Beint í efni

Blindir fiskar

Blindir fiskar
Höfundur
Magnús Sigurðsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2011
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ljóðið sjálft og það að skrifa er Magnúsi Sigurðssyni hugleikið í ljóðabók hans Blindir fiskar. Það þarf svosem ekki að koma á óvart, því fyrri ljóðabók hans, Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu (2008), einkennist af tilvísunum í ljóð annarra skálda. Hér eru það þó ekki tilvísanir sem eru mest áberandi, heldur frekar ýmiskonar hugleiðingar um áhrif ritmáls og möguleika ljóðsins og jafnvel uppruna hugmynda, en titill bókarinnar vísar til þeirra. Ljóðið nefnist „sýki” og þar má greina tilvísun til Steins Steinars, en ljóðið hefst svo: „vitund mín / er svart, klístrugt / síki”:

og djúpt niðri í sýkinu
svamla
hugsanir,

þessir blindu fiskar
sem vaka
og rita 
öðruhverju

tilhæfulausar línur
í kyrrt 
yfirborð

vatnsskorpunnar

Eins og sjá má er mínímalisminn hér áberandi og er hann ríkjandi í bókinni - ólíkt fyrri bókinni, en þar eru ljóðin almennt orðfleiri auk þess sem nokkur eru í ætt við prósa. Það þýðir þó ekki að hér séu „tilhæfulausar línur”, þvert á móti, þá hugnaðist mér Blindir fiskar mun betur en Fiðrildi, mynda og spörfuglar Lesbíu, það er léttara yfir henni - ekki síst vegna þess hve stutt ljóðin eru, en þó finnst mér hún veigameiri, og fyrst og fremst skemmtilegri.

Þó er það ekki endilega svo að hér skipi Magnús Sigurðsson sér í hóp fyndinna skálda, en það er eitthvað gleðilegt við bókina (þrátt fyrir allar sjálfsmorðskveðjurnar sem finna má í miðkaflanum), gleði í tungumáli og myndmáli, öflugum og óvæntum myndum sem skáldið kallar fram með öguðum stíl. Á einhvern hátt minnti þetta mig svolítið á ljóð Gerðar Kristnýjar, þó vissulega séu þau Magnús gerólík skáld.

Óvæntar myndir segi ég, og er þá ekki síður að tala um einfaldan, næstum dálítinn hallærislegan orðaleik sem Magnúsi tekst að gera sniðugan. Dæmi um þetta er ljóð snemma í bókinni, „Upphaf”, en þar kemur fram að endalokin reynast líka verið upphaf: „og líf mitt er bátskel / á opnu / upphafi”. Þetta fannst mér skondið, einmitt fyrir hvað myndin er í raun dáldið fimmaurabrandaraleg.

Mér líkaði líka vel við „vorvísu”, en þar fréttum við að „hver dagur” sé líkur þeim næsta, „nema / hvað / það birtir”. Og birtan þýðir svo bara það „að brátt / nálgast myrkrið / óðfluga aftur”. Nei hér er ekki verið að yrkja um brum og líf sem kviknar.

Vorvísuna má einmitt sjá sem dæmi um tilvísun til ljóðahefðarinnar, en eins og áður segir er nokkuð um slík ljóð. Miðkaflinn nefnist „fimm kveðjur + sjálfsmorð” og geymir hann sex ljóð sem ort eru í minningu skálda. Í lokakaflanum eru nokkur ljóð sem tengjast skrifum. Í einu þeirra rignir blýi og í öðru yddar ljóðmælandi plútó-blýant og beitir sem vopni. Ljóðið nefnist „lófale(m)stur”. Skemmtilegast fannst mér samt ljóðið „í skefjun” en þar er penninn og bókin aftur notuð sem beitt vopn, en nú af öðrum toga:

klukkan er tvö 
að nóttu

umferðaniðurinn
hljóðnaður,
langt í svefninn
enn, og nógur
tími fyrir hugsanirnar
að gera glennur

með pennanum 
og bókinni
held ég þeim 
í skefjun

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2011