Beint í efni

Doddi: bók sannleikans!

Doddi: bók sannleikans!
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Það vantar skemmtilegar bækur fyrir unglinga, bækur sem eru til dæmis ekki of þykkar. Þetta segir Doddi, sem er 14 ára og aðalpersónan í Doddi: Bók sannleikans! í innganginum að sögunni. Honum finnst framboðið á bókum afskaplega óspennandi og ákveður að bæta bara sjálfur úr því með því að skrifa bók sem hann langar til að lesa. Þessi gagnrýni Dodda í upphafi sögunnar virðist ekki úr lausu lofti gripin því nýlega birtist einmitt á Vísir.is pistill eftir ungan lesanda sem er á sama máli. Honum finnst sárlega vanta lesefni fyrir sig og jafnaldra sína, sérstaklega stráka, sem er sífellt verið að hvetja til lesturs þegar framboðið er bara ekki nógu spennandi.

Doddi: Bók sannleikans! er skrifuð fyrir lesendur í efri bekkjum grunnskóla og höfðar sérstaklega til þeirra sem hafa gaman af því að lesa en eru ekki spenntir fyrir fantasíum eða hrollvekjum, en þær hafa verið nokkuð áberandi meðal unglinga- og ungmennabóka undanfarin ár. Höfundarnir hafa báðir áður skrifað bækur fyrir börn og unglinga, Hildur Knútsdóttir er kannski best þekkt fyrir nýlegar unglingabækur sínar, Vetrarfrí og Vetrarhörkur ásamt fleirum en Þórdís Gísladóttir hefur áður sent frá sér meðal annars ljóðabækur og barnabækurnar um Randalín og Munda.

Sagan hefst í lok sumars og Doddi segir í upphafi frá því þegar hann fer í sumarfrí til Svíþjóðar ásamt pabba sínum, stjúpu og litlu stjúpsystur sem er svo frek að Doddi er sannfærður um að hún sé andsetin. Hann er ekki mjög spenntur fyrir þessari ferð í fyrstu en það rætist heldur betur úr henni þar sem hann kynnist stelpu í röðinni í ísbúð. Stelpan sem um ræðir er hin íslenska Hulda Rós, sem er á svipuðum aldri og Doddi og búsett í Lundi. Doddi verður strax mjög spenntur fyrir að kynnast henni betur en er ekki svo heppin að hann hitti hana aftur í fríinu.

Hann hefur þó heppnina með sér þegar heim er komið. Þegar skólinn byrjar um haustið kemur í ljós að Hulda Rós er flutt heim til Íslands og verður í sama skóla og hann. Doddi verður fljótt yfir sig ástfanginn af henni og hún virðist bara nokkuð spennt fyrir honum líka. Hann reynir ýmislegt til að kynnast henni betur og allt virðist meira að segja ætla að ganga upp hjá honum. Reyndar eru alltaf einhverjir eldri strákar að sverma fyrir henni og það veit varla á gott, eða hvað? En þó að Doddi sé ástfanginn gerir hann ýmislegt fleira þetta haust. Hann hangir til dæmis með besta vini sínum Pawel sem hefur tvö áhugamál, stærðfræði og að skiptast á móðgunum við Dodda, og svo kynnist hann alvöru glæpakonu svo fátt eitt sé nefnt.

Doddi: Bók sannleikans! er sögð í fyrstu persónu, á hálfgerðu dagbókarformi og í léttum dúr. Markmið Dodda er að segja frá lífi sínu og hann skrifar reglulega um það sem á daga hans drífur. Frásögnin er algerlega laus við tepruskap og Doddi er ekki feiminn við að segja lesendum frá persónulegum hlutum eða atburðum, pælingum um kynlíf og reynslu eða reynsluleysi sínu í ástarmálum. Pawel myndar gott mótvægi við Dodda þar sem þeir félagarnir eru mjög ólíkir, Pawel er veraldarvanari (eða gefur sig út fyrir að vera það) og yfirvegaðri en Doddi sem er mjög upptekin af ástinni og frekar stressaður yfir að gera eitthvað vitlaust á því sviði.

Sagan gerist á um það bil hálfu ári og er vísað í ýmsa atburði og dægurmenningu, svo sem Almar í kassanum, viðtalsþátt Gísla Marteins í sjónvarpinu og fleira til að staðsetja söguna í nútímanum og undirstrika markmið Dodda um að bókin eigi að innihalda sannleika. Sagan er full af húmor og Doddi og Pawel miklir brandarakarlar, en þrátt fyrir það má einnig greina alvarlegri undirtón. Heimilisaðstæður Dodda eru til dæmis erfiðar á köflum þar sem hann býr að mestu leyti hjá mömmu sinni sem er einstæð og á erfitt með að láta enda ná saman. Stundum á hún ekki fyrir mat út mánuðinn og Doddi hefur lært að borða bara það sem er til og gera ekki miklar kröfur um peninga eða hluti. Peningaleysi móður hans virðist reyndar ekki fá mikið á hann, pabbi hans sér honum fyrir fötum og ýmsu öðru og Doddi hefur komist upp á lag með að láta bjóða sér í mat til Pawels þar sem hann er alltaf velkominn. Glæpakonan sem Doddi kynnist í sögunni veitir honum líka ákveðna innsýn heim sem er honum framandi og vekur hann til umhugsunar um mismunandi aðstæður í lífi fólks.

Doddi lærir og þroskast í sögunni, kynnist aðstæðum sem hann hefur ekki staðið frammi fyrir áður og tekst að komast frá þeim nokkurn vegin án varanlegs tilfinningalegs tjóns. Hann gerir nákvæmlega það sem hann segist ætla að gera í upphafi: hann segir lesandanum sannleikann, í það minnsta frá sínum bæjardyrum séð, og dregur ekkert undan þó það kunni stundum að sýna hann sjálfan í miður góðu ljósi. Sannleikurinn er reyndar alltaf afstæður, mamma Dodda fær til dæmis eina útgáfu af sannleikanum og pabbi hans aðra, allt eftir því hvað Doddi heldur að þau muni ráða við og muni hafa sem minnst vandræði í för með sér fyrir hann og hans líf. Doddi: Bók sannleikans! er stutt eins og Doddi lofar í innganginum og alveg laus við að fjalla um ævintýri. Hún er líka stórfyndin og lýsir hversdagslegu lífi unglingsstráks á tilgerðarlausan hátt.

María Bjarkadóttir, desember 2016