Beint í efni

Borgarlínur

Borgarlínur
Höfundur
Ari Trausti Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ferðin er klassískt bókmenntaþema og tekur á sig ýmsar myndir í ólíkum sögum. Ferðin getur verið notuð til að fjalla um ferðalanginn sjálfan, hún getur birst sem augnablik upplifunar og hún getur verið notuð til að koma boðskap á framfæri. Ferðin er Ara Trausta Guðmundssyni hugleikin, en hann er mikill ferðalangur og hefur skrifað ýmsar ferðalýsingar og bækur fyrir ferðamenn í tengslum við störf sín og áhugasvið. Árið 2002 eða tók rithöfundaferill hans á sig nýja mynd með smásagnasafninu Vegalínur en það geymdi einmitt ferðasögur. Safnið hlaut bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness það ár og síðan hefur Ari Trausti sinnt skáldskapnum ötullega, sent frá sér tvær skáldsögur, Leiðin að heiman (2005) og Land þagnarinnar (2007) og þrjár ljóðabækur, Í leiðinni (2004), Krókaleiðir (2006), og síðast Borgarlínur. Ferðin hefur haldið áfram að birtast í ljóðum Ara Trausta og í Borgarlínum eru það borgir sem eru í forgrunni, eins og titillinn gefur til kynna.

Segja má að Ari Trausti blandi saman öllum tilvísunum ferðarinnar, en sum ljóðin eru kyrr og persónuleg augnablik, oft ástarljóð, á stundum líður lesanda eins og flugu á vegg og fær að upplifa nýjan heim með ferðalangnum og svo er pólitíkin nærtæk. Á sama hátt eru ljóðin misáhrifarík, sum falla flöt meðan önnur ná að fanga lesandann andartak, í allt öðru andartaki annars manns.

Helsta vandamálið við Borgarlínur er að hið ósagða fær ekki að njóta sín, ljóðskáldið gengur of langt í því að túlka ljóðið í lokalínum sem eiga það til að vera hátíðlegar og er aðallega ofaukið. Dæmi um það er í ljóði snemma í bókinni merkt Kaupmannahöfn. “Hlýnandi dagar” sýnir hvernig náttúruvísindamaðurinn fellir þekkingu sína fimlega inní ljóðrænan texta, við erum stödd “í lágreistri frystigeymslu við háskólann”, en þar “eru varðveittir þrír kílómetrar af sívölum ískjarna” sem segja sögu, “stundaglas mannkyns í þrjú hundruð þúsund ár / segir prófessorinn með augun þrútin af rannsóknum.” Og hann bendir ljóðmælanda á ýmsa atburði á línuriti sem hann les úr ísnum. Á borði prófessorsins stendur “glerflaska með vatni / úr Grænlandsjökli” og hún er merkt “Hálf eilífð.” Hér er brugðið upp heillandi mynd, innskot inní fræði og hugarheima, það er auðvelt að sjá fyrir sér kaldan andstrókinn. En svo truflast yfirborð myndarinnar, því síðustu línurnar segja einfaldlega of mikið: “Núrorðið eyðum við kannski meiru en minningum / segir prófessorinn og dæsir.”

Hér kemur pólitískt viðhorf skáldsins of sterkt inn og heimspekileg útleiðingin dregur úr áhrifamætti ljóðsins. Í öðru ljóði er pólitík komið á framfæri á mun fimlegri hátt í lokalínu, þar erum við stödd í Beirút og hittum “Wajdi” sem hefur misst fót í stríði og er nýbúinn að fá nýjar hækjur. Wajdi er heppinn að vera á lífi, því í árásinni fórust allir aðrir, hann “heyrði aðeins í þyrlunum / sá ekki hver skaut eldflauginni / man ekki sársaukann. // Nú heyrist aftur í þeim.” Hér nær Ari Trausti á einfaldan hátt að birta tilgangslaus augnablik stríðshörmunga og koma á framfæri sýn á hernað sem innihaldslausa endurtekningu, án sigurvegara en fulla af þeim sem tapa.

Fyrri hluti bókarinnar er veikari en sá síðari, kannski vegna þess að þar er meira af kunnuglegum slóðum. Í síðari hlutanum eru nokkur ljóð sem gefa lesandanum þá tilfinningu að hann sé fluga á vegg, vitni að atburði sem er einungis til í minningu annars manns, einhverju sem er einstakt og heillandi og ánægjulegt að fá að vera þátttakandi í. Dæmi um þetta er ljóðið “Stóra stúpan” frá Katmandu, en þar gengur fólk hringi í kringum stúpuna biðjandi bænir. Á stúpunni eru “rannsakandi blá augu” og “mér gæti missýnst / en það er líkt og stúpan mjakist / úr stað / örlítinn spöl með fólkinu.” Hér birtist dásamleg sjónhverfing, innblásin af annarlegum guðmóði - eða bara göngumæði. “Borgin í dalnum” er La Paz og lesandi fylgir fjallamanninum heillanga og heillandi leið, niður af hásléttunni, gegnum þorp og úthverfi og loks inn í hjarta borgarinnar. “Þula shamansins” er einnig frá La Paz en þar fáum við ýmis heilræði eins og það að ef þú geymir “caracarafjöður undir rúmdýnunni / þá muntu víða fara.”

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2008