Beint í efni

Ég elska máva

Ég elska máva
Höfundur
Þorgrímur Þráinsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þorgrímur Þráinsson hefur sent frá sér fjölda barnabóka og tvisvar hlotið íslensku barnabókaverðlaunin, árið 1997 fyrir Margt býr í myrkrinu og árið 2010 fyrir Ertu guð afi. Hann hefur að mestu einbeitt sér að barna- og unglingabókum og hefur farið víða í vali á umfjöllunarefni. Ég elska máva er líkt og Ertu guð afi á andlegu nótunum og er hér blandað saman daglegu lífi tveggja barna og djúpri lífsspeki, sem er á köflum afskaplega falleg og full innsæis.

Aðalpersóna sögunnar er Anton sem er 12 ára og gengur í Melaskóla í Reykjavík. Hann er ekki mjög vinamargur en á eina bestu vinkonu í bekknum sem heitir Pandóra og þau vinirnir verja flestum stundum saman. Eldsnemma einn morguninn flýgur bréfdúfa inn um svefnherbergisgluggann hjá honum og er með skilaboð bundin um fótinn. Fuglinn forðar sér aftur út áður en Anton nær að nálgast hann en Anton er sannfærður um að skilaboðin hafi verið til hans og að þau séu mikilvæg. Þegar hann bíður þess að fuglinn komi aftur með bréfið birtist í staðinn dularfull ljósvera sem tekur Anton tali og þrátt fyrir að hann hafi miklar efasemdir í fyrstu ákveður hann að hlusta á það sem veran hefur að segja. Veran veitir Antoni innsýn í ýmis mikilvæg mál og í kjölfarið hefur hann um margt að hugsa.

Þegar Pandóra mætir ekki í skólann skömmu seinna áttar Anton sig á að eitthvað hljóti að hafa komið fyrir hana. Þar sem Pandóra á engan annan að ákveður hann að hafa uppi á henni og hjálpa henni ef eitthvað skyldi hafa komið fyrir, en til þess að geta gert það verður hann að yfirvinna óöryggi sitt og læra að treysta á sjálfan sig. Anton fær óvænta aðstoð við ætlunarverk sitt þar sem bréfdúfan kemur aftur við sögu og hann kemst líka að því að vinir geta leynst víðar en maður á von á.

Margir þræðir eru fléttaðir saman í sögunni og tengjast allir beint eða óbeint Antoni og Pandóru. Daglegt líf þeirra tveggja er samt sem áður í fyrirrúmi og er býsna ólíkt. Anton býr með mömmu sinni, stjúpa og hálfsystur en pabbi hans lést fimm árum áður en sagan hefst. Anton saknar pabba síns mikið og finnst hann ekki fá að syrgja í friði fyrir stjúpanum sem honum finnst koma illa fram við sig. Pandóra er hins vegar hálfgerð Lína Langsokkur. Hún býr sama sem ein í blokkaríbúð í Vesturbænum þar sem mamma hennar vinnur erlendis og pabbi hennar er sjómaður. Hún á reyndar afa sem hún getur leitað til en gerir það ekkert allt of mikið. Antoni finnst fjölskyldan sín yfirþyrmandi og er í stöðugri uppreisn gegn henni á meðan Pandóra er nánast yfirgefin; án foreldra hefur hún litla peninga til að kaupa mat og þó að hún láti líta út fyrir að hún lifi frjálsu og spennandi lífi er hún oft einmana. Það eru svo ekki bara aðstæður barnanna sem eru ólíkar heldur einnig persónuleikar þeirra. Allt virðist leika í höndunum á Pandóru en Anton er aftur á móti óöruggur og kvíðinn, hann er með Tourette sem gerir að verkum að hann á erfitt með að sitja kyrr í skólanum og erfitt með nám og lestur. Pandóra reynir að stappa í honum stálinu, við misjafnan árangur, en hún hefur tekið að sér að vera verndari hans bæði innan veggja skólans og utan.

Ég elska máva er nokkuð flókin og margþætt. Inn í daglegt líf barnanna í skólanum og heimafyrir er til að mynda fléttað frásögnum úr bókum sem Pandóra les og sem hafa mikil áhrif á þau bæði. Sagan er svo á köflum mjög dularfull, ljósveran sem birtist Antoni fer með hann á staði sem eru handan þessa heims og svo virðist sem skólahúsvörðurinn Hallfreður, sem er nýlega látinn í sögunni, hafi skilið eftir skilaboð til að hjálpa þeim. Ljósveran, Hallfreður og fleiri færa börnunum ýmsa speki um lífið og tilveruna. Anton tekur fróðleikinn sérstaklega sín og hann vekur hann til umhugsunar um margt sem mætti betur fara og hvernig hann geti stuðlað að bótum. Tónninn í sögunni er í fyrstu nokkuð leitandi og sögumaðurinn talar í upphafi nokkrum sinnum um Anton og Pandóru sem drenginn og telpuna, sem virðist svolítið úr takti við stílinn í heild. Eftir því sem líður á er frekar vísað til þeirra með nafni en við það verður tóninn afslappaðri og sögumaðurinn kemst nær persónunum.

Sagan er grípandi og lesandinn fær mikla samúð með Antoni og Pandóru. Anton þroskast mikið og lærir að standa á eigin fótum þegar Pandóra er fjarverandi en hann lærir líka hversu mikilvægt er að hafa trú á sjálfum sér. Ekki er leyst úr öllum þráðunum í lok sögunnar og er það viljandi gert. Ekki svo að skilja að lesandinn sé skilinn eftir í lausu lofti heldur er nokkrum spurningum haldið opnum svo hann geti velt fyrir sér framhaldinu sjálfur. Í boðskapnum sem börnunum í sögunni er kynntur er meðal annars deilt á neysluhyggju, sýndarmennsku og hraðann og stressið í samfélaginu. Lesandinn er vakinn til umhugsunar um það hvað er mikilvægast í lífinu og hvað vinátta, umhyggja og virðing hafi góð áhrif á sálina og er það boðskapur sem er vel þess virði að taka til sín.

María Bjarkadóttir, desember 2015