Beint í efni

Blómið – saga um glæp

Blómið – saga um glæp
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Hún strýkur yfir ljósbletttinn og horfir í spegilinn. Á borðinu við hlið hennar er askja með skordýri sem glitrar eins og hún, eins og ljósbletturinn á enni hennar. Þetta er stórvaxinn kakkalakki en fálmararnir á honum eru sjálflýsandi og ljósið skærast undir kryppunni.

Þar sem hún horfir á hann glitra í dauflýstum frystiklefanum finnst henni eins og hún hafi aldrei elskað neitt jafn mikið og þetta sjálflýsandi skordýr.

Bráðum finn ég ykkur öll, litlu dýrin mín.

Hún tekur skordýrið milli fingra sér, ristir það á hol og dregur perluna upp úr kviði þess.

32,3° er markmiðið.

Hún horfir í spegilinn, framan í Valkoff-feðgana og Sjafnargötuna og nóttina sem er liðin og þá sem senn líður. 13. nóvember 1982. 13. nóvember 2015.

Síðan stingur hún upp í sig perlunni og bíður eftir að nýr heimur opnist.

(Blómið, bls. 15)

Nýjasta skáldsaga Sölva Björns Sigurðssonar fjallar um íslensku Valkoff-fjölskylduna sem er í sárum eftir að Magga Valkoff hvarf sporlaust þrjátíu og þremur árum áður, aðeins sex ára gömul. Eftir dularfullan formála um manneskju með ljósblett og sjálflýsandi kakkalakka hefst sagan á að Benedikt, eldri bróðir Möggu sem var með henni daginn sem hún hvarf, vaknar skyndilega um miðja nótt heima hjá sér á Sjafnargötu 7. Benedikt, eða Bensi eins og fjölskylda hans kallar hann, á afmæli en dagurinn hefur alltaf fallið í skugga atviksins þar sem Magga hvarf á tólf ára afmælisdegi hans. Óreglulegar svefnvenjur Bensa virðast ekki vera nýjar af nálinni og lesandinn fær strax þá mynd að hvarf Möggu hafi alltaf legið þungt í Bensa og litað líf allrar Valkoff-fjölskyldunnar. Um kvöldið ætlar fjölskyldan í fyrsta skipti í langan tíma að koma öll saman á þessum degi til að minnast Möggu. Foreldrar Bensa hafa skilið og tekið saman aftur margoft og hann óttast að allt fari aftur í háaloft um kvöldið. Þegar hann tekur eftir því að kveikt er á ljósunum á æskuheimilinu hinum megin við Sjafnargötuna – þar sem Guðrún móðir hans býr ein – ákveður hann að fara yfir til að ræða við hana um fortíðina og vonast þar með að komast hjá uppþoti í boðinu um kvöldið.

Fyrsti hluti bókarinnar er rammaður inn af samtali mæðginanna um fortíðina og einennist af endurlitum til ársins afdrifaríka þegar Magga hvarf, sérkennilegu lífshlaupi fjölskylduföðursins Péturs Valkoff, sumrinu þegar Bensi kynntist konu sinni og öðrum atburðum sem hafa mótað líf fjölskyldunnar. Ég hef alltaf verið hrifinn af vel römmuðum frásögnum þar sem flakkað er um í rúmi og tíma út frá föstum frásagnarpunkti og Sölva tekst einstaklega vel að framkvæma rammafrásögn með ráðgátuívafi. Það ríkir sérstök og áhrifarík stemning í stofunni á Sjafnargötu. Borgin sefur og enginn er á ferli í nóvembermyrkrinu, aðeins mæðginin eru vakandi, japlandi á Dunkin‘ Donuts-kleinuhringjum og að kryfja fortíðina. Ráðgátan um afdrif Möggu verður flóknari og meira spennandi eftir því sem lesandinn kemst að meiru um líf Valkoff-fjölskyldunnar. Sérkennileg fortíð Péturs sem vísindamanns úti í Sovétríkjunum ásamt sjálflýsandi kakkalökkum og yfirnáttúrulegum persónum gefa sögunni yfirbragð vísindaskáldskapar eða hryllingssögu. Þrátt fyrir að við fyrstu sýn kunni Blómið að líta út fyrir að vera afþreyingarskáldskapur þar sem aðaláherslan er á skemmtanagildi og lausn fléttunnar – og hér er ég ekki að lasta þá grein bókmenntanna – þá býr mun meira að baki sögu Sölva. Blómið er ekki síður harmsaga þar sem lesendur fá að kynnast þeim tortímandi áhrifum sem barnsmissir hefur á hjónabönd, uppvöxt og samband barna og foreldra.  

Sjónarhorn fjölbreyttra persóna koma fyrir í Blóminu en í miðju sögunnar er persóna Bensa, bróðir Möggu og sá eini sem mögulega gæti munað eftir hvarfi Möggu. Í fyrstu er Bensi aðallega skilgreindur út frá hvað gerðist þennan örlagaríka dag fyrir þrjátíu og þremur árum. En eftir því sem líður á söguna fær lesandinn að kynnast Bensa og Völlu, eiginkonu hans, og þeim vandamálum sem þau hafa glímt við í gegnum tíðina. Harmurinn litar líf Bensa en Sölvi beinir einnig sjónum að ástinni og því hversu hverful hún er, og leggur mikið upp úr því að lýsa sambandi þeirra Völlu. Bensi og Valla elska hvort annað en þau gera sér engu að síður grein fyrir því að samband þeirra hefur breyst og að  tíminn hafi óneitanlega tekið sinn toll af hjónabandinu. Vangaveltur um samspil ástar og sorgar eru áberandi, er til að mynda óumflýjanlegt að sorgin verði ástinni yfirsterkari? Eða er það einmitt með ástina að vopni sem hægt er að sigrast endanlega á sorginni? Þessar spurningar spretta upp inn á milli ráðgátunnar um hvarf Möggu, sjálflýsandi kakkalakka og ótrúlegra atburða.

Það er óneitanlega djarft að blanda eiginleikum úr vísindaskáldskap við íslenskan raunveruleika, sérstaklega þegar það er gert á sparlegan máta og án þess að steypa heildarsöguna í form vísindaskáldskapar. Við eigum mun auðveldara með að samþykkja fjarstæðukennda atburði sem eiga sér stað í Bandaríkjunum eða Rússlandi en í Þingholtunum í Reykjavík. Ójarðbundin nálgun Sölva mun án efa stuða einhverja lesendur en að mínu mati er ánægjulegt að sjá rithöfunda hrista upp í íslenskum hversdagsveruleika. Sölvi hefur áður látið hrikta í stoðum raunveruleikans svo sem í söguljóðinu Gleðlileikurinn djöfullegi (2005), þar sem sjá má furðulega undirheimaför skáldanna Mussju og Dante í gegnum helvíti skemmtanalífsins í Reykjavík. Frávik frá raunveruleikanum eru vissulega til staðar en þau eru bundin við annarskonar skynjun og sækja í hefð hins upprunalega Gleðileiks, þar sem veröld ljóðsins er kennileg en þó í hæfilegri fjarlægð frá þeirri sem lesandinn þekkir. Í Fljótandi heimi (2006) má sjá áþreifanleg frávik frá raunveruleika lesandans á borð við þau sem finna má í skáldskap japanska rithöfundarins Haruki Murakami, en Sölvi vísar greinilega til verka hans sem grundvallar og innblásturs að verkinu. Hægt er að líta á Fljótandi heim sem fyrsta skref Sölva í að skekkja hinn efnislega heim lesandans en í Blóminu – saga af glæp gengur hann lengra. Hann sleppir fyrirvörum á borð við vísanir í stíl þekktra rithöfunda og vinnur furðurnar á persónulegri máta. 

Það er erfitt að standast væntingar lesenda varðandi lausnir á dularfullum ráðgátum og hnýta alla þræði með fullnægjandi hætti eftir listilega uppbyggingu. Oft reynast ráðgátur mun meira heillandi en svörin við þeim og þar af leiðandi gæti úrlausn ráðgátunnar farið misvel ofan í lesendur. Styrkur bókarinnar liggur í frumlegri blöndu Sölva á vísindaskáldskap, ráðgátu-, harm- og ástarsögum og skemmtilega sveiflukenndu sambandi við raunveruleikann, allt frá fjarstæðukenndri fantasíu til nístandi sorgar sem fylgir því að missa barn. Spennandi verður að sjá hvort Sölvi haldi áfram að þróa furðustíl sinn í framtíðinni.

Már Másson Maack, desember 2016