Beint í efni

Dóttir hafsins

Dóttir hafsins
Höfundur
Kristín Björg Sigurvinsdóttir
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Hafmeyjur og marbendla þekkja flestir úr þjóðsögum og ævintýrum. Almennt eru þessir sjávarvættir einhverskonar blanda af fiski og manni og hafmeyjurnar eru öllu algengari en karlkyns samsvaranir þeirra. Oft eru þær forkunnarfagrar, mennskar niður að mitti en með sporð í stað fótleggja. Þær lokka til sín grunlausa sæfara með töfrandi söng, leiða þá af réttri leið og granda skipum þeirra. Sírenur Ódysseifskviðu voru þekktar fyrir slíkt en aðrar hafmeyjur eru aðeins vinveittari mannfólki. Í „Litlu hafmeyjunni“, ævintýri HC Andersens, bjargar dóttir sjávarkonungsins mennskum prins frá drukknun og verður ástfangin af honum. Hún fórnar sporðinum þegar hún gengur á land til að freista þess að vinna ástir hans og lætur að lokum lífið fyrir ástina.

Í Dóttur hafsins eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur er fjallað um heila þjóð marfólks sem lifir á sjávarbotni undan ströndum Íslands og þó að draga megi ákveðnar hliðstæður milli hafmeyja þjóðsagnanna og marfólks sögunnar, er tengingin aðeins lausleg. Marfólkið í sögunni hefur til að mynda nánast engin tengsl við mannfólk og lífið á landi, er ekki að reyna að granda skipum eða lokka fólk til sín í hafið. Það er með sundfit á höndum og fótum, en ekki sporð, og er hreistrað með grænleita húð. Karlkyns marmenn eru hér í miklum meirihluta enda samanstendur þjóð marfólksins af drukknuðum mönnum sem hafa hlotið framhaldsslíf neðansjávar og þar sem karlar hafa verið í miklum meirihluta þeirra sem sækja sjóinn er það nokkuð rökrétt.

Dóttir hafsins er fyrsta bókin í þríleik og segir frá aðalpersónunni Elísu sem er sextán ára og býr ásamt foreldrum sínum og eldri bróður í bænum Bergvík á Vestfjörðum, þar sem hafið leikur stórt hlutverk í lífi fólks. Þegar Elísa og vinkona hennar fara að grúska í gömlum skjölum á bókasafni bæjarins fyrir skólaverkefni rekast þær á frásögn af konu sem gekk í sjóinn af bryggjunni í Bergvík um tvöhundruð árum áður og sást aldrei framar. Frásögnin hefur töluverð áhrif á Elísu sem er gripinn skyndilegri þörf fyrir að sjá staðinn þar sem konan hvarf. Á leiðinni þangað heyrir hún undursamlega tónlist berast frá hafinu og rödd sem kallar á hana. Áður en hún veit af stendur hún á bryggjunni og sjórinn grípur hana til sín. Hún rankar við sér neðansjávar og er sannfærð um að hana sé að dreyma þegar hún áttar sig á því að hún er komin með sundfit milli fingranna og húð hennar er orðin grænleit og hreistruð. Hjá henni er strákur á hennar reki, sem kynnir sig sem marmanninn Everó og upplýsir hana um að hún tilheyri nú þjóð marfólksins og geti aldrei snúið aftur heim.

Elísa á ekki annarra kosta völ en að fylgja stráknum að heimkynnum hans og marfólksins í fjólubláu borginni Jenerí, sem liggur á sjávarbotni. Margt undarlegt ber fyrir sjónir Elísu, sem er ekki alveg sannfærð um að hún sé ekki bara sofandi heima í Bergvík að dreyma allt saman. Henni verður samt fljótt ljóst að Everó telur hafið hafa kallað hana til sín til að uppfylla fornan spádóm. Marfólkið á öfluga óvini sem vilja komast yfir gjöful landsvæði þeirra en spádómurinn segir að dóttir hafsins muni koma til að bjarga marfólkinu og samfélagi þeirra frá tortímingu. Everó færir Elísu fyrir öldungaráð borgarinnar, þar sem hún þarf að sanna sig. Hún er enn ekki alveg viss sjálf hvort hún sé sú sem Everó heldur en ef Elísa er raunverulega dóttir hafsins þýðir það að óvinir marfólksins séu kraftmeiri en nokkurn grunaði og hætta vofir yfir. Þegar Elísa stenst öllum að óvörum prófin er hún strax sett í stífa þjálfun til að læra að berjast með vopnum og verja sig, þar sem verndari marfólksins þarf að vera reiðubúinn þegar kallið kemur. Hættan er ekki langt undan og áður en hún veit af þarf hún að nota allt sem hún hefur lært til að berjast við hina ógurlegu náttdreka, sem tortíma öllu sem á vegi þeirra verður.

Umhverfið í hafinu og samfélag marfólks koma mikið við sögu, lýsingar á því hvernig Elísa upplifir nýju heimkynni sín og hvernig henni gengur að aðlagast þessum, fyrir henni, nýja heimi. Hafið er sannarlega framandi staður, ekki bara fyrir Elísu heldur fyrir lesendur líka en frásögnin er krydduð áhugaverðum smáatriðum sem undirbyggja söguna á hátt sem gerir umhverfið ljóslifandi í huga lesandans. Borgin Jenerí er aðalsögusviðið neðansjávar og þar kynnist Elísa ýmsum nýjungum, enda hlýtur lífið í hafinu að lúta allt öðrum lögmálum en á landi.

Neðansjávardalurinn var umkringdur bröttum fjöllum og í dalbotninum kúrði stórfengleg borg. Glæsileg mannvirki, eða réttara sagt marvirki, risu upp af hafsbotninum. Þau voru flest lágreist og óregluleg. Elísa gat ekki borið kennsl á byggingarefnið en fjólubláan ljóma lagði af borginni. (54)

Samfélagið sem birtist í Elísu á sjávarbotni er mjög frábrugðið því sem hún þekkir af landi og samanburðurinn undirstrikar það vel:

Skipulag borgarinnar var heldur ekki eins og Elísa átti að venjast. Á landi voru götur byggðar fyrir bíla og á milli gatna voru hús. Á hafsbotni ríkti hins vegar fullkomin óreiða. Stundum stóðu húsin í þéttum þyrpingum en annars staðar var lengra á milli. Hugsanlega var ekki þörf fyrir götur þar sem marfólkið synti annaðhvort milli húsanna eða fyrir ofan þau. Elísa rak upp stór augu þegar hún sá marmann synda upp um op á einu húsinu sem leit út eins og ígulker. Þar sem húsin stóðu nálægt hvert öðru höfðu útgönguleiðirnar verið settar ofan á þau. Þarna voru byggingar, borgarlíf og gróður. Heill menningarheimur þreifst á hafsbotni og fólk á landi hafði ekki hugmynd um það. (58)

Heimur sögunnar er heildstæður og sannfærandi, og undrunin sem hið nýja heillandi umhverfi vekur hjá Elísu kemst vel til skila, ekki síður en kuldinn og myrkrið í Íshafinu þegar Elísa heldur til móts við andstæðinga marfólksins fyrir lokauppgjör sögunnar. Lýsingarnar á umhverfinu og dýralífinu í þeim köflum eru svo lifandi að náttúrulífsþættir David Attenborough koma fljótlega upp í hugann.

Á landi er Elísa frekar venjuleg unglingsstelpa sem vill sofa frameftir og rífst við bróður sinn þegar hann reynir að vekja hana í skólann. Hún er hins vegar ekki mjög sjálfsörugg og þorir annars ekki að svara fyrir sig eða láta mikið á sér bera. Í hafinu þarf hún að losa sig undan þeim hömlum sem hafa haldið aftur af henni til þessa og henni finnst það hreint ekki einfalt. Hún umbreytist ekki í hetju á einni nóttu, heldur þarf að hafa fyrir því að læra á þetta nýja líf sem henni er kastað inn í, sem gerir persónu hennar bæði sannfærandi og einlæga. Hún er ennþá sama óörugga stelpan til að byrja með en öðlast smám saman það sjálfsöryggi sem þarf til að geta staðið undir þeim væntingum sem eru gerðar til hennar. Hún hefur vissulega hjálp frá Everó og öðru marfólki, en þegar upp er staðið er það hennar eigin sannfæring sem gefur henni styrkinn sem hún þarf.

Everó er hennar helsti bandamaður og vinur í þessum óvenjulegu aðstæðum en Elísu verður fljótt ljóst að hann heldur ýmsu leyndu fyrir henni. Hann veit meira um örlög hennar og hlutverk en margir en fæst ekki til að gefa neitt upp. Þrátt fyrir að hafa lifað í hafinu um langa hríð og upplifað ýmislegt þar er hann ennþá unglingsstrákur undir niðri og það kemur af og til fram í fasi hans. Samband þeirra Elísu og Everó byggir fyrst og fremst á vináttu og trausti sem verður til milli þeirra þegar hann finnur hana í hafinu í upphafi en ljóst er að þau gætu bæði hugsað sér að þróa sambandið áfram, ef aðstæður væru hliðhollari þeim. Everó er þannig mennskari en margir aðrir sem Elísa kynnist í hafinu, þar sem flestir eru herskáir og oft stutt í átök. Mennskan tengir þau saman og samband þeirra verður fyrir vikið rökrétt þróun.

Á meðan Elísa dvelur neðansjávar leitar fjölskyldan að henni á landi og helst þannig tenging sögunnar við samfélagið í Bergvík. Bróðir hennar og besta vinkona, foreldrarnir og kennarar taka allir þátt í leitinni og björgunarsveitir kemba fjöll og fjörur. Hangikjötssamlokur björgunarsveitarmanna mynda algera andstæðu við töfraheiminn sem Elisa er stödd í og verða til þess að gera hann enn meira framandi. Kaflarnir í Bergvík eru stuttir en minna á að Elísa á líf á yfirborðinu þar sem hennar er sárt saknað.

Dóttir hafsins er vel unnin og útpæld fantasía, sem gerist í heillandi, óvenjulegu umhverfi. Barátta Elísu og marfólksins við hina illu náttdreka er spennandi og frumleg, meðal annars vegna umhverfisins og þeirra sérstöku aðstæðna sem ríkja í hafinu. Innri barátta Elísu, sem á erfitt með að trúa því sjálf að hún geti raunverulega barist við skrímsli, er afar trúverðug og sömuleiðis sú breyting sem verður á hugarfari hennar þegar á líður. Eins og fram kom í upphafi er Dóttir hafsins fyrsta bókin í þríleik og í gegnum söguna er gefið í skyn að marfólkið í Jenerí og velferð þeirra sé hluti af stærra samhengi. Ekki er þó alveg ljóst í lokin hvert framhaldið verður, hvort næsta bók muni líka gerast í heimi marfólksins eða hvort framtíðin beri eitthvað allt annað í skauti sér, en það verður sannarlega spennandi að fylgjast með því hvert sagan fer næst og hvort samband þeirra Elísu og Everó fái að þróast áfram.


María Bjarkadóttir, nóvember 2020