Beint í efni

Brunagaddur

Brunagaddur
Höfundur
Þórður Sævar Jónsson
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Snædís Björnsdóttir

Þórður Sævar Jónsson er bæði skáld og þýðandi og hefur meðal annars gefið út þýðingar úr ensku eftir Richard Brautigan og grísku eftir Lúkíanos frá Samósata. Hann hlaut tilnefningu til Maístjörnunnar fyrir fyrstu ljóðabók sína í fullri lengd, Vellankötlu, og hefur einnig gefið út styttri ljóðakver, Blágil og 49 kílómetrar er uppáhalds vegalengdin mín.

Brunagaddur er önnur ljóðabók Þórðs Sævars í fullri lengd og fjallar, líkt og titillinn gefur til kynna, um nístandi kulda og miskunnarlausa veðráttu. Ljóðin orti Þórður Sævar veturinn 2019-2020, fyrsta vetur sinn á Akureyri í 22 ár, og er ljóðabókin sannkallaður óður til vetrarins.

Eilífur ríkir vetur

Bókin hefur að geyma margvísleg fágæt orð og heiti yfir ýmis fárviðri og kuldaveður og ljáir þetta henni afar þjóðlegan blæ. Heiti bókarinnar, Brunagaddur, er eitt af þessum orðum og í því sameinast meginandstæður íslenskrar náttúru, bruni og gaddur eða eldur og ís, en orðið brunagaddur merkir nístandi kuldi. Slíkur brunagaddur næðir einmitt í gegnum alla ljóðabókina svo úr verður ákveðið leiðarstef sem setur mark sitt á textann á glettinn en þó einnig íronískan máta.

Allt frá upphafsljóði bókarinnar sem ber titilinn "þaulsætni" tregar ljóðmælandi þrákelkni hins íslenska veturs: „veturinn fer aldrei / alveg / það gengur bara mismikið / á forðann.“ Um leið býr hann lesandann undir það sem koma skal: „síðasti skaflinn / (sem þú sérð rétt móta fyrir / í kíkinum) / leggur / fljótlega / undir sig / fjallið.“ Með þessu móti slær ljóðið tóninn fyrir verkið í heild og endurómar um leið vísu Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds sem prýðir fremstu síðu bókarinnar: „Allt er kalt og allt er dautt / eilífur ríkir vetur.“

Snjór á snjó ofan

Líkt og í fyrri ljóðabók Þórðs Sævars Vellankötlu er að finna þó nokkur myndljóð í Brunagaddi sem glæða hana bæði húmor og svellkaldri alvöru. Þeirra á meðal má nefna ljóðin "kósídagur", "stofufangelsi" og "kviksetning" sem öll hafa sama form og samanstanda af orðinu „snjór“ sem teygir sig upp eftir blaðsíðunni í sautján ljóðlínum. Ljóðin þrjú teikna þannig upp mynd af snjó sem leggst á snjó ofan og minna jafnvel á hálfgerðan snjóskafl.

 

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

snjórsnjórsnjórsnjórsnjórsnjór

 

Líkindi ljóðanna þriggja beinir athygli lesandans ósjálfrátt að titlum þeirra sem er það helsta sem greinir þau að auk þess að þeim fylgir öllum sitthver talan. Þannig fylgir "kósíkvöld" til að mynda talan einn, "stofufangelsi" talan átta og "kviksetningu" talan tuttuguogsjö. Form ljóðanna þriggja miðlar því þeirri tilfinningu að ljóðmælandi telji daga sína þar sem hann situr fastur í prísund vetrar og berst á móti nístandi frosti og skammdegi. Eftir því sem líður á veturinn eykst innilokunarkenndin og það sem eitt sinn var "kósídagur" verður seinna meir að "stofufangelsi" og að lokum að "kviksetningu". Með ljóðinu "kviksetning" verður myndlíkingin sérlega ískyggileg þar sem form ljóðsins ýtir undir þá túlkun að ljóðmælandi eigi á hættu að grafast undir snjó.

Heimsins stærsti óskilamunur

Í ljóðabókinni allri er veturinn eilíflega persónugerður sem ógnvænlegur og banvænn óvinur sem tekur á sig ýmsar myndir og skýtur ljóðmælandanum í sífellu skelk í bringu; hann birtist í senn sem froðufellandi kuldaboli og vetur konungur, miskunnarlaus einræðisherra, óþreytandi hasarljósmyndari og heimsins stærsti óskilamunur:

veturinn

er ekki

á förum

 

hann er kominn

til að vera

 

líkt og

miskunnarlaus

einræðisherra

 

heimsins stærsti óskilamunur

Í ljóðunum "árstíðaskipti" og "minnisleysi" verður veturinn þar að auki að árvissum fyrirbura sem kemur ávallt of snemma og gerir aldrei almennilega boð á undan sér: „bara ef okkur / yrði gert viðvart / með nægum fyrirvara / svo við hefðum ráðrúm / til að grípa til viðeigandi ráðstafana.“ Hér, líkt og á fleiri stöðum í bókinni, er húmorinn allsráðandi og ljóðmælandi gerir góðlátlegt gys að því „króníska minnisleysi“ sem hann sjálfur (og ef til vill kannast margir lesendur einnig við þetta) er haldinn og lýsir sér í því að á hverju ári gleymir hann og enduruppgötvar síðan á ný hve harður og grimmur veturinn er og hve árstíðaskiptin eru skjót.

Lækkandi hitastig og kuldi sem smýgur inn að beini

Í fyrstu ljóðum bókarinnar stígur veturinn varfærnislega á svið en eftir því sem á líður færist nístingskuldinn í aukana og snjókoman eykst. Hitastig bókarinnar fer einnig stiglækkandi með hverri blaðsíðu og hrapar úr meðalhitastigi líkamans í ljóðinu "36,4°" niður í "27,5°" í samnefndu ljóði, þaðan yfir í "18,8°", einnig í samnefndu ljóði, og þannig koll af kolli þar til kuldinn tekur endanlega yfir og Brunagaddi lýkur við frostmark með ljóðinu "0°". Veturinn smýgur hér inn að beini og mörkin á milli líkamans og náttúrunnar sem umlykur hann eru máð út. Þannig situr skriðjökull til að mynda klofvega á öxlum ljóðmælanda og marblettsbrúnt jökulfljót „rennur / niður hryggjasúluna,“ í ljóðinu "36,4°", þæfingur á sér stað í hnakkagróf og blotahríð á hvirfli í ljóðinu "27,5°" og sinnepsgult snjóruðningstæki fleiðrar höfuðleður ljóðmælanda í ljóðinu "18,8°". Í ljóðinu "9,3°" hýsir ljóðmælandi jafnframt borgarísjaka innra með sér: „hvorn / í sínu / lunganu / og þeir rista djúpt / alveg ískyggilega / djúpt.“ (37) Brunagaddur boðar því hægan dauða eða hnignun, bæði manns og náttúru, og undir lok bókarinnar er sem blóðið frjósi í æðum ljóðmælanda um leið og hann rennur endanlega saman við hrímgað landslagið:

og allt í einu

kemst ég ekki

skrefinu lengra

 

með botnfrosið stöðuvatn

í eftirdragi

 

finn kuldann

ryðja sér

til rúms

 

finn blóðið

frjósa

 

finn ekki

fyrir neinu

Brunagaddur er afar heildstætt og fallegt verk sem sækir í kunnuleg minni og talar til þeirra sem finnst veturinn alltaf koma of snemma og staldra of lengi við. Þórður Sævar skrifar á hispurslausan og glettinn máta um upplifun sína af íslenskum vetri og veðráttu sem ekki er þekkt fyrir að sýna nokkra miskunn, líkt og lesendur bókarinnar þekkja eflaust flestir á eigin skinni. Úr verður hárbeitt og einlæg ljóðabók sem á vel við á árstíma sem þessum þegar veturinn er rétt að ganga í garð.

 

Snædís Björnsdóttir, nóvember 2021