Beint í efni

Dóttir mæðra minna

Dóttir mæðra minna
Höfundur
Sindri Freysson
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Um engar styrjaldir hefur jafnmikið verið skrifað og fyrri og síðari heimsstyrjöldina. Allt milli himins og jarðar er þar að finna; allar bókmenntategundir hafa verið lagðar undir frá ljóðum til myndasagna, sjálfsævisagna til skáldsagna, frá hreinræktuðu pölpi til tilraunakenndra fagurbókmennta. Höfundar skrifuðu á meðan stríðin geisuðu, strax í kjölfarið og svo áfram og áfram og nú eru það sögulegu skáldsögurnar sem ráða ríkjum ásamt frásögnum afkomenda þeirra sem komust af. Uppúr þessu hafa einnig orðið til mikil fræði um tjáningu stríðs, átaka og hörmunga í bókmenntum, svokölluð trámafræði. Nóg var af stríðum og hörmungum á öldinni og mætti kalla þetta arfleifð 20. aldarinnar til bókmennta, sem snýr að efniviðnum, á meðan tilraunamennska og uppbrot á hefð sem einkennir módernisma og póstmódernisma mætti kalla hina ‚formrænu‘ arfleifð. Íslenskir höfundar hafa fjallað um stríðin á ýmsa vegu, dátar og ‚ástandið‘ eru vel þekkt úr bókmenntasögunni, og þá ekki síst það sem fylgdi í kjölfarið, erlendu áhrifin og flutningur úr sveit í borg. Á síðustu árum mætti sérstaklega nefna áhrifamikla skáldsögu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Yfir Ebrofljótið, sem gerir spænsku borgarastyrjöldina að viðfangsefni.

Sindri Freysson sækir sér efni í stríðin í Dóttur mæðra minna eins og í síðustu skáldsögu sinni, Flóttanum, sem hlaut góðar viðtökur. Þetta er eins konar sjálfstætt framhald af þeirri bók, því þar sagði frá þýskum njósnara á Íslandi, en hér segir frá örlögum þeirra sem aðstoðuðu hann. Að þessu sinni eru það konurnar sem eru í forgrunni, konur sem eru fórnarlömb stríðanna, aðstæðna, líkama sinna, karlmanna. Kristín Eva, sem segir söguna, er sautján ára stúlka á Ísafirði. Hún er ættleidd og rekur hér sögu Rósu móður sinnar sem fer til Bretlands í fyrri heimsstyrjöldinni. Hún segir einnig frá uppruna þýskra fósturforeldra sinna, Frederiks og Hildegard, sem eru búsettir á Ísafirði en eru sendir ásamt Kristínu í fangelsi í Bretlandi í síðari heimsstyrjöld. Konurnar sem hér um ræðir eiga því í ógnarbasli, oft klárlega vegna kynferðis síns, og sagan að einhverju leyti sögð eins og til að rétta hlut þeirra. Kristín Eva ætlar ekki að láta tala fyrir sig, hún ætlar að eiga síðasta orðið, eins og hún lýsir yfir í lok bókar. Hún situr í fangelsinu í London og lýsir verunni þar, en jöfnum höndum flakkar hún til fortíðar og segir sögu þessara kvenna, mæðra sinna, og skoðar hlutskipti þeirra. Eins og áður segir eru þær fórnarlömb stríðs og kynferðis og virðast að einhverju leyti skiptast í tvo flokka: þær sem eiga sér ekki viðreisnar von og lúta valdinu og hinar sem reyna á einhvern hátt að berjast. Þetta er fínt markmið og sannfærandi á köflum, vandinn er hins vegar sá að ýmsar persónurnar eru ávallt hálf óljósar og erfitt að fá skýra mynd af, en aðrar eru æði klisjukenndar. Þar má t.d. nefna Veru, vinkonu Kristínar í fangelsinu – sem er hin villta, óhefta og taumlausa, sem stofnunin reynir að temja og gerir síðan gerir út af við og er ákaflega kunnugleg úr kvikmyndum og bókum (nægir þar að nefna persónu Angelinu Jolie í kvikmyndinni Girl Interrupted).

Eitt af því sem formgerðartilraunahöfundar ráku sig á og umbyltu á ýmsa vegu, frá Flaubert á miðri nítjándu öld og Gide, Woolf og Joyce á þeirri tuttugustu, til Ohrans Pamuk á þeirri tuttugustu og fyrstu, var sjónarhornið. Þetta er að einhverju leyti eilíf barátta við hvernig í ósköpunum er hægt að koma efninu til skila svo vel sé, í gegnum eina vitund, sem verður þá að vita allt og hvar á þessi vitund heima í sögunni, í einni persónu? í mörgum? fyrir ofan allt? Og á frásögnin að hljóma eins og skipulögð dagbók? eða innri hugrenningar? Hér er frásögnin hjá einni aðalpersónanna, Kristínu, og skapar þetta nokkur vandamál. Í textanum má augljóslega sjá meðvitund um þennan vanda, sögumaður stígur fram og segist hafa notað ímyndunaraflið til fylla í eyðurnar, því augljóslega geti hún ekki vitað allt t.d. um það sem móðir hennar upplifði. Þá hefjast margar lýsingar á ‚ég ímynda mér‘, ‚ég sé fyrir mér‘ eða einhverju í þeim dúr. Hér er því að nokkru leyti unnið með þennan vanda en einhvern veginn dugar það ekki til – frásögnin verður ankannaleg á tímum, skrifin sjálf eru aldrei sviðsett sem slík, sem hefði mögulega verið til bóta. Þekkingu hennar á ólíklegustu hlutum þarf jafnan að réttlæta á einhvern hátt – hún segist hafa séð eitt og annað í kvikmyndum og fleira í þeim dúr. Málfar og stíll flakkar líka töluvert úr einni gerð í aðra, svo rödd 17 ára stúlku verður ekki mjög greinileg.

Saga Kristínar Evu og mæðra hennar beinist að kynferði þeirra eins og fyrr segir og er unnið með það á ýmsan hátt. Til dæmis er kynhvöt þeirra og kynlífi gert hátt undir höfði, og er það allt að því yfirlýst markmið, því sögumaður kvartar yfir því á einum stað að í bókmenntum þeirra tíma hafi verið látið sem konur hefðu enga kynhvöt að marki og allt henni tengt hálfgert tabú. En fátt er erfiðara að skrifa um svo vel sé en einmitt kynlíf. Það er engin tilviljun að í Bretlandi eru árlega veitt ‚bad-sex-award‘ fyrir hjákátlegar kynlífslýsingar í bókmenntum og hafa margir skáldjöfrar þurft að sætta sig að vera a.m.k. tilnefndir þar. Klisjupyttirnir leynast þar við hvert fótmál, gjarnan á þá vegu að lýsingarnar eru annað hvort svo ógurlega skáldlegar að hið líkamlega breytist í upphafna myndlíkingu, eða svo nátengdar vel þekktum kynórum að það verður hálf vandræðalegt. Hér tekst þetta á stundum ágætlega, sérstaklega í lýsingum á kynlífi Rósu og breska elskhugans James, en kynlífslýsingarnar úr kvennafangelsinu liggja óþægilega nálægt kynóraklisjunum svo minnir á stundum á vinsælu kitsj-þættina Bad Girls. Líkami kvenna er líka til vandræða fyrir tíma almennra og öruggra getnaðarvarna sem hér endurspeglast m.a. í lífi Rósu sem neyðist til að gefa frá sér börnin sín þegar hún getur ekki séð fyrir þeim.

Eins og tilheyrir í sögulegum skáldsögum hefur höfundar safnað sér töluverðum upplýsingum um efnið, það er hins vegar spurning hvort það eigi allt erindi til lesandans. Tengingin við frásögnina verður þá óljós og sumir kaflar því ofhlaðnir nokkuð. Það segir lesanda kannski ekki svo margt um veru kvennanna í Holloway-fangelsinu að segja alla sögu þess. Nákvæmar lýsingar á slíkum þáttum eru stundum á skjön við frásögnina, þótt vissulega gagnist rannsóknarvinnan oft við að gefa skýrari mynd af atburðum svo úr verður nokkuð þéttriðið net sögulegs samhengis.

Ein tegund stríðsbókmennta leitast við að gefa mynd af ‚venjulegu‘ fólki í miðju atburða sem það hefur enga stjórn á. Hér eru það konurnar, eins og áður segir, sem eru söguefnið. Þær eru fangar í eiginlegri merkingu, en einnig fangar aðstæðna og líkama sinna að nokkru marki. Umfjöllunarefnið er því allrar virðingar vert, en nokkuð bundið við hefðbundna umræðu um þessi mál (barneignir, fóstureyðingar o.s.frv.) og konurnar eru hér helst til óræðar og á stundum klisjukenndar, til að úr verði skapandi umræða um örlög fólks í stríðum.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2009.