Beint í efni

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)

Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;)
Höfundur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hvað er fjölskylda? Ég er nýbúin að horfa á bandarískan gaman/spennuþátt (Chuck) þarsem aðalpersónan útskýrir vandlega fyrir samstarfsfólki sínu að besti vinur hans sé fjölskylda hans ekki síður en systir hans og faðir. Þetta er sjálfsagt upplifun margra, fjölskyldan er margþætt fyrirbæri í dag (og hefur sjálfsagt alltaf verið) þrátt fyrir að ímyndaheimurinn haldi áfram að moka út myndefni sem sýna hefðbundna kjarnafjölskyldu (foreldrar með tvö börn) sem hið fullkomna viðmið.

Skáldsaga Margrétar Örnólfsdóttur, Aþena (ekki höfuðborgin í Grikklandi ;), fjallar meðal annars um fjölskyldu sem er afskaplega fjarri þessu kjarnafjölskyldu-íkoni. Foreldrar Aþenu hafa aldrei búið saman og hún elst upp hjá mömmu sinni, sem heitir Íris. Íris býr með Halldóri og saman eiga þau son, sem þá er hálfbróðir Aþenu og henni þykir afar vænt um. Bókin snýst þó ekki aðeins um þetta, enda eru stjúpfjölskyldusambönd ekki beint fréttnæm, heldur um foreldra Írisar, aðallega þó ömmuna Rósí, sem yfirgaf dóttur sína unga og hélt út í heim (til Bandaríkjanna nánar tiltekið) í leit að frægð og frama. Ekki nóg með það heldur skilur hún dótturina eftir án þess að hafa nokkurntíma sagt henni hver sé pabbi hennar. Þetta veldur vinslitum milli móður og dóttur og Aþenu er bannað að hafa samband við ömmuna - sem síðan skapar flækjur þegar amman hefur samband við barnabarnið á Facebook. Já, þetta er sannarlega saga úr samtímanum. Páll Óskar leikur heilmikið hlutverk, en hann er aðal átrúnaðargoð Aþenu og vinkonu hennar Sólu, þó vinur þeirra Starki sé ekki alveg eins hrifinn.

Margrét Örnólfsdóttir varpar áreynslulaust upp hæfilega hversdagslegri og hæfilega ævintýralegri mynd af heimi krakka í dag. Aðalsöguhetjurnar eru á tólfta ári, hafa litla þolinmæði gagnvart leiðindatali um kreppur, en þeim mun meiri áhuga á því að njóta lífsins með vinum sínum og hlusta á Pál Óskar, hvar sem hann birtist. Aþena er rétt að komast á þann aldur að hún vill vera bæði fullorðin og barn, mamma hennar kemur fram við hana sem bæði fullorðna og barn (hún á að vita betur en að standa í leynimakki með ömmunni, en er ekki orðin nógu gömul til að ráða sjálf hvort hún vilji hitta hana) og þessi mótsagnakenndu skilaboð rugla stelpuna í ríminu. Að auki er amma Rósí langt því frá að vera hefðbundin amma og ekki reynist auðvelt að átta sig á henni.

Myndir Fanneyjar Sizemore gera mikið fyrir söguna og hefðu að ósekju mátt vera fleiri, enda fjallar sagan að hluta til um (í)myndir eða réttara sagt, mynd.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2009