Beint í efni

Blíðfinnur og svörtu teningarnir – Lokaorrustan

Blíðfinnur og svörtu teningarnir – Lokaorrustan
Höfundur
Þorvaldur Þorsteinsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þarsem ég stend hér í flæðarmálinu og horfi út á hafið...

Neineinei, þetta gengur ekki, enda ég bara stödd í kjallara í miðborginni, skammdegið í algleymi og hvergi sjó að sjá. Hinsvegar finnst mér ég vera stödd í flæðarmáli, einmana og dálítið ráðvillt þegar ég hugsa um nýjustu – og væntanlega síðustu – bók Þorvaldar Þorsteinssonar um Blíðfinn. Þetta kemur annarsvegar til af því að heimurinn sem Þorvaldur skapar utanum söguhetju sína er að vanda það áhrifamikill að ég lifi mig gersamlega inní hann, og hinsvegar er ástæðan sú að ég veit eiginlega ekki alveg hvað mér á að finnast um þessa bók (einmanaleikinn kemur til af því að enginn annar sem ég þekki hefur lesið hana og því get ég ekki rætt málið). Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum, en einhvernveginn finnst mér þessi nýjasta saga dálítið dauflegri en hinar. Þó finn ég að líkt og Blíðfinnur neyðist til að taka nýjar aðstæður í þessum lokakafla í sögu sinni í sátt, þá hneygist ég til að gera það líka.

Í næstu bók á undan, Ferðinni til Targíu, var lesandi skilinn eftir með Blíðfinni, einum í flæðarmálinu í ókunnugu landi óvina. Blíðfinnur, sem í fyrstu bókinni leggur upp í mikið ferðalag í leit að vini sínum barninu, finnur það ekki en missir annan vin í ferðinni, hefur í þriðju bókinni orðið fyrir enn meiri missi, enn á ný er það vinamissir en einnig hinn óhugnanlegi bruni vængjanna, sem voru hans helsta stolt og gleði. Þetta gerir Blíðfinn svo reiðan að hann leggur af stað í aðra ferð, að þessu sinni að leita hefnda, og sú ferð endar, eins og áður sagði, í flæðarmálinu í Targíu, borg Hinnanna, en þar ku Otti hinn illi brennuvargur búa. En í millitíðinni hefur eitthvað undarlegt gerst – eða var það í bígerð allan tímann? Tíminn sjálfur virðist villtur, og sömuleiðis veruleikinn, því Blíðfinnur uppgötvar fljótlega að hér bíða engir óvinir, heldur aðdáendur, ævintýrapersónunnar Blíðfinns, sem allir þekkja, allir vita að var aldrei til, og allir dá og vilja bregða sér í hlutverk hans. Blíðfinnur lendir sumsé í raun inni í miðri sögu – eða miðju leikriti – um sjálfan sig og komu sína til Targíu. Í leiðinni uppgötvar hann að hann hefur elst, er orðinn gamall maður sem staulast um og þarf stuðning og hjálp. Og nú, góðir lesendur, má í raun og veru ekki segja meira, því þá er allt ónýtt! Og læt ég því staðar numið með söguþráð.

Það er ljóst að Þorvaldur er að halda áfram með það verkefni sitt að bjóða börnum uppá að takast á við erfiðar tilfinningar í gegnum bóklestur. Bókin kallast um margt á við fyrstu bókina, en þó er ljóst að heilmikið hefur gerst á milli, hinn þó sakleysislegi heimur sem við kynntumst í fyrstu bókinni – heimur sem einnig bjó yfir miklum hættum – er hér alveg að baki, og nýr kafli í tilveru Blíðfinns tekinn við. Á sama hátt er þessi saga mjög ''bókmenntaleg'' eins og fyrsta sagan, því hér er fjallað um söguna sem sögu jafnhliða því að hún gerist. Þetta kemur vel út og passar vel inní þá breyttu heimsmynd Blíðfinns sem birtist okkur í Lokaorrustunni, en sú heimsmynd líkist dálítið okkar veruleika hér, í Reykjavík, ef marka má kortið sem fylgir. Á vissan hátt á ég enn dálítið erfitt með að sætta mig við þessa sögu, þó á vissan hátt sé ég mjög ánægð með hana og sjái glöggt að þetta er akkúrat sagan sem þurfti að koma í kjölfarið á Targíuferðinni, og sagan sem endar söguna um Blíðfinn. Kannski er ég bara eins og Blíðfinnur, vil helst halda í barnið úr fyrstu sögunni og viðhalda þeim heimi. Allavega er þetta sú Blíðfinnsbók sem hefur vakið mig hvað mest til umhugsunar, um bækurnar allar, viðbrögð mín við barnabókum og fantasíum, og sjálfsagt fleira. Og það hlýtur að vera merki þess að eitthvað sé gert rétt.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004