eftir að þokunni létti og landið komi
dögglitum slegið undan vetri, gamalt
og nýtt sem einn partur, ein sjónhending
eins og þegar vel liggur á vorboðanum

                                 En á asklimum ernir sitja

Og dauðinn kraphvítur snjór,
ef því er að skipta.

(úr “Holtaþoku”)

Á asklimum ernir sitja (2021) er nýjasta ljóðabók Matthíasar Johannessen. Í þrjátíu ljóðum leiðir Matthías lesandann í gegnum vangaveltur um náttúruna, eyðileggingarmátt hennar, einsemd mannverunnar, ægikraft eilífðarinnar og endurfæðingu — ásamt því að takast á við samfélagsmálefni líðandi stundar og eiga samtal við bókmenntaarfleiðina. Vönduð framsetning þemanna í Á asklimum ernir sitja og hversu fjölbreytt og vel útfærð ljóðin eru ætti ekki að koma á óvart enda er bókin langt frá því að vera frumraun Matthíasar. Hann er eitt iðnasta ljóðskáld Íslands og hefur gefið frá sér á þriðja tug ljóðabóka allt frá árinu 1958 þegar fyrsta bók hans, Borgin hló, kom út. Þar að auki hefur Matthías skrifað skáldsögur, smásagnasöfn, leikrit, fræðibækur og margt fleira en hann var einnig ritstjóri Morgunblaðsins um margra áratuga skeið, allt til ársins 2001. Þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldur virðist skrifþróttur Matthíasar síst vera að dvína og hann hefur gefið frá sér fjölda verka frá aldarmótum, nú síðast ljóðabókina Enn logar jökull sem kom út árið 2018.

Matthías Johannessen er vægast sagt stór persóna í íslensku þjóðlífi og hefur verið áhrifamikill í samfélagsumræðunni í gegnum tíðina, bæði í starfi sínu sem ritstjóri og skáld. En þrátt fyrir að hægt væri að fylla ótal blaðsíðna um feril Matthíasar sem skálds tel ég það áhugaverðara að líta á Á asklimum ernir sitja út frá honum sem samtímaskáldi árið 2021. Nýlega hefur verið sprenging í íslenskri ljóðlist og ný kynslóð ljóðskálda í kringum tvítugt eða þrítugt stigið fram á sjónarsviðið. Tilfinningin er sú að ljóðabækur þessarar nýju kynslóðar hafi dómínerað ljóðaútgáfunni síðastliðin ár og umræðunni um íslenska ljóðlist. Hvernig kemur Á asklimum ernir sitja mögulega nýjum og yngri lesendum fyrir sjónir í þessu umhverfi? Sér í lagi þeim sem þekkja lítið til Matthíasar og ferils hans (líkt og undirritaður).

Þrátt fyrir að ljóðin í verkinu séu fjölbreytt í formi og efnistökum — þau mynda ekki auðgreinanlega samþætta heild, heldur bera frekar með sér merki samansafns stakra ljóða — má sjá ákveðin endurtekin stef skjóta upp kollinum. Mikið er um hefðbundnar náttúrumyndir þar sem storknandi hraun, frostmiklir vetrar og setjandi sólir endurspegla tregafulla ást, eins og í “Að sólarfalli”, eða vísa til yfirvofandi æviloka og ástarmissis líkt og í “Við Sundin”. Hógværari hliðar náttúrunnar ganga einnig í hlutverk tímans og hverfulleika lífsins líkt og í ljúfværa ljóðinu “Í Laugardal” þar sem lauf falla á kyrrlátum haustdegi, skref fyrir skref, eins og “fótatak tímans við deyjandi jörð”. Íslensk náttúra birtist þó ekki aðeins sem fallegar stillimyndir í meðför Matthíasar. Náttúran í ljóðum hans ræðst oftar en ekki fram með ofsafengnum hætti þar sem eldtungur úr iðrum jarðar boða endalokin (“Drekinn og draumarnir”) og fylla heiminn af ösku þar sem “[v]ið sem höfum lifað / í landi öskunnar, étið / ösku, drukkið ösku, horfið / í ösku” (“Bregður öld við aðra”) og sjáum hvorki sól né stjörnur fyrir ösku og vikri. Ljóðmælanda steðjar ógn af tortímingarmætti náttúrunnar og endalokin virðast aldrei langt undan í Á asklimum ernir sitja. Þessi máttur er áberandi í “Vesturheiðum” þar sem aska hylur stráin og fortíðin tekur á sig mynd logandi elda sortnaðrar sólar, en hann sprettur einnig upp í “Á Dynskógafjöru”:

Þegar Katla kemur
og flóðið öslar yfir sanda
hægt og bítandi

hugsun vatns
og skellur á hafinu,

eins og eilífðin
komi þar sem við stöndum
á Mýrdalssandi miðjum,
ein og hjálparvana

og flóðið ösli
um Dynskógafjöru
til hafs

stöndum andspænis
flóði dauðans
ein og hjálparvana

og eilífðin breiði út
faðminn sinn stóra
og taki okkur í fangið
á þeirri stund.

Og okkur skoli þangað
sem gleymskan
er minningin eina.

Einmanaleikinn sem birtist í ljóðinu að ofan — “ein og hjálparvana” — setur líka mark sitt á verk Matthíasar og blandast hefðbundnum ljóðminnum á borð við fugla og vængi. Í stað þess að vera tákn frelsis og vonar snýst minnið oft upp í andhverfu þess þar sem fuglshræ (“Nýir vængir og stærri”) og vænglausar hugmyndir (“Plágan”) dúkka upp í stað tignarlega frelsisboða. Eitt áhrifaríkasta ljóð bókarinnar myndi ég vafalaust segja að væri “Svartfugl” þar sem óvænt nálgun á fallegt og náttúrulegt minni dregur fram einsemdina sem smýgur í gegnum texta Matthíasar og undirstrikar eitt kraftmesta stef verksins: óttann við dauðann.

Ég er einn,
og myrkrið
er allt í kringum mig.
Ég er ekki þroskaður,
ég er eiginlega
óþroskaður í þessu
heljarmyrkri,
enn er ég ekkert
nema blómi og
hvítan í myrkrinu
undir þessari hörðu
skel.

Ég finn hlýjuna
af móður minni
sem bíður og á sér
einskis ills von,
því að óvinir
eru margir
og sitja á fleti fyrir
í þessu fangelsi
sem ég er enn
fastur í, en þó
vongóður.

Faðir minn er
löngum að heiman.
Ilmurinn
af vængjum
móður minnar
fjarlægist óðum
því einhver hefur
tínt þessa óhreinu
skurn og ætlar
að gleypa mig
óséðan
og þá verð ég
dauður og étinn
áður en ég fæðist.

Sterkustu hughrifin stafa af eðlislægum ótta við dauðann og djúpstæðri hræðslu við einsemdina. Í stað þess að líða hægt og rólega út úr þessum heimi, og mæta dauðanum með ljóðrænni angurværð, berst ljóðmælandinn felmtri sleginn á móti endalokanum. Þessi nánast líkamlegu viðbrögð koma manni úr jafnvægi við fyrsta lestur þar sem ljóðmælandinn reynir að flýja hið óumflýjanlega með sorglegum vanmætti. En þó svo að óumflýjanleiki örlaganna og tortíming vomi yfir mörgum ljóðanna má finna trú á endurfæðingu í verkinu. Í upphafi fyrsta ljóði verksins, “Bregður öld við aðra”, er lýst hopandi jöklum og sýklum sem sækja í sár á þrútnu holdi og svo er spurt:

vituð ér enn — eða hvat,

hvort örn flýgur yfir
hvort jörð rís aftur,

iðjagræn?

,Iðjagræn’ kemur einnig fyrir í ljóði í seinni hluta verksins og ber með sér spurninguna hvort tortímingin muni leiða af sér endurfæðingu, grósku skapaða úr hamförum, líkt og endurnýjun heimsins í ragnarökum. Svarið er á reiki í flestum ljóðunum en þó glittir af og til í von. “Að ragnarökum” hefst til að mynda á ógnvænlegri sýn en lýkur með grænkandi Eden og “askurinn syngur að nýju um iðjagræna jörð”.

Í þessari umfjöllun hef ég eytt mestu púðri í drungalegri ljóð verksins, en þess bera að geta að innan um ofsann leynast léttari ljóð og leikandi tilvísanir. Ljóðlist Matthíasar hefur verið lýst sem fullri af ríku myndmáli og bókmenntalegum vísunum ásamt því að vera frjáls í formi. Þetta á svo sannarlega enn við og færni Matthíasar sem ljóðskálds er óneitanleg. Þó eiga bókmenntalegu vísanirnar það til að vera í hátíðlegri kantinum og skírskotanir til Óvíd og grískar goðafræði getað verkað eilítið fjarlægar í samanburði við ljóðin sem tala beint inn í samtímann — sem er einmitt mikið hugðarefni Matthíasar. Hann hefur löngum látið samtímann hverju sinni sig varða í ljóðum sínum, og er það einnig uppi á teningnum í Á asklimum ernir sitja. Í verkinu má sjá vísanir til eyðilegs borgarlífs í faraldrinum, Wuhan, eldgossins í Fagradal og ástands íslensks menningarlífs. Allt frá því á tímum atómskáldanna hefur Matthías reynt að brjótast undan skilgreiningum og fara sínar eigin leiðir í kveðskap, sama hvernig tíðarandinn blæs. Eftir rúm sextíu ár af ljóðskrifum mætti segja að Matthías sé enn að feta sína eigin slóð, geysandi um óumflýjanleika örlaganna og óttann sem fylgir þeim, ásamt glettnum tilvísanaleikjum og samfélagsrýni.
 

Már Másson Maack, janúar 2022