Beint í efni

Dauði trúðsins

Dauði trúðsins
Höfundur
Árni Þórarinsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Þorgerður E. Sigurðardóttir

Þó að Íslendingar hafi tekið glæpasögunni opnum örmum á undanförnum árum eru þeir í raun ekki svo margir höfundarnir sem hafa lagt þetta bókmenntaform fyrir sig og haldið sig nokkurn veginn við það. Árni Þórarinsson er tvímælalaust einn af þessum höfundum, sjöunda glæpasaga hans er nýkomin út en þar er fjallað um söguhetjuna Einar blaðamann sem er góðkunningi þeirra sem lesið hafa bækur Árna. Lesendur hittu hann síðast fyrir í bókinni Tími nornarinnar en í þeirri bók var Einar kominn til Akureyrar þar sem hann vinnur á útibúi Síðdegisblaðsins þar í bæ. Í nýjustu bók Árna, Dauði trúðsins, er hann enn fyrir norðan og tekur því fagnandi þegar nýtt sakamál rekur á fjörur hans í þónokkurri gúrkutíð sem er auðvitað ávísun á óspennandi verkefni á borð við Spurningu dagsins. Einar fær dularfull skilaboð frá ókunnri konu þess efnis að draugar leiki lausum hala í ákveðnu húsi og ákveður hann að athuga hvort eitthvað sé til í þessu. Gamanið kárnar hinsvegar þegar lík ungrar stúlku finnst þar og Einar gengur að sjálfsögðu í það sjálfskipaða hlutverk að komast til botns í málinu.

Bækurnar um Einar blaðamann sækja nokkuð mikið í brunn hinnar svokölluðu skandinavísku hefðar í glæpasagnaritun. Hér er fjallað um samfélagsmál og söguhetjan er sumpart kunnugleg, drykkfelldi lögreglumaðurinn sem er að vísu blaðamaður í þessu tilfelli sem glímir við hin ýmsu mál í sínu prívatlífi. Hann á eina dóttur, eins og svo margir kollegar hans í þessum geira og það stefnir jafnvel í að hún hafi erft ósiði hans, rétt eins og dætur Erlends Arnaldar Indriðasonar og Wallanders sem Henning Mankell hefur skrifað margar bækur um. Það er að mörgu leyti erfitt að gagnrýna höfunda fyrir klisjur í glæpasagnageiranum sem byggist í raun hálfpartinn á þeim og lesendur hafa iðulega ákveðnar væntingar um efnistök. Persóna Einars er hinsvegar sumpart á skjön, mér sýnist á öllu að hann sé á aldri þeirrar sem hér skrifar, það er að segja um fertugt, en hinsvegar fannst mér stundum frekar eins og verið væri að skrifa um einhvern af kynslóð foreldra minna. Að vissu leyti gerir þetta persónuna áhugaverðari, þetta undirstrikar að Einar er á skjön við umhverfi sitt í fleiri en einum skilningi sem gerir persónuna að vissu leyti áhugaverða fyrir vikið en þetta virkar líka oft og tíðum hreinlega undarlega. Af öðrum persónum er huldukonan sem vekur athygli á dularfulla húsinu en verður ekki afhjúpuð frekar hér einna athyglisverðust, dýnamíkin sem myndast milli hennar og Einars er að mörgu leyti áhugaverð þó að hún sé ekki alltaf beinlínis trúverðug ef mið er tekið af tímaramma sögunnar.

Styrkur höfundarins felst tvímælalaust í áreynslulausum stíl sem er oftast blessunarlega laus við tilgerð og hann lýsir öllum aðstæðum á sannfærandi hátt. Glæpurinn sem hér um ræðir á sér stað um verslunarmannahelgi en eins og allþekkt er hefur fólkt streymt til Akureyrar á útihátíðir undanfarin ár við mismikinn fögnuð bæjarbúa. Og til að bæta gráu ofan á svart er bærinn fullur af erlendu kvikmyndatökuliði sem vekur bæði usla og athygli. Lögreglan á þannig nóg með sitt og þarf ekki á morðmáli að halda og það eykur ruglinginn og spennuna. Lesandinn fær fína tilfinningu fyrir andrúmsloftinu við þessar sérkennilegu aðstæður þar sem samfélagið fer hálfpartinn á hvolf og allar lýsingar eru sannfærandi sem er langt frá því að vera sjálfgefið.

Veiki hlekkurinn í bókum Árna hefur hinsvegar iðulega verið framsetning söguþráðar eða það sem við köllum oftast „plott“ sökum skorts á betra orði í íslensku. Plottið er auðvitað lykilatriði í glæpasögum og höfundurinn hefur svo sannarlega verið á réttri leið og sýndi það í Tíma nornarinnar en hér finnst mér vanta nokkuð uppá það að söguþráðurinn veki áhuga. Lausn málsins er í sjálfu sér ekki beinlínis ósannfærandi en einhvern veginn er hún bara ekki nægilega spennandi í ljósi þess sem lagt er upp með. Þetta er heljarinnar frásögn og byrjar býsna vel en svo tekst ekki nægilega vel að vinna úr þráðunum í sögunni, svo dæmi sé tekið vantar nokkuð upp á trúverðugleika hlutans sem gerist á meðferðarstofnuninni Virkinu, vera Einars þar er hálf endasleppt og afleiðingar hennar ekki nægilega sannfærandi.

Eins og svo oft vill gerast í glæpasögum sem hægt er að flokka í skandinavíska raunsæisgeirann er hér drepið á mörgum samfélagsmeinum sem er auðvitað hið besta mál. Hér er fjallað um kynferðislega misnotkun og ofbeldi ýmisskonar, ítök og völd auðmanna, skort á úrræðum fyrir eiturlyfjafíkla, ráðaleysi lögreglu sem býr við manneklu og þannig mætti áfram telja. Glæpasögur af þessu tagi endurspegla þannig gjarnan samtíma sinn. Dauði trúðsins sinnir þessu hlutverki að mörgu leyti ágætlega, efniviðurinn vekur í sjálfu sér áhuga en hann ber plottið yfirliði þegar á líður, uppbyggingin hefði þurft að vera markvissari. Mér finnst þetta reyndar vera býsna algengur galli á íslenskum glæpasögum en höfundurinn hefur sýnt að hann getur gert betur að þessu leyti og það gerir hann vonandi næst.

Þorgerður E. Sigurðardóttir, desember 2007