Beint í efni

Baróninn

Baróninn
Höfundur
Þórarinn Eldjárn
Útgefandi
Orð í eyra
Staður
Kópavogur
Ár
2006
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Hinn franskættaði Charles Gauldrée Boilleau settist að á Íslandi í lok 19. aldar og varð fljótt þekktur sem Hvítárvallabaróninn. Hann reyndi fyrir sér í ýmsu og margt af því fallið til að draga landið inn í nútímann, en samkvæmt lýsingu Þórarins í heimildarskáldsögunni Baróninn hefði honum líklega vegnað betur í Reykjavík öld síðar, þegar stórframkvæmdir eiga frekar upp á pallborðið. Í bók Þórarins spyrja sig allir, fjölskylda og heimamenn, hvernig standi á þessu, af hverju í ósköpunum kom maðurinn til Íslands? Hver er draumur hans um landið? Ákvörðun hans hlýtur að byggjast að einhverju leyti á draumi, því veruleikinn veldur vonbrigðum.

Það er margt þarna sem er vel fallið til frásagnar: Aðalsmaður eins og fiskur á þurru landi með lífsviðhorf, áform, áhugamál, framkomu og kurteisisvenjur sem eru ákaflega framandi flestum heimamönnum; tímabilið er einnig athyglisvert því Ísland um aldamót er svolítið eins og óskrifað blað, það vita allir að nútíminn er í vændum, en enginn veit hvernig hann mun líta út; og innra líf barónins og myrkt skapferli sem gerir honum erfitt fyrir virðist líka hafa duldar víddir sem þörf er á að kanna.

Það er dularfullur blær yfir baróninum; hann hefur lítið samband við fjölskyldu sína nema helst vegna peningamála, vingast lítið við heimamenn, nema þegar hann þarf á þeim að halda vegna framkvæmda eða innkaupa í borginni. Hann er einhvern veginn alltaf fjarverandi og stendur utan við samfélagið hvar sem hann er – einangrun hans á Íslandi undirstrikar einungis einangrun hans almennt frá umheiminum.

Höfundur beitir margvíslegu sjónarhorni til að rannsaka þessa þætti. Það skiptast á kaflar úr bréfum milli barónsins og fjölskyldu hans, skrif bróðurins Philips þar sem hann reynir að skilja bróður sinn, þá eru birt dagblaðaskrif, auk kafla með þriðju persónu sögumanni sem nálgast oft viðfangsefnið frá sjónarhorni heimamanna. Þetta gerir það að verkum að lesandi fær sýn á manninn ekki einungis miðaða við það hvernig hann horfði við Íslendingum, heldur einnig hvernig hegðun hans kom fjölskyldu hans fyrir sjónir. Hér eru þriðju persónu kaflarnir veikastir, því þar verður sjónarhornið óljósara og sambland sýnar samtíma og fortíðar verður ekki alltaf sannfærandi.

Heimildaskáldsagan er spennandi form þar sem oft gefst tækifæri til að kanna víddir sem lægju óbættar hjá garði í sagnfræðiritum eða ævisögum. Engu að síður vaknar sú hugmynd við lestur þessarar bókar að kannski hefði ævisöguformið alveg eins komið hér til greina, og koma þá upp í hugann ævisögur eins og The Quest for Corvo frá 1935 eftir A. J. A. Symons sem er rannsókn á ævi manns sem er á einhvern hátt ráðgáta, jafnvel óleysanleg gáta.

Fyrirferðarmesta umfjöllunarefni bókarinnar eru framkvæmdir, viðskipti og peningamál, - Charles gerist bisnissmaður að því er virðist þvert ofan í hæfileika og menntun, og velur sem vettvang til þess guðsvolað land sem er alls ekki tilbúið fyrir nútímaframkvæmdahug. Hvað gekk honum til? Er þetta liður í sjálfseyðingu mannsins eða draumur um framtíð í ''óskrifuðu'' landi? Hér er ekki komist að neinni lokaniðurstöðu, heldur brugðið upp mynd af skapferli manns sem er mótaður af kringumstæðum í Evrópu og Ameríku í lok 19. aldar, manni sem stendur á mörkum heima og tíma, og ræður misvel við það hlutskipti.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2004