Beint í efni

Draumsverð

Draumsverð
Höfundar
Kjartan Yngvi Björnsson,
 Snæbjörn Brynjarsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Draumsverð eftir Kjartan Yngva Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson er önnur bókin í þríleiknum Þriggja heima sögu. Bókin er beint framhald af Hrafnsauga sem kom út í fyrra og hlaut íslensku barnabókaverðlaunin 2012. Sagan hefst í Hrafnsauga þar sem er sagt frá Ragnari, 16 ára foreldralausum strák sem býr í þorpinu Vébakka í Janalandi. Dag einn ráðast hræðilegar ófreskjur á Vébakka og Ragnar flýr ásamt tveimur öðrum unglingum, þeim Sirju og Breka. Í ljós kemur að ófreskjurnar voru að leita að Ragnari því hann geymir eitt af sjö innsiglum sem voru notuð fyrir þúsund árum til að loka illar skuggaverur inni fjarri mönnum. Þá ríkti styrjöld í heiminum og illu öflin virtust ósigrandi þangað til sjö vitringar tóku sig saman og réðu niðurlögum skugganna. Nú virðast skuggarnir hins vegar vera komnir á kreik að nýju, sem þýðir að eitthvert innsiglanna hefur rofnað. Ef skuggarnir komast úr prísund sinni er voðinn vís og hið illa mun taka völdin. Ragnar, Sirja og Breki þurfa að finna alla þá sem bera innsiglin til að tryggja að þau séu örugg og komast jafnframt að því hvaða innsigli eru rofin.

Draumsverð hefst þar sem frá var horfið í síðustu bók. Unglingarnir þrír og leiðsögumaðurinn þeirra og verndari Nanúk halda inn í myrka og hættulega mýri til að finna nornina Heiðvígu sem geymir eitt innsiglanna. Þau eru hundelt af manngálknum, sömu verum og réðust á Vébakka og hafa verið á hælunum á þeim síðan. Úr mýrinni halda þau áfram suður til að finna næsta innsigli og á leiðinni kynnast þau ýmsu sem þau hafa aldrei séð áður í afskekktum heimabæ sínum. Þau sjá misskiptingu, fátækt, þrælahald og náttúruspjöll sem manneskjur hafa unnið á umhverfi sínu. Heimurinn virðist uppfullur af græðgi og sjálfselsku. Þegar komið er suður þurfa þau svo ekki eingöngu að vara sig á skrímslum sem skuggarnir senda á eftir þeim heldur einnig nornaveiðimönnum í Tunglvarðliði keisarans. Nornir og galdrar eru bönnuð í keisaradæminu í suðri og þar sem bæði Ragnar og Sirja hafa galdrakunnáttu eru þau í mikilli hættu. Íbúum keisaraveldisins er haldið í greipum ótta við tunglvarðliðana sem eru bæði ógnvekjandi og vægðarlausir. Frásögnin af ferðalagi unglinganna er brotin upp með hliðarsögu þar sem er sagt frá dularfullu dauðsfalli yfirskjalavarðarins í Velajaborg. Tunglvarðliði tekur að sér að rannsaka dauða hans og kemst á snoðir um mögulegt samsæri sem virðist teygja anga sína á ólíklegustu staði.

Sagan er lýsing á ferðalagi unglinganna um ókunnar slóðir en hún er líka þroskasaga þeirra þriggja. Ábyrgðin sem fylgir verkefni þeirra hefur mikil áhrif á þau auk þess sem þau þurfa að læra á nýjar aðstæður og kynnast alls kyns fólki. Sjónarhornið í sögunni skiptist milli aðalpersónanna þriggja: Ragnars, Sirju og Breka. Þau upplifa heiminn, ferðina og atburðina öll á sinn hátt og persónur þeirra eru mjög ólíkar. Þessi sjónarhorn gera söguna fjölbreytilegri og dýpri en einnig verður ljóst að hlutverk þeirra í þessari för eru mjög ólík. Þótt sjónarhornið færist á milli þeirra þrigga er aðaláherslan í Draumsverði samt sem áður á Sirju og þroskasögu hennar, á sama hátt og aðaláherslan í Hrafnsauga var á Ragnar.

Draumsverð er epísk fantasía og gerist í algerlega tilbúnum heimi í ætt við þá sem þekkist úr Hringadróttinssögu og fleiri sígildum fantasíum. Söguþráðurinn er einnig sígildur: fátækur drengur kemst að því að hann er hinn útvaldi, hlutverk hans er að sigrast á illum öflum og hann leggur upp í för til að leita að vitringum sem geta aðstoðað hann. Hann veit að framundan er barátta upp á líf og dauða. Galdrar, skrímsli og drekar koma fyrir í heimi sögunnar, mismunandi þjóðir og hálfmennskar verur bæði góðar og illar. Á kápu bókarinnar er kort af heiminum þar sem lesandinn getur rakið för söguhetjanna.

Heimurinn þar sem sagan gerist er heilsteyptur og hugsað fyrir öllu, ekki eingöngu landakorti heldur menningu og sögu mismunandi þjóða, trúarbrögðum, þjóðsögum og meira að segja tungumáli í tilvikum þar sem hópurinn er á framandi slóðum. Mikið er lagt í ýmis smáatriði til að gera bakgrunn sögunnar sem trúverðugastan og þar tekst mjög vel til en sagan hefði mátt vera styttri því áherslan á lýsingar verða frekar langdregnar á köflum á kostnað framvindunnar. Persónurnar eru áhugaverðar og spennandi og má gera ráð fyrir því að lesandinn fái í næstu bók að fræðast um hlutverk Breka sem minnst hefur farið fyrir fram að þessu. Ádeilan sem fólgin er í því sem ber fyrir augu persónanna er nokkuð skýr, versti óvinur mannsins er hann sjálfur og baráttan við hið illa tekur engan endi því hið illa býr innra með öllum.

María Bjarkadóttir, desember 2013