Beint í efni

Blóðhófnir

Blóðhófnir
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er best að koma því frá strax: bók Gerðar Kristnýjar um nöfnu hennar jötnameyna sem Skírnir þvingar til fylgilags við frjósemisguðinn Frey er einfaldlega snilld. Bara svona. Í raun ekkert meira um það að segja og hægt að hætta hér.

Gerður Kristný er fjölhæfur höfundur og líflegur penni og almennt séð margt til lista lagt, en þó eru það ljóðin hennar sem standa uppúr höfundarverkinu og rísa enn hærra með þessari nýjustu afurð, Blóðhófni. Bókin er í raun eitt ljóð, ljóðabálkur sem kallast á við eitt frægasta ljóð Eddukvæða, Skírnismál. Í Skírnismálum er sagt frá því að Freyr, þá unglingsstrákur, hafi stolist til að setjast í sæti Óðins en þaðan er útsýni yfir heim allan. Hann kemur auga á stúlku, jötnameyna Gerði, og verður svo ástfanginn að hann er ekki mönnum sinnandi. Félagi hans Skírnir tekur að sér að vinna meyna, en krefst þess að fá að launum sverð Freys og fák hans að láni. Skírni tekst ætlunarverk sitt, en þó ekki með góðu, því Gerður vill ekkert með frjósemisgoðið hafa og því grípur hann til blóðugra hótana og ætlar að lokum að særa hana niður með galdri. Þá gefst stúlkan upp og lofar að leggjast með Frey.

Í viðtökusögu íslenskra bókmennta hefur ljóðið yfirleitt verið túlkað sem ástarljóð, frjósemismýta og manndómsvígsla og talið afar fagurt. Undantekningin á þessu eru skrif Helgu Kress sem sýnir fram á að ljóðið fjalli um kynferðislegt ofbeldi en ekki ást og hjónaband, eins og kemur vel fram í því að Skírnir þarf að kúga konuna til undirlags við Frey (sjá Máttugar meyjar eftir Helgu Kress). Matthías Viðar Sæmundsson tekur kannski ekki beint undir með Helgu, en í bók sinni Galdrar á Íslandi bendir hann á að galdrar þeir sem Skírnir ógnar Gerði með eru sérlega illskeyttir og að í galdraþulunni sem hann les yfir henni búi hótun um nauðgun og ofbeldi. Hann gagnrýnir því hefðbundnu túlkunina um frjósemisathöfn og nefnir að Gerður sé fyrst og fremst fórnarlamb.

Það eru síðarnefndu sjónarmiðin sem birtast í Blóðhófni. Ljóð Gerðar Kristnýjar er mælt fram af nöfnu hennar, jötnameynni Gerði, og endursegir Skírnismál út frá sjónarhorni konunnar. Hún á sér einskis ills von þegar Skírnir kemur á fola Freys, en ljóðmálið segir okkur að illt er í efni: „Þegar hófar skullu / á klöppum / var sem bein brysti”. Hann segir henni af ást Freys og örvinglan, „Beðið væri / eftir brúði”. Gerður afþakkar boðið: „Nei // Ég kaus að vera / um kyrrt / þar sem ég þekkti / hverja dæld / og drag // árnar runnu / um æðar mér”. Hér fylgir höfundur hefðbundinni túlkun um jötnameyna sem einskonar fulltrúa náttúrunnar, en samkvæmt hefðinni þarf hún að sameinast frjósemisgoðinu til að náttúran verði tamin til ræktunar. Hér má því sjá ummerki um valdbeitingu karlmannsins bæði gegn konum og náttúru.

Eftir að frekari loforð gefa lítið af sér byrjar Skírnir að hóta: „Ástin komin / með alvæpni // Drengurinn dró fram / sverð hert í hatri // skeftið skorið úr grimmd”. Hér gefur höfundur til kynna enn frekari andstæðu milli konunnar og plagara hennar, hún er þroskuð og íhugul, nýtur síns einfalda lífs, meðan Skírni er lýst sem ‘dreng’, frekjulegum strák sem hugsar bara um að ná því fram sem hann vill, og veður yfir allt og alla án þess að hugsa út í afleiðingarnar. Slíkir piltar hafa einmitt komið íslensku samfélagi fyrir kattarnef og enn birtist hér valdníðsla karlmannsins, eða réttara sagt, þráin eftir karlmennskuímyndinni.

Afleiðingar ofurástar og valdníðslu Freys eru hinsvegar málið í ljóði Gerðar Kristnýjar, en Freyr ferst í Ragnarrökum einmitt vegna þess að hann í losta sínum lét sverðið eftir. Þessi frægu og bitru endalok norrænu goðanna, sjálf Ragnarrökin boðuð í Völuspá, eru í Blóðhófni sýnd í alveg nýju ljósi. Því undir lok ljóðsins situr Gerður með son sinn við brúna Bifröst og bíður þess að bræður hennar og frændur ráðist til atlögu og hefni hennar: „Ég bíð / endalokanna // Frændur munu / flykkjast yfir brúna // hefna / horfinna kvenna”.

Blóðhófnir kallast óhjákvæmilega á við annað frægt skáldverk sem einnig fjallaði um vald karla, bæði innan norrænu goðsagnanna og yfir túlkun þeirra, en það er auðvitað bók Svövu Jakobsdóttur, Gunnlaðarsaga (1987). Gerður Kristný hefur enda margoft lýst sig undir áhrifum frá Svövu. Líkt og í Gunnlaðarsögu felst í Blóðhófni kraftmikil femínísk yfirlýsing, en þó er hér ekki um einfaldan áróður að ræða heldur standa bæði verkin fullkomlega fyrir sínu sem skáldverk, og rúmlega það. Bók Gerðar Kristnýjar er ennfremur sérlega fallegur gripur, vel hönnuð og myndir Alexöndru Buhl augða enn á andríki textans.

Það er hrein unun að lesa ljóð Gerðar Kristnýjar, hvort sem sagan er þekkt eða ekki. Ljóðmál hennar hafa alltaf einkennst af sterkum, fáguðum og öguðum myndum, sem hún hefur hér fullkomnað í fínlegum og ögrandi ljóðabálki. Öllu er vel til haga haldið, allt frá upphafinu þegar Gerður ber Ásgarð saman við jötunheima sína. Hún situr við brúna og horfir yfir: „Þar er landið mitt / vafið náttkyrri værð / steypt í stálkaldan ís”, „Hér situr tungl / yfir dölum og ám”, „Heima yfir / hrolldjúpum gljúfrum”. Lýsingin á heimi jötna er vissulega grimm en býr þó yfir fegurð og söknuðurinn er áþreifanlegur. Skáldkonan snýr á haus viðtekinni andstæðu goðheimanna og jötnaveldis og lesandi neyðist til að endurskoða hugmynd sína um heimsmynd goðafræðinnar. Heimsmynd goðafræðinnar er svo einmitt notuð í öðru versi, en þar hefur Gerður verið hremmd af Frey og upplifir líkama sinn sem sundraðan, „Ég safnaði / mér saman // Rétti af brúnir / raðaði tönnum / reyrði inni lifur / og lungu”. Myndin hér kallast á við sköpun heimsins í norrænni goðafræði, en hann er einmitt mótaður af sundruðu holdi jötuns. Sköpunin er því endurgerð með öfugum formerkjum, jötnalíkamanum er safnað saman aftur í sitt upprunalega form.

Nokkuð er einnig um tilvísanir í annan skáldskap og sögur, eins og þegar Gerður bítur af gulleplinu sem henni hafði verið lofað og dreymir að hún sé lokuð í glerkistu. Þær eru þó notaðar sparlega, en á afhjúpandi hátt, eins og þegar Skírnir hótar Gerði með Hel: „Hún hjó / uppgjöfinni / í hjarta mér // og hló að mér / um leið”. Skyndilega er Hel, þessi mikla forynja goðsagnanna orðin að álfadrottningu, en vissulega ennþá boðbera dauðans. Álíka beiting andstæðna endurtekur sig tveimur versum síðar: „Hótanir féllu / sem hagl af himni // Enginn kæmi / að sjá mig // nema þríhöfða þurs”.

Ég held að það sé alveg ljóst að meira að segja þríhöfða þurs gæti ekki annað en heillast af Blóðhófni Gerðar Kristnýjar, þó ég ætlist svo sannarlega til að fleiri en hann komi til með að sjá bókina, lesa hana, anda henni að sér, aftur og aftur.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010