Beint í efni

Dimmubókin

Dimmubókin
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Dimmubókin er síðasti hluti þríleiksins um lífið í Mángalíu, Myrkland og samskipti vöðlunga og manna. Fyrri bækurnar tvær eru Brúin yfir Dimmu (2000) og Ljósin í Dimmuborg (2002).

Vöðlungar eru verur sem líkjast mjög mönnum og búa í landinu Mángalíu handan við ána Dimmu. Þó að vöðlungar og menn lifi í aðskildum heimum eru ákveðin tengsl á milli og stundum villast vöðlungar yfir í mannheima, sem þeir kalla Myrkland, og öfugt. Vöðlungum þykja mennirnir grimmir og hættulegir og forðast samneyti við þá í lengstu lög en stundum verður þó ekki hjá því komist að íbúar heimanna tveggja hittist. Dimmubókin gerist löngu á eftir fyrri bókunum tveimur. Hún hefst í mannheimum og segir frá Adda, fjórtán ára gömlum íslenskum strák, sem er á leið til Írlands með pabba sínum. Pabbinn, Grímur, er sagnfræðingur og ætlar á ráðstefnu í Dublin en Addi fær að koma með í von um að ferðin muni gera honum gott þar sem hann hefur verið niðurdreginn undanfarið. Feðgarnir koma sér fyrir á litlu hóteli í miðborginni þar sem allt er fremur gamaldags og umhverfið þrungið sögu. Þeir skoða sig um áður en ráðstefnan hefst og fara meðal annars á handritasýningu þar sem Addi rekur augun í ævafornt handrit Dimmubókarinnar. Addi er að lesa Brúna yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg og dettur í hug að þetta handrit kunni að tengjast þeim á einhvern hátt. Hann sér ýmislegt fleira sem hann tengir bókunum tveimur og svo virðist sem eitthvað dularfullt sé á seyði í Dublin.

Eina nóttina er honum svo óvænt kastað inn í heim ævintýranna þegar lyfta hótelsins breytist í tímavél og flytur hann mörg hundruð ár aftur í tímann, til Írlands sem er gjörólíkt því sem hann hefur kynnst hingað til. Tímavélin skilar Adda í kastala þar gengur hann fram á stelpu á svipuðu reki og hann sjálfur, sem er haldið fanginni í kastalanum. Stelpan segist heita Kría og vera munaðarlaus, hún veit ekki hvaðan hún kemur upprunalega en veit að hún á einhversstaðar fjölskyldu. Hermennirnir sem halda Kríu grípa Adda líka en þegar á að flytja þau úr kastalanum tekst þeim að flýja og þau halda á uppeldisslóðir Kríu að leita vina hennar, sem hún segir að geti hjálpað þeim. Smám saman fer Adda að gruna að hann viti hver Kría sé í raun og ákveður að hjálpa henni að komast heim til sín og finna fjölskyldu sína. En leiðin heim er ekki greið og liggur bæði um Ísland fortíðarinnar og heim vöðlunga áður en Addi og Kría finna það sem þau leita að.

Í Dimmubókinni er sagan sögð frá sjónarhorni manns sem fer til Mángalíu, ólíkt fyrri bókum þar sem fjallað er um vöðlunga sem fara til mannheima. Þessi viðsnúningur á sjónarhorni er áhugaverður og veitir nýja sýn á heiminn sem lýst er í sögunum. Leiðin milli Myrklands og Mángalíu er ekki auðfundin en Kría er með í vörslu sinni galdraskræðu sem gefur hugmynd um hvernig megi komast þangað. Með galdraþulum og mætti hugans komast þau svo frá einum stað á annan og bækurnar Brúin yfir Dimmu og Ljósin í Dimmuborg verða eins konar leiðarvísar um heim vöðlunga. Addi er aðalpersóna sögunnar og er sagan sögð frá sjónarhorni hans, en ásamt Kríu gegnir hann stærstu hlutverki og verða persónur þeirra einna skýrast mótaðar. Áherslan er samt sem áður á umhverfi og atburðarás þó að lesandinn fái að skyggnast inn í upplifanir Adda og hugsanir. Umhverfislýsingar eru nákvæmar og gefa trúverðuga mynd af fortíðinni og þeir sem lesið hafa fyrri bækurnar kannast við staði í Mángalíu og sjá og skynja breytingar, á sama hátt og Addi gerir. Persónur fyrri bókanna koma einnig fyrir hér en eru í hálfgerðu aukahlutverki. Þær hafa elst og þroskast en lesandinn þekkir þær samt aftur. Margt er látið ósagt í sögunni og lesandanum leyft að gera sér hugmyndir um það sjálfur, enda tengslin milli mannheima og vöðlunga full af ráðgátum. Dimmubókin sem Addi sér á handritasýningunni er ein slík ráðgáta og tengir saman þá staði sem þau Kría lenda á í ferðalögum sínum. Bróðir Kormákur, sem er skrifari og uppeldisbróðir Kríu, geymir eintak af Dimmubókinni í klaustrinu á Írlandi fortíðarinnar og sama bók er til sýnis í Þrenningarháskólanum á Írlandi nútímans. Auk þess eru nokkur blöð úr Dimmubók í bókasafni Dimmuborgar, gefið er í skyn að hún sé kannski rituð af vöðlungi eða einhverjum sem hafði mikla þekkingu á Mángalíu.

Tákn og tungumálið gegna mikilvægu hlutverki í sögunni og helst það í hendur við annað umfjöllunarefni bókarinnar sem er þekking og þekkingarleit. Handritasýningin sem Addi fer á í Dublin ber yfirskriftina „að breyta myrkri í ljós“. Samspil ljóss og myrkurs sem hefur verið þema í öllum bókunum hefur mikla merkingu og snýst ekki bara um eiginlegt myrkur eða fjarveru ljóss heldur einnig leit að upplýsingum og leit að hamingju. Þó að Dimmubókin geti vissulega staðið ein og sér er skemmtilegt að lesa allar bækurnar saman til þess að hægt sé að sjá tengingarnar á milli þeirra og samhengið, velta fyrir sér breytingum og hvað hafi orðið um persónurnar úr fyrri sögunum. Þó að Addi og Kría séu frá mismunandi tímum og löndum eiga þau margt sameiginlegt. Þau eru bæði frekar týnd í tilverunni þó að það sé á mismunandi hátt og þau hjálpast að við að finna leiðina heim. Addi þroskast og lærir í ferðinni, og virðist í lokin sem hann hafi fengið endurnýjaðan áhuga á umhverfi sínu og tilverunni allri þannig að lesandinn fyllist von og bjartsýni um framtíð hans.

María Bjarkadóttir, desember 2014