Beint í efni

Bjarna-Dísa

Bjarna-Dísa
Höfundur
Kristín Steinsdóttir
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Draugasagan um Bjarna-Dísu er kannski ekki eins þekkt og frægustu íslensku draugasögurnar, en hún er samt afar minnisstæð, ekki síst fyrir lýsinguna á háttalagi afturgangna. Samkvæmt sögunni þurfa afturgöngur að feta sig fjóra faðma burt og stökkva so öfugt í einu hlaupi jafnfætis aftur í bæli sitt. Tveimur þessara hafði Dísa náð þegar komið var að henni eftir fimm daga dvöl í fönn, en það þriðja vantaði og því náði hún ekki að verða eins kraftmikil og skyldi. Annað eftirminnilegt atriði úr sögunni er svo auðvitað klæðaburður stúlkunnar, enda er það hann sem hvað mest er gert úr, en Þórdís þótti fín með sig og vildi aðeins ganga í þunnum fötum með útlendu sniði. Að auki var hún svarri í skapi og því má ljóst vera að konan var frá upphafi varasöm og ekki nema eðlilegt að svona færi.

Þjóðsagan er í stuttu máli þessi: Bjarni Þorgeirsson er á ferð yfir austfirði og systir hans Þórdís slæst í för með honum. Þegar þau ætla að leggja af stað yfir Fjarðarheiði „var veður þykkt og snæfall með talsverðu frosti“ („Bjarna-Dísa“, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, bindi III, 1958, bls. 298). Óveðrið skellur samviskusamlega á og Dísa þreytist og gefst upp. Bjarni grefur hana í fönn og heldur áfram og kemst að lokum illa farinn að bænum Firði í Seyðisfirði. Óveðrið heldur áfram, en „á fimmta dægri eftir að hann skildi við Dísu rofaði lítið eitt til“ (299) og Bjarni leggur af stað með bóndanum í Firði, Þorvaldi sem lýst er sem óttalausum manni, og Jóni vinnumanni sem kallaður er drengur góður. Um nóttina finna þeir Dísu, það er tunglskin og veður í skýjum – menn voru ekki  ónæmir á dramatískt andrúmsloft á átjándu öldinni. Þeir heyra öskur og sjá svo Dísu: „Var hún þá ei, sem hann mundi vænta dauðrar manneskju, liggjandi, heldur er hún því líkast sem menn eru á setum sínum. Léreftskjóllinn var í göndli um mittið á henni gaddfrosinn og hún ber fyrir neðan og berhöfðuð“ (299). Þorvaldur tekur hana í fang sér og ætlar að færa hana í buxur sínar, til að hún væri ekki ber, en þá öskrar stúlkan á ný. Þorvaldur ógnar henni öllu illu og „skaut Dísu hart niður“ (300), klæðir hana svo og býr um á börum. Þeir halda heim en Dísa gengur aftur og er meðal annars kennt um að þrettán börn Bjarna deyja „öll ung og bráðlega“ (300). Hún nær sem sagt að ganga aftur, þrátt fyrir að hafa ekki klárað stökkin.

En nú hefur Dísa náð þriðja sporinu, ef svo má segja, því Kristín Steinsdóttir hefur skrifað um hana skáldsöguna Bjarna-Dísa. Þetta er söguleg skáldsaga, að hluta til byggð á heimildum um Þórdísi, auk draugasögunnar. Sagan hefst á því að þau systkynin leggja á heiðina, alveg eins og í draugasögunni og henni lýkur á því að Dísa finnst. Inn í þessa ferða- og hrakningasögu er svo skotið lífshlaupi Dísu, auk sögu móður hennar og móðursysturinnar Veigu. Allt er þetta haganlega smíðað, vandað og vel á haldið, en þó kannski ekki sérstaklega kraftmikið. Mögulega kemur það til af því að Kristín er hér að reyna að vega upp á móti sögunni um Dísu, sem sýnir stúlkuna í mjög neikvæðu ljósi, svo ekki sé meira sagt. Í staðinn er brugðið upp nokkuð hefðbundinni sveitasögu, um unga lífsglaða og skapmikla stúlku, sem þrátt fyrir fátækt og fátæklegan bakgrunn á sér drauma um annað líf, ástir og ævintýri.

Kristín tekur þá afstöðu að hafna því alfarið að Dísa hafi verið svo vitlaus að klæða sig ekki  betur fyrir ferðina yfir heiðina. Í því felst helsti glæpur Dísu og í þá lýsingu má einmitt lesa þörf hennar fyrir að lifa öðru lífi en hún gerir; metnaður fyrir að vera betri. Í sögu Kristínar hefur Dísa vissulega þann metnað, en hann birtist ekki í því heimskulega háttalagi að rjúka fáklædd út um hávetur heldur í því að fylgjast vel með umhverfi sínu, ekki síst þegar hún er í vist hjá fínni frú á Eskifirði. Metnaðurinn verður Dísu að falli í þjóðsögunni, en þrá eftir einhverju útlensku þótti ekki gott – hvorki þá né nú, ef marka má póltíska umræðu síðustu ára. Þjóðfræðingurinn Terry Gunnell hefur bent á að margir af skæðustu draugum landsins eru útlendingar, eða aðkomumenn á einhvern hátt og Dísa fellur ágætlega að því; þó hún sé íslensk þá dreymir hana um erlent regn.

Það sem er þó mest áberandi við sögurnar – þjóðsöguna og skáldsöguna – er ekki bara þrá Dísu eftir betra lífi erlendis – eða að erlendri fyrirmynd – heldur það að þetta er þrá stúlku eftir slíku, vinnustúlku þar að auki. Það er því bæði stéttaskipting og kynjamisrétti sem hér býr að baki og er svo vandlega undirstrikað í lýsingunni á því þegar Þorvaldur bóndi og Bjarni bróðir klæða hana í buxur Þorvaldar – beinlínis hefta hana með tákni karlveldisins, svo gripið sé til femínískrar orðræðu.

Í bók sinni From the Beast to the Blond (1995) ræðir Marina Warner konur í þjóðsögum og ævintýrum, ekki bara sem persónur heldur líka sem sögukonur. Áhersla Warner er að kanna hvernig konur hafa notað sér þessar frásagnir til að fjalla um ýmis þau málefni sem snerta konur sérstaklega, auk þess sem hún ræðir kvenpersónur og sögukonur í samhengi við þá ríkjandi hefð að sjá þennan sagnaarf sem höfundarverk karla, þeirra þekktastir eru aðvitað Grimms bræður (sem Jón Árnason tileinkar sagnasafn sitt). Það þarf ekki miklar ófreskigáfur til að skoða skáldsögu Kristínar Steindóttur í ljósi þessara skrifa Warner, en sú síðarnefnda hefur einnig skrifað skáldskap og fjallar í bókinni meðal annars um þátt nútímaskáldskapar í endurvinnslu á kvenímyndum ævintýra og þjóðsagna.

Skáldsaga Kristínar sýnir allt aðra mynd af Dísu en þá sem birtist í þjóðsögunni, auk þess sem hún setur ferðalagið í samhengi og lýsir svo upplifunum Dísu þessa daga sem hún liggur í fönninni. Þannig er hún á vissan hátt að ‚skýra‘ þjóðsöguna, án þess þó að dauðhreinsa hana, en eitt af því skemmtilegasta við bókina fannst mér lýsingin á hjátrú þessa tíma og þeirri stöðugu ásókn drauga sem Þórdís verður fyrir þar sem hún liggur í fönninni. Vissulega má lesa það sem afsprengi ótta, næringarskorts, kulda og einangrunar, en sú skýring gengur þó ekki að fullu upp. Kristín snýr því dæminu við: í stað þess að segja frá Dísu sem afturgenginni meinvætt lýsir hún því hvernig hún sjálf verður fyrir ásóknum, drauga og manna, sem á endanum verða henni að aldurtila.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012