Beint í efni

Bjargræði

Bjargræði
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Sæmundur
Staður
Selfoss
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Árið 2016 markar 300 ára afmæli skáldkonunnar Bjargar Einarsdóttur sem iðulega er kennd við bæinn Látra. Þó að þetta sé ein af örfáum konum sem ég man til að nefndar hafi verið til sögunnar í bókmenntasögu fyrri alda hefur ekki farið mikið fyrir Björgu í íslensku bókmenntalandslagi; þó nóg sé til af ævisögum og ritum um dauða karla þá fer minna fyrir dauðum konum. Þó dúkkaði Björg upp í tveimur ritum á aldaafmælinu, annarsvegar er texti sem talinn er hennar prentaður í fræðiriti Guðrúnar Ingólfsdóttur, Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar og hinsvegar í skálduðum dagbókarbrotum í ljóðabók Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur, Tungusól og nokkrir dagar í maí. Og svo er það auðvitað bókin sem hér er til umfjöllunar, Bjargræði eftir Hermann Stefánsson.

Hermann Stefánsson hefur verið dálítið ólíkindatól í íslenskum bókmenntum. Sem fræðimaður skrifar hann texta sem iðulega eru á mörkum fræða og skáldskapar, en greining hans á myndefni hefur sérstaklega vakið athygli fyrir að vera bæði innblásin og aðgengileg. Í skáldskap sínum hefur Hermann sömuleiðis farið víða og skrifað skáldsögur sem kallast á sín á milli jafnt sem við önnur verk, ljóð sem spanna vítt og breitt svið ljóðagerðar, og sjálfævisöguleg verk eða verk sem á ýmsan hátt vísa til ‚veruleikans‘, það er að segja, þekktir einstaklingar eru nafngreindar persónur og fleira í þeim dúr. Í skáldskap sínum er Hermann einmitt mjög oft að fjalla um veruleikann, hvað hann sé og hver séu mörk hans.

Það er því vel við hæfi að slíkur höfundur skrifi sögu um annað ólíkindatól skáldskaparins, Látra-Björgu, kraftaskáld, flakkara og almennt séð konu sem viðhafði svo mikinn skarkala að hún náði að stinga fætinum inn í gætt hinnar karllægu kanónu íslenskrar bókmenntasögu.

Hér er þó ekki um ævisögu að ræða í neinum skilningi, hvorki skáldaða né fræðilega. Frekar er þetta skáldsaga um samslátt tveggja einstaklinga á ólíkum tímum, fólk og tími falla saman – og sundur – og áherslan er á kraftmikil átök: bókstaflega því Björg var kraftaskáldkona, orðum hennar fylgdu álög. Jafnframt er sagan um tungumál og skáldskap. Líkkistusmiðurinn Tómas, maðurinn sem særir Björgu fram, þráir að vera skáld en er almennt séð frekar mikil liðleskja í því jafnt sem öðru. Átök hans við skáldkonuna felast meðal annars í því að hann vill læra af henni. Vissulega kemur ýmislegt fram um ævi Bjargar, svona eftir hendinni, en það eru ekki aðalatriði verksins. Á þennan hátt minnir Bjargræði Hermanns á Rökkurbýsnir Sjóns, bæði verkin nýta sér ákveðin atriði úr ævi þekktra einstaklinga til að smíða sögur um heimsmyndir, skáldskap, land, þjóð og yfirnáttúru.

Þó vissulega megi skynja tilvísanir til samtíma í Rökkurbýsnum heldur Sjón sig alfarið við fortíðina en leið Hermanns er sú að stefna saman tveimur tímum. Sagan er sögð í fyrstu persónu, af Björgu sjálfri, sem er ekki par hrifin af því að hafa verið kölluð á reykvískt kaffihús. Hluti sögunnar er reyndar samfélagsgagnrýni, eða kannski frekar gagnrýni á nútímann, þar sem viðhorfi átjándualdar er beitt á nútímafyrirbæri, allt frá pólitík til spjaldtölva og margt í því er afar hressandi og vel heppnað, þó þar liggi líka helsti veikleiki verksins, því á stundum verður „blábunan“ svolítið þreytandi og myndhverfingarnar sömuleiðis. Að öðru leyti er skáldsagan rammsterk og rígheldur, samslátturinn milli heimanna er fimlega ofinn og fullur af átökum, ekki síst átökum milli Tómasar og Bjargar en samtal þeirra fer að miklu leyti fram í annarri persónu og annarar persónu frásögn verður meira áberandi eftir því sem á líður. Þetta er kunnuglegt bragð frá Hermanni, en ein ljóðabók hans, Högg á vatni (2009), einkennist sömuleiðis af vinnu með annarar persónu ávarp.

Þessi hugmynd um tvenna tíma er síðan endurspegluð í tvöfeldninni sem kynnt er snemma til sögunnar: „Og er ekki þar komið erindi þitt, Tómas, við mig, tvöfeldnin? Hvernig getur maðurinn verið heill, og ef hann tvöfaldast, hvernig getur hann sætt sínar tvær hliðar?“ (22) Þó Björg bresti í þulur um neikvæðar hliðar tvöfeldninnar, þá má segja að tvöfeldni sé ríkjandi, í þeirri einföldu merkingu að í verkinu er allt tvöfalt: tveir heimar, tvær persónur, átök milli tveggja hugmyndaheima, andstæður innan Bjargar og Tómasar, lífs og dauða og þannig mætti áfram telja. Jafnframt má segja að sagan gangi líka út á ákveðna tvíræðni, en „blábuna“ Bjargar er iðulega tvíræð og mótsagnakennd: „Ég veð úr einu í annað, það má vera, aldirnar hafa fyllt mann óeirð og mælsku og stendur út úr mér blábunan“ (159). Sömuleiðis kemur tvöfeldnin og tvíræðnin inn í því að það fer ýmsum mótsagnakenndum sögum af Björgu og heimildir eru iðulega tvísaga: „Þeim ber ekki saman um það heimildarmönnunum hvorum megin fjarðar ég sé grafin“ (16).

Skáldsagan spannar vítt og breitt svið, bæði í tíma, rúmi og viðfangsefni. Eins og áður segir er samfélagsádeila nokkuð áberandi og er þar hart deilt á yfirvöld, bæði á tíma Bjargar (þá aðallega presta en líka sýslumenn) og í nútímanum en Björg bendir réttilega á að yfirvaldið hafi ekki skánað. Inn í þetta blandast svo heimsmyndir tveggja tíma. Farið er víða um land og flakk Bjargar svo speglað í Reykjavík, en borgin fær sinn skammt af ákúrum. Inn í þetta fléttast svo persónulegri málefni, af ástum Bjargar og Tómasar, saga af börnum, dauða, svikum og samlífi. Þar nýtir höfundur sér vel tvírætt nafn Bjargar sem bæði vísar í hjálp og kletta, en sjálfsmorð og hugmyndin um að henda sér og/eða falla fram af hömrum er eitt af mörgum stefum verksins. Skáldskapurinn sjálfur er af eðlilegum orsökum mikilvægt þema, enda sagan stungin kvæðum Bjargar sem Hermann kallast á við með kraftmiklum kvæðaromsum.

Það er þessi vinna með samþáttun og átök milli ólíkra sviða – tvöföldunin – sem gerir skáldverkið svo öflugt, vinna sem kemur fram í tungumálinu og beitingu þess, meðal annars notkun fyrstu og annarrar persónu. Átökin við og í tungumálinu spegla svo enn eitt svið skáldsögunnar sem er hafið. Björg sótti sjó og var formaður á bát og hún elskar hafið umfram allt: „Haf, allt er haf, hafsjór vætlar hvunndags í hvurn krók og kima í hugskotinu, steypist svo í stórsjóm yfir vitundina alla“ (66). Hafið sem er bæði gjöfult og miskunnarlaust með sínum straumum og stórsjó, öldum og brimi, flóði og fjöru, setur mark sitt á allan textann og byggingu verksins og kallast á við tvöfeldni, tvíræðni og andstæður: „Magnað hversu haf tengir meðan vegir skilja að, finnst þér ekki? [...] Haf tengir, land aðskilur, vegirnir liggja þöglir og tómar ófærur í allar áttir en sjórinn ymur“ (66). Segja má að skáldsagan hefist með miklum öldugangi og stórflóði, en síðan róast takturinn og það byrjar að fjara – ekki þó í þeirri neikvæðu merkingu að verkið fjari út, heldur hægist á frásögninni og átökunum, tónninn mildast og brimið lægir (þó jafnframt verði kaflaskiptin örari). Sömuleiðis er textinn stórstreymur eins og hafið, flæðir fram í áköfu brimi og ólgar af lífi – og dauða.

Hrynjandi hafsins fellur saman við hrynjanda kvæðanna og það eru einmitt þessir hafstraumar sem togast á og soga lesanda inn í verkið: það er ómögulegt annað en að sleppa landfestum og barasta fara á flot og leyfa kraftaskáldinu að umlykja sig sterkum örmum, blíðum og stríðum í senn.

úlfhildur dagsdóttir, febrúar 2017