Beint í efni

Dávaldurinn og Kallinn undir stiganum

Dávaldurinn og Kallinn undir stiganum
Höfundur
Ísak Harðarson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Dávaldurinn og Kallinn undir stiganum
Höfundur
Lars Kepler
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Sigurður Ólafsson

Það var lengi til siðs (og er kannski enn) að gefa öllum íslenskum kvikmyndum þrjár stjörnur af fjórum í vissum virðulegum íslenskum fjölmiðlum, alveg óháð því hversu gjörsamlega vonlausar myndirnar voru. Röksemdafærslurnar að baki þessu hafa löngum verið þær að þetta sé nú „svo ung listgrein hér á landi“ og að „tilraunin sé góð“ og svo fram eftir götunum.

Svipað er til siðs þegar kemur að því að dæma bækur sem fremur virðast skrifaðar með sölugróða í huga en listrænt gildi. Þá á alltaf að gefa sama afslátt af listrænum standard og segja til dæmis að „sem glæpasaga“ sé þessi eða hin bókin bara nokkuð góð - það er sjaldnar sagt frá því að „sem skáldsaga“ sé bókin hins vegar kannski alveg hreint skelfileg. 

Eftir þennan inngang fer fólk kannski að gruna hvað mér finnst í raun um tvær af þeim sendingum sem íslenskum lesendum hafa nýlega borist frá Svíþjóð og verða reifaðar stuttlega hér á eftir. Þetta eru Dávaldurinn eftir Lars Kepler (höfundarnafn hjónanna Alexöndru Coelho Ahndoril og Alexanders Ahndoril) og Kallinn undir stiganum eftir Marie Hermanson.

Það hefur lengi reynst manni gagnlegt víti til varnaðar að forðast amerískar stórmyndir sem ekki geta staðið betur fyrir sínu en að þær séu „frá sama framleiðanda“ og einhver hæfilega vel lukkuð önnur bíómynd eða að þær séu „í anda“ einhverrar alveg stórkostlegrar myndar. Þetta má segja um Dávaldinn (Hypnotisören) sem mikið er auglýst sem spennusaga „í anda Stieg Larssons“. Hljómar grunsamlega þunnt en veit sjálfsagt á gott fyrir þá aðdáendur Millenium-þríleiksins sem bíða enn og vona að það sé satt sem sagt er; að fjórða Millenium-bókin sé í raun til á harða disknum hjá ekkju Larssons og komi einn daginn út. Sjálfur skildi ég reyndar aldrei hvað þótti svona frábært við þetta formúlukennda meðalmennskudót Larssons en var þó nógu forvitinn um „hæpið“ í kringum þær til að klára þær allar (þeim tíma hefði verið betur varið í eitthvað annað). 

Dávaldurinn var svo sannarlega líka „hæpuð“ í sænskri spennubókaumræðu síðasta árs og aftur skal viðurkennast að maður verður ögn forvitinn um hvort að þessi saga sé í raun og veru eins frábær og allir segja.

Niðurstaðan er að þetta er svo sem alls ekki sem verst. Þetta er ágætis þriller, keyrður áfram eins og aksjónmynd sem maður sér alveg ljóslifandi fyrir sér (mynd eftir bókinni er vitanlega í bígerð). Hraðinn og spennan er mikil og dampurinn fínn lengi vel en svo dettur allt niður um miðbik bókar þar sem kemur óbærilega langdreginn útúrdúr frá tíu árum áður sem skýrir bakgrunn atburða nútímans. Þessi heillangi útúrdúr fer langt með að eyðileggja uppbyggingu sögunnar og það tempó sem komið var á fulla fart. Í lokin er hins vegar allt keyrt upp á ný og úr verður hressilegur endasprettar á bók sem hefði orðið enn betri ef að ritstjóri á sænsku forlagi þeirra Ahndoril-hjóna hefði verið óhræddari við blóðugan niðurskurð á handriti bókarinnar. En þetta er fremur auðgleymanlegt, eins og flest er, sem fyrst og fremst í skrifað „í anda“ einhvers annars (þó að mesta kaldhæðnin felist nú kannski í því að Dávaldurinn líkist varla á nokkurn hátt Millenium-seríunni...).

Kallinn undir stiganum (Mannen under trappan) vakti líka nokkra athygli í Svíþjóð þegar hún kom út fyrir fimm árum og eftir henni var gerð sjónvarpsþáttasería í sænska ríkissjónvarpinu í fyrra.

Sagt hefur verið um þessa bók að hún sé á mörkum þess að geta talist glæpasaga, kannski eins og á við um sumar af bókum Håkans Nessers. Fyrst og fremst teljast sumar af bókum Håkans Nessers á mörkum þess að teljast glæpasögur af því að þær eru of góðar til eiga það skilið að falla í meðalmennskuflokk glæpasagna. Þetta á til dæmis við um hina stórfínu Kim Novak baðaði sig aldrei í Genesaret-vatni (kom út á íslensku 1999).

Plottið í Kallinum undir stiganum er vissulega á grensu hefðbundinna glæpabókmennta. Þetta er kannski frekar einhvers konar sálfræðiþriller þar sem efinn ríkir alltaf um það hvað er ímyndun og hvað ekki. Sagt er frá Fredrik sem er nýfluttur í draumahúsið með fjölskyldunni sinni og hamingjan virðist blasa við, allt þar til að hann kemst á snoðir um óæskilegan og fremur ókræsilegan leigjanda sem býr í skúmaskoti lengst undir stiga hússins og vill ekki hafa sig á brott.

Sagan á líklega að kallast á við Tímavél H.G. Wells og önnur seinni tíma verk þar sem tekist er á við spurninguna um hvenær við sjálf erum orðin óvætturin í átökum okkar við öflin sem að okkur steðja frá hinu neðra og óæðra. Þessi minni hafa auðvitað verið endurtúlkuð í fjölmörgum listaverkum, tvö nýleg en mjög ólík dæmi eruTryggðarpantur Auðar Jónsdóttur og kvikmyndin District 9

Slíkar vangaveltur eru yfirleitt áhugaverðar en þó einkum í tilvikum góðra listaverka þar sem pælingarnar eru djúpar og nýstárlegar. Það eru þær engan veginn íKallinum undir stiganum og raunar er hér um að ræða fjarskalega lítilfjörlegan litteratúr. Svo maður sé nú ekkert að fara í kringum hlutina þá er þetta hreinlega ekki nógu vel skrifað. Stutt umfjöllun eins og þessi gefur ekki rými til mikils rökstuðnings en hér fylgir örstutt dæmi, af handahófi, um þann klunnalega stíl sem einkennir allt verkið:

„Hann hafði aldrei heyrt börnin sín grenja svona. Öskrin í þeim sundruðu honum, brutu hann í þúsund mola sem þeyttust í allar áttir.“ (bls. 149)

Hrollvekjum á að vera í lófa lagið að kalla fram hjá manni hroll. Verra er þegar þær kalla bara fram aulahroll. Ég hafði sænsku útgáfuna mér til hliðsjónar en las hana ekki í heild og get því ekki til fullnustu metið hvort nokkuð sé við þýðandann Ísak Harðarson að sakast. Hins vegar hafa nokkrar meinlegar villur sloppið framhjá yfirlesara verksins. Þannig er hin almenna þýðing á „Västergötland“ annað hvort „Vestur-Gautland“ eða „Vestur-Gautaland“ en ekki „Vestur-Götaland“ og svo er „åttiotalet“ níundi áratugurinn en ekki sá áttundi (bls. 45).

Kallinn undir stiganum og Dávaldurinn falla vonandi einhverjum í geð. Ég er hins vegar ekki jafn gjafmildur og dómarar íslensku bíómyndanna í sumum virðulegum íslenskum fjölmiðlum. Þær fá því ekki þrjár stjörnur af fjórum mögulegum hér. Ekki einu sinni nálægt því.

Sigurður Ólafsson, nóvember 2010.