Beint í efni

Blóðrauður sjór

Blóðrauður sjór
Höfundur
Lilja Sigurðardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Í fyrstu glæpasögu Lilju Sigurðardóttur er maður sprengdur í loft upp á miðjum Austurvelli. Efalaust hafa einhverjir lesendur hrist höfuðið við þetta atriði þegar bókin kom út árið 2009 og tautað með sjálfum sér: „Svona gerist nú ekki á Íslandi.“ Það má nefnilega gera því skóna að Lilja hafi frá byrjun gert í því að ögra hinni skandinavísku fyrirmynd íslensku glæpasögunnar, sem er með annan fótinn kyrfilega fastan í hráslagalegu norrænu raunsæi. Bækur hennar snúa að alþjóðlegu eiturlyfjasmygli og viðskiptasamsærum; glæpir af allt öðrum mælikvarða en það sem lögreglufulltrúinn Erlendur kallar „týpískt íslenskt morð“ á fyrstu síðum Mýrarinnar eftir Arnald Indriðason, sem setti tóninn fyrir íslenska glæpasagnavorið í kringum aldamótin. Hún gaf út aðra glæpasögu um sömu aðalpersónur strax árið á eftir en sneri sér svo að leikritaskrifum og hlaut Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, fyrir leikritið Stóru börnin sem var sviðsett af leikfélaginu Lab-Loki veturinn 2013-2014. Árið 2015 sneri hún aftur á bókamarkað með spennusöguna Gildran, fyrstu bókina í þríleik hennar um ástkonurnar Öglu og Sonju, og hefur hún gefið út nýja glæpasögu fyrir hver jól síðan þá.

Það virðist vera fátt sem Lilja treystir lesendum sínum ekki til að beisla vantrú sína andspænis. Í bókum hennar æða fram fjöldamorðingjar og sértrúarsöfnuðir, mannskæð tígrisdýr, galdrakonur og álfasteinar. Aðalsöguhetjur Lilju flækjast sjaldnast inn í söguþræði bókanna sem fulltrúar löggjafarvaldsins heldur eru þar á ferð venjulegir (eða óvenjulegir) borgarar sem dragast inn í atburðarásina eða eru í slagtogi með glæpahyskinu. Siðferði aðalpersóna hennar er því oft í brennidepli. Þær taka misgáfulegar eða vafasamar ákvarðanir og umturnast jafnvel úr venjulegu fólki í harðsvíraðan glæpalýð. Stundum réttlæta þær gjörðir sínar með því að þær séu að verja fólkið sem er þeim kærast, en oft eru átökin engu síðri innan þessara fjölskyldu- eða ástarsambanda. Fíkn er einnig ítrekað stef í bókunum; fíkn í áfengi eða eiturlyf jafnt sem fíkn í ást og völd. Þannig er lítið um beinlínis hamingjusama enda í bókum Lilju, en segja má að persónurnar finni sinn farveg – eða hætti að minnsta kosti að berjast gegn eðli sínu.

SPOR (2009)

Í Spor, fyrstu bók sinni, lætur Lilja sér ekki nægja eitt til tvö morð. Áhugasnuðrari hennar, óvirki alkóhólistinn og ástarsöguþýðandinn Magni, er nefnilega á höttunum eftir fyrsta íslenska fjöldamorðingjanum síðan Axlar-Björn var höggvinn; vitstola illmenni sem beitir skapandi lausnum til að murka lífið úr fórnarlömbum sínum.

Magni er á margan hátt gott dæmi um aðalsöguhetju að hætti Lilju. Hann dregst óviljugur inn í morðrannsóknina, hefur sinn djöful að draga og er búinn að brenna flestar brýr að baki. Þegar bókin hefst hefur hann ásett sér að verða nýr og betri maður, er nýsnúinn heim úr meðferð og ætlar sér að feta beinu brautina með hjálp AA-samtakanna og tólf spora kerfisins. Þær fyrirætlanir flækjast þegar fyrrverandi eiginkona hans, lögreglufulltrúinn Iðunn, biður hann um að hafa augun opin á AA-fundum þar sem morðhrinan sem hún rannsakar virðist á einhvern hátt tengjast samtökunum. Þrátt fyrir að eiga nú þegar fullt í fangi með baráttuna við Bakkus lætur Magni til leiðast í von um að sanna fyrir Iðunni að hann sé breyttur maður. Innan skamms eru þau komin á slóðir fjöldamorðingjans og líkin taka að hrannast upp.

Spor nýtur góðs af mjög styrkri og skýrri uppsetningu. Kaflarnir eru tólf talsins og heita eftir skrefunum tólf sem meðlimir AA-samtakanna þurfa að stíga í von um að bæta ráð sitt. Þannig hefur hver kafli ákveðið þema sem leiðir Magna áfram í sínu innra ferðalagi jafnt því sem hann nálgast lausn gátunnar. Myndin sem dregin er upp af Al-Anon samfélaginu á Íslandi, hugmyndafræði samtakanna og veruleika drykkjufólks og óvirkra alkóhólista, ber vott um ítarlega rannsóknarvinnu á efninu og setur bókinni skýra heimssýn. Þessi styrki grunnur virkar sem hæfilegt mótvægi við ofsafengið ofbeldið og allt að því lygilega fléttuna. Svipað mótvægi má sjá í bataferli Magna; hvernig hann reynir að njörva sig niður í fastar og heilsubætandi rútínur – sund, svefn, eldamennsku og holt mataræði – og forðast átök og óvæntar uppákomur sem gætu drifið hann til drykkju. Þessar taktföstu rútínur festa frásögnina í íslensku hversdegi, allt þar til Lilja sprengir það í loft upp – í bókstaflegri merkingu.

FYRIRGEFNING (2010)

Fyrirgefning tekur upp þráðinn sjö mánuðum eftir atburði fyrri bókarinnar um Magna. Þau Iðunn eiga von á barni eftir einnar nætur gaman sem átti sér stað í síðustu bók og Iðunn er flutt inn til hans svo að Magni geti verið til staðar fyrir hana á meðan á meðgöngunni stendur. Magni á sér enn von um að þau nái saman að nýju, þrátt fyrir að hann geri sér einnig dælt við Fríðu, unga konu sem hann kynntist í gegnum samtökin og átti í skammvinnu ástarsambandi við í síðustu bók.

Líkt og í fyrri bókinni verður Magni fyrir ýmsum skakkaföllum þar sem hann reynir að feta fallvaltan veg hins óvirka alkóhólista. Löngunin til að týna sér í flöskunni er aldrei langt undan og nú glímir hann þar að auki við áfallastreituröskun eftir atburði síðustu bókar. Til að vinna úr áfallinu ákveður hann að leggja ástarsöguþýðingarnar á hilluna í bili og endurvekja löngu fyrndan draum sinn um að gerast rithöfundur. Bókin sem hann ætlar sér að skrifa er viðtalsbók þar sem hann talar við aðra þolendur og eftirlifendur ofbeldis um reynslu þeirra og bataferli. Alveg eins og Spor nýtti sér AA-bókina í kaflaskipulagi sínu þá er uppsetning Fyrirgefningar byggð á bókinni sem Magni sjálfur er að skrifa. Kaflatitlar bera fornöfn þolendanna sem hann talar við og köflunum fylgja meira að segja formálar Magna sjálfs, sem kynna þolendurna til sögunnar og fara stuttlega yfir áfallasögu þeirra. Metatextagleði Lilju sem höfundar má enn fremur sjá í því að Magni ætlar sér að titla bókina sem hann er að skrifa Fyrirgefning og gælir einnig við tilhugsunina um að skrifa sína eigin áfallasögu og gefa út á bók undir titlinum Spor. En þegar Magni fer að grennslast fyrir um gerendur ofbeldisins sem viðmælendur hans urðu fyrir uppgötvar hann að flestir þeirra hafa nýverið hlotið makleg málagjöld sem endurspegla grunsamlega skaðann sem þeir ullu.

Eins og í fyrri bókin notast Fyrirgefning við sálfræðistúdíur og meðferðarúrræði til að skapa trúverðugt regluverk fyrir veruleika bókarinnar en þrátt fyrir að Magni berjist enn við hvatir sínar þá er það að þessu sinni áfallastreituröskun hans sem er í forgrunni. Á meðan hann reynir að vinna úr reiði sinni binst hann tryggðarböndum við þolendurna í stuðningshópnum, sérstaklega Fríðu sem á einnig um sárt að binda eftir ódæðisverkin í síðustu bók og ber örin því til sönnunar. Hér birtast þó fleiri persónur sem kynntar voru í Spor – svo margar að varla er hægt að tala um að bókin sé sjálfstætt framhald. Glæpasagnahöfundar láta yfirleitt vera að vísa um of í fyrri bækur sínar, jafnvel þegar um bækur í sömu seríu er að ræða. Þannig er lesendum gert kleift að hefja lestur sinn á hvaða bók sem er í seríunni án þess að skemma fyrir sjálfum sér ánægjuna sem felst í því að leita fyrri bækurnar uppi. Það er hins vegar ljóst að Lilja ætlast til að bækurnar um Magna, líkt og þríleikurinn um Öglu og Sonju sem vikið verður að hér á eftir, séu lesnar í réttri röð. Þetta sést til að mynda í því að í bókinni er engin tilraun gerð til þess að að hylma yfir nafn fjöldamorðingjans í Spor – sem við látum þó ógetið hér.

GILDRAN (2015)

Annars staðar hérna á vefnum kallar Lilja fyrstu tvær bækur sínar „ráðgátusögur“ og stillir þeim upp andspænis bókunum sem hún hefur sent frá sér árlega síðan 2015 – þegar Gildran, fyrsta bókin um Öglu og Sonju, var gefin út. Um þessi kaflaskil í höfundaverki sínu segir hún: „Í Gildrunni ákvað ég að prófa nýtt form og skrifa í svokölluðum spennusögustíl eða það sem er á ensku kallað thriller. Ég fann fljótt að þarna var ég komin á rétta hillu.“ Það er því ekki að undra að strax frá fyrstu síðu Gildrunnar má greina töluverðan mun á höfundarödd Lilju. Til að mynda voru Spor og Fyrirgefning báðar skrifaðar í fyrstu persónu nútíð, líkt og venjan er með einkaspæjarasögur á borð við bækur Raymond Chandler o.fl. Magni sjálfur er sögumaður bókanna og miðlar framgangi sögunnar beint til lesanda. Atburðarásin er bundin viðveru hans á blaðsíðunni og lesandinn er háður þeim takmörkuðu upplýsingum sem Magni hefur á reiðum höndum og þeim atburðum sem hann verður vitni að. Gildran er hinsvegar rituð í hefðbundinni þriðju persónu þátíð. Sjónarhornið er mun frjálsara og skiptist kvikt á milli nokkurra ólíkra lykilpersóna í stuttum og knöppum köflum. Þetta stílbrigði, stuttir kaflar og handfylli af lykilpersónum sem eru í takmörkuðu sambandi og færast í gegnum frásögnina í sitthvoru lagi, átti eftir að verða eitt af megin höfundareinkennum Lilju. Hve mikil breyting þetta er á stíl hennar má glöggt sjá í því að á meðan fyrstu tvær bækur hennar skiptast báðar í ellefu til tólf kafla skipta seinni bækurnar svo ört á milli persóna að þær spanna jafnvel vel yfir hundrað kafla.

Sjónarhorninu í Gildrunni er skipt á milli fjögurra lykilpersóna: Sonja er kona á miðjum aldri sem eftir erfiðan hjónaskilnað og mikla fjárhagskraga hefur leiðst út í að smygla eiturlyfjum fyrir óprútna aðila sem hafa nú bæði tögl og hagldir á henni og senda hana í sífellt áhættusamari smyglferðir. Tómas, sonur hennar, býr á Akranesi hjá föður sínum og fær lítið að hitta móður sína en Sonja réttlætir vafasamt viðurværi sitt með draumsýn um að endurheimta forræði yfir honum og búa þeim mæðginum gott heimili.

Á meðan Sonja reynir að bjarga þeim Tómasi úr klóm íslenskra eiturlyfjabaróna er ástkona hennar, Agla, einnig að berjast um í eigin gildru. Hún er bankakona og sætir rannsókn fyrir hlut sinn í að steypa hagkerfi Íslands í tvísýnu á ribbaldaárunum fyrir hrun, þegar hún annaðist ýmis vafasöm viðskipti til að fóðra vasa auðkýfinga, bankstera og útrásarvíkinga. Þær Sonja eiga í torveldu og stopulu ástarsambandi þar sem Agla birtist á dyraþrepinu hjá Sonju síðla kvölds þegar hún er búin að drekka í sig kjark, en hún hefur ekki ennþá gengist við kynhneigð sinni.

Fjórða aðalpersónan er síðan tollvörðurinn Bragi, sem lifir fábrotnu lífi sem snýst aðallega um daglegar heimsóknir á vistheimilið þar sem eiginkona hans býr. Hún þjáist af Alzheimer á lokastigi og þekkir hann vart lengur en Bragi á sér þann æðsta draum að geta flutt hana aftur inn á heimili þeirra. Til þess skortir hann þó fjármagn til að geta veitt henni þá umönnun sem hún þarfnast. Á milli þess sem hann reynir að bægja burt tilmælum yfirboðara síns í tollinum um hvort ekki sé kominn tími á að hann víki fyrir yngri manni tekur Bragi að gefa gaum ákveðinni, prúðbúinni athafnakonu og tíðum ferðum hennar í gegnum flugstöðina.

Stuttu eftir að við kynnumst Sonju í fyrsta kafla bókarinnar kemur hún auga á unga konu sem hún sér færi á að nýta sér við að koma smyglvarningi sínum inn fyrir landsteinana:

Þessi ókunnuga kona hafði ekki gert henni neitt og undir venjulegum kringumstæðum hefði Sonja jafnvel drepið tímann með því að spjalla við hana um daginn og veginn. En það þýddi ekkert að vera með sektarkennd, konan passaði inn í planið. (8)

Þessi kuldalegu orð slá tóninn fyrir það hvernig aðalpersónurnar í þríleiknum (fyrir utan hinn barnunga Tómas) eru allar að einhverju leyti færar um að bægja frá sér siðferðislegum vangaveltum um afleiðingar gjörða sinna og beita ýmiskonar réttlætingum til að loka á alla meðaumkun eða sektarkennd. Meira að segja Bragi, sem virðist framan af vera fulltrúi löggjafarvaldsins og réttvísinnar í bókinni, er ekki drifinn áfram af neinu öðru en starfsánægju hins sanna búrókrata og skeytir lítið um örlög eða aðstæður burðardýranna sem hann gómar í tollinum með magafylli af smokkavöfðu dópi. Sonja réttlætir gjörðir sínar með því að hún eigi engra kosta völ og hafi hag Tómasar fyrir brjósti, en það er samt ljóst að hún hefur vissa ánægju af færni sinni sem burðardýr – eða eins og haldið er áfram á næstu síðu:

Fyrst eftir að hún lenti í gildrunni fékk hún alltaf sektarkennd yfir hjartslættinum og spennunni og vellíðaninni sem fylgdi í kjölfarið en núna vissi hún að það var ekki hægt að gera þetta án þess að njóta spennunnar. (9)

Réttlætingar Öglu á þeirri markaðsmisnotkun sem hún tók þátt í fyrir hrun eru af öðru tagi en Sonju. Hún hefur lengi lifað og hrærst í karllægum heimi bankamanna, þar sem hún hefur þurft að gerast hörðust og ósvífnust til að öðlast virðingu samstarfsmanna sinna. Í viðtölum hjá sérstökum saksóknara hikar hún ekki við að gangast við ýmsum miður fallegum en engu að síður löglegum viðskiptum sem hún stundaði í nafni bankans. Við Maríu, fulltrúa sérstaks saksóknara, sem á eftir að koma frekar við sögu síðar í þríleiknum, réttlætir hún gjörðir sínar á eftirfarandi máta:

Það voru allir að gera þetta ... Þetta er viðurkennt viðskiptamódel [...] Þetta er bara gangur lífsins ... Maður breytir því ekki. Sá stóri étur þann litla. Þannig er lögmálið. (128)

Þrátt fyrir að Sonja, Tómas, Agla og Bragi skiptist á með sjónarhornið þá er það ótvírætt Sonja sem er í forsvari í þessari fyrstu bók. Meginþráður frásagnarinnar snýr að umbreytingu hennar úr einstæðri móður í fjárkröggum yfir í forhert glæpakvendi – ferðalag sem mun halda áfram í næstu tveimur bókum. Í persónu Sonju, sem svífst einskis til að verja sig og Tómas, má sjá hve langt Lilja er tilbúin að ganga með siðferði persóna sinna og hvernig hún treystir lesendum sínum til að fylgja þeim í rauðan dauðann. Til að mynda hikar hún ekki við að láta Sonju eitra fyrir og drepa einn af hundum tollgæslunnar. Þannig brýtur hún eitt helgasta vé vestrænnar dægurmenningar, sem almennt hefur sett sér þá gullnu reglu að pöpullinn sé tilbúin til að sætta sig við hverskyns morð og limlestingar á fólki svo lengi sem aðalsöguhetjan beri ætíð hag ferfætlinga fyrir brjósti.

NETIÐ (2016)

Bækurnar tvær um Magna voru kannski nátengdar en þríleikinn um Sonju og Öglu má nánast lesa sem eina stóra spennusögu sem spannar yfir 1000 blaðsíður. Þannig er allt í háa lofti við niðurlag Gildrunnar; Agla er á leið í fangelsi fyrir fjárglæpi og Sonja leggst á flótta og tekur Tómas með sér. Við upphaf Netsins, næstu bókar, eru rétt rúmir tveir mánuðir liðnir og Sonja og Tómas eru í felum í hjólhýsahverfi í Florida. Það líða þó einungis nokkrar blaðsíður þar til glæpamennirnir hafa hendur í hári þeirra og neyða Sonju til að taka upp fyrri starfa. Það kemur í ljós að Ísland, sökum staðsetningar sinnar, er í raun ekki annað en stoppistöð fyrir flutning eiturlyfjanna frá einni heimsálfu til annarrar. Sonja gerir sér grein fyrir að eina leiðin til að sleppa úr klóm íslensku eiturlyfjakónganna fyrir fullt og allt er að veikja stöðu þeirra með því að vinna sig upp innan alþjóðlega glæpaveldisins sem stýrir dreifingu efnanna úr fjarlægð.

Hér eru afbrot Sonju þó ekki lengur í fyrirrúmi heldur fær fjárglæpastarfsemi Öglu meira pláss en áður. Rannsókn sérstaks saksóknara á aðild Öglu að markaðsmisferlum bankans fyrir hrun er lokið. Hefur hún því eilítið svigrúm til að ganga úr skugga um að sjóðirnir sem hún hefur falið í aflandsfélögum fyrir vitorðsmenn sína og fyrrum yfirboðara í bankanum séu í öruggu skjóli áður en hún hefur afplánun dómsins sem henni var úthlutaður. Þannig fær lesandinn að kynnast Ingimar, „álprinsi Íslands“, dagfarsprúðum fjárfesti sem lætur lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að vera með puttana í ýmiskonar ólöglegri starfsemi og alþjóðlegum viðskiptasamsærum. „Hann var eins og kónguló, vefur hans teygði sig á ólíklegustu staði“ (135), hugsar Agla, þar sem hún situr á sófanum heima hjá honum í glæsivillu hans við Tjarnargötuna.

Ingimar á eftir að halda áfram sem ein af lykilpersónum Búrsins, þriðju bókarinnar í þríleiknum, en hér er hann í bakgrunni. Hinsvegar bætist í Netinu við ný lykilpersóna sem tekur að sér eitt af sjónarhornum bókarinnar: María, áðurnefndur fulltrúi sérstaks saksóknara, sem þrátt fyrir fangelsisdóm Öglu er allt annað en sátt við útkomu málsins. Hún er viss um að Agla haldi hlífskyldi yfir öðrum aðilum sem koma að málinu. Líkt og aðrar persónur á María sér ferðalag fyrir höndum. Þegar við kynnumst henni fyrst í Gildrunni lætur hún í ljós viðurstyggð sína á framferði og viðhorfi Öglu en andúð hennar á fjárglæpamönnum og eldmóður í starfi á eftir að leiða hana á ansi vafasama staði og kemur í ljós að hún er tilbúin að nota óprúttnar aðferðir til að draga hina seku til ábyrgðar.

Lesendur fá einnig að kynnast Öglu sjálfri betur en í fyrri bókinni. Baksaga hennar er dregin fram í sviðsljósið; æska hennar sem „strákastelpa“ og mótandi áhrif móður hennar þar sem hún reyndi að stappa stálinu í Öglu svo hún gæti staðið uppi í hárinu á bræðrum sínum:

Samviskubit er það sem stendur konum mest fyrir þrifum í lífinu,“ hafði mamma hennar sagt. „Ef þú losar þig við samviskubitið verður þú frjáls.“ [...] „Sjáðu bara bræður þína ... Ekki eru þeir að þjást af samviskubiti. Þeir bara gleyma og halda áfram. (100)

Þessi lexía hefur verið Öglu veganesti og reynst henni vel í hinum karllæga bankaheimi. Þar lærði hún að spila fjárglæfraleikinn til jafns við strákana, sem þó voru aldrei tilbúnir að gangast við henni sem jafningja heldur „Létu skína í gremjulega öfund, líkt og hún hefði tekið eitthvað sem þeir áttu með réttu“ (148). En þrátt fyrir að hafa ung lært að samviskan sé bara fyrir siðprúðar stúlkur sem aldrei fá neinu áorkað, þá er Agla enn kvalin af sektarkennd eftir að framhjáhald þeirra Sonju gerði út um hjónaband þeirrar síðarnefndu, þegar Adam, eiginmaður Sonju, gekk inn á ástarleik þeirra með hinn barnunga Tómas í eftirdragi. Sektin sú virðist þó hafa lítið með Adam sjálfan að gera, sem sýndi sitt sanna eðli eftir skilnað þeirra Sonju, heldur eitthvað annað og djúpstæðara:

Síðan virtist allt sem tengdist Sonju geta kallað fram sektarkennd sem alltaf var blönduð annarri tilfinningu sem líka hafði dúkkað upp með tilkomu hennar. Skömm. (100)

Útskýrir þetta um margt trega hennar við að gangast við Sonju og sambandi þeirra, sem lýsir sér í því að hún upplifir valdleysi gagnvart tilfinningum sínum til Sonju en er meinilla við að Sonja noti L-orðið til að lýsa henni eða sjálfri sér. Í staðinn reynir hún að afsaka ástarsamband þeirra sem „... einhverskonar hormónarugl, kannski út af breytingaskeiðinu“ (Gildran, 65).

Þegar Sonja snýr aftur til Íslands þykir Öglu hún hafa heimt ástkonu sína úr helju og ætlar sér ekki að tapa henni aftur sökum óöryggis eða skammar. Hún gerir sitt besta til að búa í haginn fyrir þær og Tómas en Sonja er of langt gengin, búin að selja sál sína í litlum pörtum þar til hún á ekki undankomu auðið frá manneskjunni sem hún er nú orðin:

Kannski var hún komin á þann stað að það var best að hætta að reyna að synda upp á yfirborðið. Kannski var best núna að láta sig sökkva til botns í von um að hann væri fastur fyrir og gæfi viðspyrnu. (301)

BÚRIÐ (2017)

Í Búrinu, síðustu bókinni í þríleiknum, hittum við Öglu algjörlega á botninum þar sem hún afplánar dóm sinn í fangelsinu á Hólmsheiði. Sonja er enn og aftur horfin úr lífi hennar, yfirgaf húsið sem Agla keypti handa þeim fyrirvaralaust og mölvaði þannig alla þeirra framtíðardrauma. Að þessu sinni kemur Sonja lítið við sögu framan af, svo að lesandinn veit ekki hvað það var sem fékk hana til að yfirgefa Öglu fyrir fullt og allt. Í stað hennar taka nýjar persónur og gamlar við frásögninni.

María er aftur mætt til leiks, hefur lagt af störfum hjá embætti sérstaks saksóknara og er nú orðinn blaðasnápur sem rekur sinn eigin, sjálfstæða fjölmiðil sem ber nafnið Íkorninn. Með hjálp hins vænisjúka en vel upplýsta Marteins, sem kallar sig Rödd sannleikans og var henni einnig innan handar í síðustu bók, ætlar hún sér að fletta ofan af Ingimar í eitt skipti fyrir allt. Þannig hefur María nú að fullu lokið umturnun sinni úr reglusömum ríkisstarfsmanni, með reglusaman mann og reglusamt heimili, yfir í einskonar harðsvíraðan einkaspæjara sem er tilbúin að gera hvað sem er til að nálgast sannleikann. Atorka hennar við að fletta ofan af ráðabruggi Ingimars og vitorðsmanna hans leiðir hana á óvænta staði, ekki síst þegar hún og Agla uppgötva að þær eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og Agla gerir hana út af örkinni alla leið til miðvesturríkja Bandaríkjanna til að varpa ljósi á myrkar bakhliðar álveldis Ingimars.

Ingimar sjálfur tekur einnig að sér eitt af sjónarhornum bókarinnar. Þar birtist brjóstumkennilegur maður sem lesandi hefur furðu mikla meðaumkun með – þrátt fyrir öll hans auðæfi og afbrot. Við fáum innsýn inn í dauflegt heimilishaldið í lúxusvillunni við Tjarnargötuna; hittum eiginkonu hans sem eyðir flestum dögum í rúminu undir áhrifum áfengis og þunglyndislyfja, dómínuna sem sér um að píska Ingimar og minna hann á að hann sé „bara maður“ (21), og svo Anton, son hans, sem einnig er lykilpersóna og fær sína eigin kafla.

Anton virðist á yfirborðinu vera venjulegur unglingur en líkt og pabbi sinn á hann sér myrkt leyndarmál; stæður af dýnamíti sem eru faldar í kjallaranum á heimilinu við Tjarnargötuna. Hann er heltekinn af útvarpstöðinni Eddu, sem er í raun lítt dulbúin útgáfa af Útvarpi Sögu og spýr daglangt út hatursorðræðu um innflytjendur og múslima. Dýnamítið í kjallaranum á Tjarnargötunni er liður í áætlun Antons um að valda usla í pólitísku landslagi Íslands – en ástæður hans virðast þó að miklu leyti byggðar á hvolpaást til kærustu sinnar, Júlíu.

Þegar þráðurinn í frásögn Sonju er loks tekinn upp aftur í seinni hluta bókarinnar kynnumst við henni sem allt annarri konu en þeirri sem var ginnt út í eiturlyfjasmygl í fyrstu bókinni. Hún og Agla eiga skammvinna endurfundi, þar sem Öglu tekst loks að rjúfa fyrir fullt og allt það tangarhald sem tilfinningar hennar til Sonju hafa haft á henni. Í staðinn tekur hún að laðast að Elísu, ungri konu sem hún kynnist í fangelsisvistinni á Hólmsheiði. Sú er fyrrum fíkill og burðardýr sem var send í flasið á tollgæslunni af yfirboðurum sínum – líkt og fleiri tálbeitur sem sendar voru til landsins til að beina athygli yfirvalda frá ferðum Sonju sjálfrar. Í Elísu tekst Öglu loks að finna snefil af hamingju; manneskju sem ann henni til baka, sem hún getur bjargað frá glötun og hlúð að á máta sem aldrei stóð til boða í sambandi þeirra Sonju. En þrátt fyrir þessa nýfundnu hamingju og hið hefðbundna heimilislíf sem virðist bíða þeirra Elísu að þríleiknum loknum er ljóst að Agla svífst enn þá einskis þegar kemur að peningum og viðskiptum – eins og koma mun í ljós í stuttum innlitum hennar í seinni bókum Lilju.

SVIK (2018)

Eftir að hafa lokað sögum Öglu og Sonju í Búrinu má ætla að Lilju hafi hlakkað til að sökkva sér í eitthvað nýtt. Þó má finna þræði sem teygja sig aftur til persónanna í þríleiknum í öllum hennar síðari verkum. Það er því ljóst að síðan Gildran kom út gerast allar bækur Lilju í sama heiminum og hefur hún skapað stórt persónugallerí af söguhetjum sem flakka á milli bóka hennar. Þannig finnur Úrsúla, ein af lykilpersónum Svika, fyrstu bókar Lilju að þríleiknum loknum, sig í þeirri óþægilegu stöðu að þurfa að setjast sig í samband við Ingimar, sem situr nú á bak við lás og slá í fangelsinu á Hólmsheiði. Þrátt fyrir það virðist hann enn vera með puttana í ýmiskonar leynimakki sem getur sett Úrsúlu, sem er nýsest í stól innanríkisráðherra eftir sauðaskipti í ríkisstjórninni, í heldur óþægilega stöðu.

Tímalínan í Svikum er mun krappari en í þríleiknum. Öll atburðarrásin á sér stað á viku sem hefst með því að Úrsúla sest í ráðherrastólinn. Hún er hugsjónamanneskja, nýlega snúin heim úr hjálparstarfi í flóttamannabúðum og ætlar að láta til sín taka í ráðuneytinu. Það reynist þó hægara sagt en gert þar sem í ljós kemur að valdhafar í ríkisstjórninni ætla henni hlutverk peðs í þeirra pólitísku refskák. Úrsúla þarf að reyna að sjá við þeim jafnt því sem hún berst við áfallastreituröskun eftir reynslu sína sem friðarliði. Hún nýtur stuðnings frá ráðherrabílstjóra sínum, hreystimenninu Gunnari, sem er ötull í starfi og lítur heldur á sig sem sem lífvörð hennar en bílstjóra. Ekki veitir af þegar Úrsúlu taka að berast viðurstyggileg og torkennileg hótunarbréf, bæði í gegnum netið og á vöðluðum miðum sem hún finnur í fórum sínum.

Fyrir utan Gunnar og Úrsúlu fylgir bókin eftir tveimur að því er virðist alls ótengdum persónum: Drykkjumanninum Pétri, sem vafrar um miðbæinn í hálfgerðu óráði og virðist óttast að Úrsúla sé í yfirvofandi hættu frá einhverjum sem hann kallar „djöfulinn“, og hinni færeysku Maritu, húsmóður á Selfossi sem er gift lögreglumanni í bænum. Sá hefur verið sakaður um nauðgun af barnapíu þeirra hjóna – mál sem Úrsúla sór að yrði tekið upp að nýju á sínum fyrsta degi í embætti. Fimmta og síðasta lykilpersóna bókarinnar er svo hin kynngimagnaða Stella sem vinnur sem skúringakona í Innanríkisráðuneytinu og kemur með nýjan vinkil inn í höfundarverk Lilju.

Stella þessi er ættuð frá Suður-Ameríku en mamma hennar flúði með hana til Íslands til að komast frá pabba Stellu sem er „margfaldur morðingi“ (123), og veltir maður fyrir sér hvort hann sé á einhvern hátt tengdur eiturlyfjaveldinu sem Sonja lagði lið sitt við í þríleiknum. Amma Stellu var norn í heimalandi sínu og heimsækir hún dótturdóttur sína í draumi á hverju ári á afmæli hennar og kennir henni ýmsa galdra – auk þess sem Stella hefur kynnt sér íslenska galdrastafi og er fær um að beita þeim eftir hentugleika. Það gerir hún meðal annars þegar hún sveipar sig huliðshjálmi og gengur ósýnileg um Reykjavík til að njósna um ástarviðfang sitt – fréttakonuna Grétu, sem Stella vill í fyrstu lítið með hafa en sækist síðar eftir viðlagi við. Yfirnáttúrulegir hæfileikar Stellu eru þó ekki í forgrunni og ástarflækjur hennar mynda hálfgerða hliðarsögu í bókinni. Þó má merkja að hindurvitni og álfatrú hefur látið á sér kræla í þeim bókum Lilju sem fylgt hafa á eftir Svikum.

Í grunninn er Svik þó sett fram sem pólitískur reyfari, en í því má sjá hvernig Lilja er enn og aftur að reyna fyrir sér á fáförnum slóðum. Líkt og fjöldamorðingjar voru sjaldséðir í íslenskum glæpasögum þegar Magni hóf að eltast við einn slíkan í Spor var lítið um pólitískar spennusögur hér á landi þegar bókin kom út, haustið 2018. Þó á bókin líka margt sameiginlegt með því sem Lilja kallar ráðgátusögur þar sem frásögnin er ofin úr nokkrum ótengdum söguþráðum sem koma saman til að varpa ljósi á lausn gátunnar.

HELKÖLD SÓL (2019)

Þrátt fyrir að vera sterkur, sjálfstæður reifari er Svik líka hálfgerður bragðlaukahreinsir í höfundaverki Lilju því að næsta bók á eftir, Helköld sól, markar upphafið á nýrri bókaseríu. Ef dæma má af fyrstu bókunum tveimur þá er þessi sería ekki jafn samhnýtt og GildranNetið og Búrið og á meira skylt við hefðbundnar glæpasöguseríur þar sem persónurnar takast á við nýtt mál í hverri bók. Hér viðheldur Lilja þeim krappa tímaramma sem einkenndi Svik og ýmsar persónur úr eldri bókum hennar dúkka upp.

Í Helkaldri sól kynnumst við hörkutólinu Áróru sem hefur atvinnu af því að elta uppi auðæfi sem eru falin í skattaskjólum og á aflandsreikningum. Áróra, sem er íslensk að hálfu og býr í Bretlandi, ferðast til Íslands að áeggjan móður sinnar til að grennslast fyrir um systur sína, sem að sjálfsögðu heitir Ísafold og virðist hafa horfið sporlaust, þótt að hrottinn eiginmaður hennar hafi lítið aðhafst til að hafa upp á henni. Á meðan Áróra leitar að systur sinni fær lesandinn að fræðast um baksögu systranna, sem eru eins og nótt og dagur að útliti og persónuleika. Á meðan Ísafold er líkari móður þeirra hefur Áróra erft líkamsburði kraftlyftingamannsins föður þeirra og er vön að vera í því hlutverki að gæta systur sinnar. Hún virðist þó hafa gefist upp á þeirri rullu eftir ítrekaðar tilraunir til að fá Ísafold til að fara frá ofbeldisfullum eiginmanni sínum fyrir fullt og allt.

Til liðs við sig við leitina fær Áróra gamlan fjölskylduvin: lögreglufulltrúann Daníel; myndarlegan piparsvein á „besta aldri“. Þrátt fyrir aldursmuninn hefst fljótt ákveðin ætli-þau-munu-þau spenna á milli þeirra Áróru. Lesendur fá að fylgjast með Daníel í hans eigin köflum og kynnast þannig hressilegu dragdrottningunni Lady Gúgúlú, sem leigir í bílskúrnum hjá Daníel, og álfasteininum sem er að finna í bakgarðinum hjá Daníel og er honum til ómælds ama við garðverkin.

Áróra lætur þó hvorki leitina að systur sinni né áhuga sinn á Daníel aftra sér frá því að leita nýrra verkefna á Íslandi. Hún telur hafa hlaupið á snærið hjá sér þegar hún kynnist hóteleigandanum Hákoni, sem á að nafninu til að vera á kúpunni eftir að hafa setið inni fyrir markaðsmisnotkun en virðist hafa komið ár sinni vel fyrir borð – eins og fjárglæpamönnum er tamt. Áróra einsetur sér að hafa upp á földum auðæfum Hákonar í von um að fá fyrir þau fundarlaun hjá íslenska ríkinu, svo að hún geti stundað sína uppáhalds iðju:

…þegar hún fann falinn sjóð og skilaði honum til lögmætra eigenda … þá hélt hún upp á það með því að taka út sinn hlut, þóknunina sína, í seðlum og fara með þá heim, breiða úr þeim á rúminu sínu og velta sér upp úr þeim. Þetta var sérviska sem hún sagði engum frá. Litla leyndarmálið hennar. Það var engu líkt að bókstaflega velta sér upp úr peningum. (51)

Áróra er tilbúin að gera ýmislegt til að viðhalda þessum ávana og hikar ekki við að táldraga og sofa hjá Hákoni, enda sér hún fram á að ef henni tekst að hafa upp á auðæfum hans „þá myndi hún taka þóknunina sína út í íslenskum krónum. Hún hafði aldrei prófað að velta sér upp úr þeim“ (51). Það er einmitt á meðan hún siglir undir fölsku flaggi sem ástkona Hákons sem hún kemst í kynni við Öglu, sem ennþá virðist vel tengd í heimi útrásarvíkinga og fjárglæpamanna.

Meginþráður sögunnar snýr þó að leit hennar að Ísafold og nagandi samviskubiti hennar yfir að hafa brugðist systur sinni. Það kemur í ljós að fyrir utan heimilisofbeldið sem átti sér stað innan veggja íbúðarinnar sem Ísafold deildi með eiginmanni sínum er eitt og annað fleira misjafnt í gangi í fjölbýlishúsinu sem var hennar síðasta heimili. Kaflar bókarinnar fylgja eftir tveimur nágrönnum Ísafoldar: Ekkjunni Olgu sem skotið hefur skjólhúsi yfir sýrlenska flóttamanninn Ómari til að fela hann fyrir yfirvöldum og hindra að honum verði vísað úr landi, og kynlega kvistinum Grími, einstæðingi sem á við geðræn vandamál að stríða sem birtast m.a. í áráttukenndum hreinlætisvenjum hans sem snúast um að raka öll líkamshár sín jafnóðum og þau birtast. Eitthvað meira er þó í gangi hjá Grími en hann kann vel þá list að virðast meinlaus og skrítinn svo að fólk gefi honum engan gaum.

BLÓÐRAUÐUR SJÓR (2020)

Eins og líkir titlarnir gefa til kynna þá er Blóðrauður sjór næsta bók í seríunni sem hefst með Helkaldri sól og jafnframt nýjasta bók Lilju við þessi skrif. Hér hittum við aftur fjármálasnuðrarann Áróru, sem hefur ílengst á Íslandi þar sem hún getur ekki hugsað sér að yfirgefa landið án þess að vera búin að ráða úr um örlög systur sinnar. Þó er kannski eitthvað fleira sem heldur henni á klakanum, þar sem rannsóknarlögreglumaðurinn Daníel virðist enn vera inni í myndinni og spennan á milli þeirra hefur lítið hjaðnað. Í gegnum tengsl sín í fjármálaheiminum er Áróra kölluð til aðstoðar við heldur óvenjulegt glæpamál. Svo virðist sem konu íslensks athafnamanns hafi verið rænt og er eiginmaður hennar, Flosi, krafinn um tvær milljónir evra í lausnargjald fyrir hana. Mannræningjarnir fyrirskipa Flosa að gera lögreglunni ekki viðvart en í örvæntingu sinni leitar hann til fjármálaráðgjafa síns sem sendir Áróru á staðinn. Hún sér þó fljótt að hún getur lítið gert ein síns liðs og telur Flosa á að leyfa sér að hafa samband við Daníel, sem ásamt samstarfsfólki sínu í lögreglunni hefur háleynilega rannsókn á hvarfi Guðrúnar, eiginkonu Flosa.

Blóðrauður sjór verður að teljast óvanalegur krimmi fyrir þær sakir að hér vantar meginforsendu flestra íslenska glæpasagna: Það er ekkert lík til staðar. Lilja er hér því enn einu sinni að koma með ferska aðför að íslensku glæpasögunni, sem hefur ekki mikið fengist við skipulögð mannrán hingað til. Hún hefur fúslega gengist við því að hafa fengið innblástur við skrif bókarinnar frá hinu dularfulla Hagen-máli, sem enn er óleyst um þessar mundir, þar sem eiginkonu norska auðkýfingsins Tom Hagen var rænt og hann krafinn um margar milljónir í rafmynnt fyrir hana. Málið verður að teljast einstakt og allt að því farsakennt, þar sem mannrán og lausnargjaldskröfur eru sjaldgæfar á Norðurlöndunum. Daníel og hans fólk er því á algjörlega ókönnuðum slóðum, sem veldur töluverðum æsingi hjá aðstoðarkonu Daníels, hinni framagjörnu Helenu:

Helena var svo uppveðruð þegar hún kom út úr húsinu að henni fannst hún svífa. Hún hafði aldrei fyrr heyrt fyrr heyrt af mannránsmáli á Íslandi. [...] ... fyrirfram skipulögð mannrán þar sem lausnargjalds var krafist voru svo sjaldgæf að svona tækifæri til að læra og vinna að þessu máli fengi hún örugglega ekki aftur. (50)

Eins og venja er orðin í bókum Lilju eru kaflarnir leiddir af nokkrum lykilpersónum og er Helena ein þeirra. Þó er hér haldið töluvert þéttar á spöðum en áður þar sem aðeins er um að ræða fjórar lykilpersónur – Áróru, Daníel, Helenu og Flosa sjálfan – sem eru allar í nánu samfloti frá byrjun og vinna saman að rannsókn málsins. Þessi samheldni passar vel við þá kröppu tímalínu sem einkennt hefur bækur Lilju síðan Svik kom út. Sjónarhorn Flosa fer þó dvínandi eftir því sem líður á bókina og hann verður sífellt grunsamlegri. Lesandi getur þó frá byrjun verið nokkuð viss um að Flosi sjálfur sé ekki á beinan hátt valdur að hvarfi konu sinnar, líkt og hinn norski Tom Hagen hefur verið sakaður um, þar sem það er Flosi sjálfur sem uppgötvar hvarf hennar í fyrsta kaflanum og fær við það mikið áfall. Þó er ljóst að ekki er allt með feldu í einkalífi hans né í fyrirtækinu sem hann rekur, sem selur garðvörur en veltir engu að síður milljónum í földum aflandsreikningum sem Áróra uppgötvar.

Það verður forvitnilegt að sjá hve margar bækur Lilja ætlar sér að skrifa um þau Daníel og Áróru. Uppbygging þeirra tveggja bóka sem fyrir eru býður upp á mikla möguleika. Bækurnar eru nægilega sjálfstæðar til að hægt er að lesa þær einar og sér og hafa ánægju af en búa þó einnig að söguþráðum sem tengjast á milli bóka og ýja að stærra, yfirliggjandi plotti. Þannig bendir allt til þess að Lilja sé með skýrar fyrirætlanir fyrir seríuna sem hún ætlar sér að vinna að til jafns við þau ævintýri sem Daníel og Áróra lenda í í hverri bók fyrir sig.
 

Undanfarinn áratug hefur Lilja Sigurðardóttir gefið út átta bækur; þar af eina á hverju ári síðan 2015 – þegar fyrsta bókin um Sonju og Öglu markaði kaflaskil í höfundarverki hennar. Síðan þá hefur Lilja markvisst þróað stílbrigði sín sem höfundur og tækni sína við að skapa fléttur og persónur, svo að í dag er komin skýr mynd á það sem við gætum kallað „Liljulega“ glæpasögu. Styrkleiki hennar liggur ekki síst í því hvernig hún vefur bækur sínar saman og skapar skýra heimsmynd sem lesendur geta heimsótt að nýju í hverri nýrri bók. Þannig verðlaunar hún sína dyggustu lesendur – sem koma að bókum hennar vel upplýstir um baksögu persónanna og þræðina sem tengja þær saman – jafnt því sem hún er alltaf að bæta í persónugalleríið sitt. Hún hefur verið óhrædd við að fara með íslensku glæpasöguna á framandi slóðir og aðlaga hana að áður ókönnuðum krimmaformum. Með því hefur hún greitt veginn fyrir aðra höfunda sem vilja spreyta sig við erlend glæpasöguafbrigði sem ekki hafa náð hylli á íslenskum bókamarkað. Einnig er ljóst að frá fyrstu tíð hefur hún reynt að breikka sjónarsvið íslenskra glæpasagna og beina því að fólki af ólíkum uppruna og úr mismunandi stéttum og þjóðfélagshópum. Bækur hennar taka mið af fjölbreytni hins íslenska nútímasamfélags og ber það að lofa.
 

Björn Halldórsson, nóvember 2020