Beint í efni

Blindhæðir

Blindhæðir
Höfundur
Ari Trausti Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðabók Ara Trausta Guðmundssonar, Blindhæðir, er í raun einskonar saga í ljóðum, saga af lífshlaupi drengs sem elst upp í borg, flytur í sveit, en snýr aftur til borgarinnar og verður ástfanginn.

Ari Trausti hefur verið afkastamikill rithöfundur, bæði á sviði fræða og nú síðustu árin á sviði skáldskapar. Tvö þemu hafa verið áberandi í skáldskapnum, annars vegar bernskan og hins vegar ferðin, en þar sækir höfundur greinilega í eigin reynslu. Í þessari nýju bók eru ferðaljóðin fyrirferðarminni, en í staðinn birtist lífshlaupið sem einskonar ferðalag.

Bókinni er skipt í fjóra kafla. Sá fyrsti nefnist „fyrir löngu” og þar er fjallað um bernskuna. Ljóðin eru skrifuð í annari persónu og barnið sem var „fyrir löngu” er ávarpað. Lítill prakkari klifrar „óstöðugur” upp í hillu til að „hvísla heitum óskum” að rauðum glerfugli í ljóðinu „Glerfuglinn”. Í „Kolakrananum” minnir kolakraninn við höfnina drenginn á geimverurnar í Innrásinni frá Mars, „skrölti nær með kjaftinn gapandi // það neistaði af klónum / ískrið nísti // meira að segja dauðu marhnútarnir þínir / skulfu // þú óskaðir þess innilega að þig væri að dreyma”. Fjallgangan kemur fyrir í ljóðinu „Öskjuhlíð”, en þar er drengurinn orðinn aðeins eldri og ímyndar sér að hann sé að ganga á framandi fjöll, „búðirnar á leiðinni tvær / með lokkandi góðgæti”. Hallgrímskirkja birtist hálfbyggð, „með dimmum skotum / hrufóttum súlum” í ljóðinu „Hjá Steinkudys”, og „oddmjóir járnteinar / á litinn eins og gamalt blóð / titruðu stundum með lágværum hvin”. Þarna hafði Steinka legið „dysjuð í fúakistu / morkin / glottandi / sögð hafa morðingjahendur”. En svo ber sorgina að dyrum þegar faðirinn deyr. Í „Himinn” er morgunhiminninn ekki sólgullinn, bleik ský „leysast hægt upp // eins og lífið í brjósti pabba / í þvældum línklæðum” og drengurinn reynir að fela sig „sjá hvorki himin né ský // ekkert hvítt // inni í lúnum skáp / þar sem sumarskórnir liggja”. Hann verður að skilja við systur sína, kveðja borgina og fara í sveit.

Næsti kafli hetir svo „í sveitinni” og þar birtast minningar og myndir úr sveitalífinu. Fyrsta ljóðið, „Veröldin undir Karlsvagninum”, lýsir því hvernig kerruvagninn er alltaf fastur í tröðum, snjótröðum á veturna og malartröðum þegar snjóa leysir. Enn er ávarpið notað: „en þig grunar að dag einn / komistu eigin leiðir”. Reyndar er þetta ávarp gegnumgangandi í verkinu og skapar óræðan tón, eins og ljóðmælandi sé að skoða sjálfan sig og lífshlaup sitt úr einhverskonar fjarlægð. Þetta gefur sjálfsskoðuninni sem einkennir svo oft ljóðið dálítið sérstakt yfirbragð.

Þráin eftir því að komast burt einkennir mjög ljóðin í öðrum kafla, en þó birtist líka ást á sveitalífinu sem tekur á sig einkennileg form eins og þegar drengurinn neitar að brenna andvana fædd lömbin heldur „safnar þeim í hjólbörur / strýkur hrokkin höfuð / stuggar við hröfnum og svartbaki” og hendir þeim svo í sjóinn „undir bæn þinni”.

Í þriðja kaflanum snýr drengurinn aftur til borgarinnar og hittir systur sína. Yfirskriftin er „í borg sem var” og gefur til kynna að ýmislegt hafi breyst, enda lýsir kaflinn miklum sviptingum í lífi drengsins. Hann fer í skóla og ferðast með strætó og í götunni hans býr listafólk sem hann fylgist með, ekki síst konunni sem saumar nakin og syngur. Drengurinn vex upp og ferðast en kemur samt alltaf aftur, í síðasta ljóðinu „Endurlit” heimsækir hann gamla húsið sem nú er yfirgefið og illa farið: „stundin varð stutt”.

Síðasti kaflinn nefnist „núna” og þar tekur hversdagurinn við. Nútíminn kemur fyrst í formi „Facebook 702”, en þar skiptast systkinin á kveðjum í gegnum fésbókina, systirin er greinilega flutt langt burt og henni „fer aftur í móðurmálinu með hverju ári”. Sum ljóðanna fjalla um listamannsdrauma og önnur um einmanaleika, sem í ljóðinu „Við opinn glugga” birtist í formi minninga: „svo minnistu gömlu malartraðanna // gengur þær í huganum / fram og til baka / jafnvel daglangt // fram og til baka / meðan orðlaust fólk horfir á þig / utan af götunni”. En svo kemur ástin. Henni fylgir þó dauðinni: „hjarta þitt dugði ekki tveimur” og síðustu ljóðin lýsa flakki um borgina, einmanaleika og loks áramótum sem gefa nýja von.

Það er heilmikil dramatík í þessum ljóðum eins og lýsingarnar gefa til kynna og gerir hún ljóðin á stundum óþarflega þunglamaleg. En inni á milli dregur höfundur upp öflugar myrkar myndir, ekki síst í bernskukaflanum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010.