Beint í efni

„Ég er meira að segja til í að lesa ljóð eftir lifandi skáld“

„Ég er meira að segja til í að lesa ljóð eftir lifandi skáld“
Höfundur
Guðni Elísson
Útgefandi
Lesstofan
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Anna Hermannsdóttir

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði, hefur gefið frá sér sína aðra skáldsögu Brimhóla. Í verkinu skín ástríða bókmenntafræðingsins fyrir fagi sínu í gegn á hverri síðu. Sagan inniheldur einstaklega áhugaverðar hugleiðingar um skáldskapinn, ástina, lífið og dauðann sem helst endurspeglast í samskiptum aðalpersónunnar, Hjartar, við Cecyliu - pólska stúlku sem hann verður hugfanginn af. Bakgrunnur þeirra og samfélagsstaða er ólík en það sem tengir þau saman er ástríðan fyrir skáldskap. Þau eiga bæði í nokkrum erfiðleikum með að tjá tilfinningar sínar og gera það helst í gegnum ljóðlínur sem þau deila með hvort öðru og greina síðan fram og til baka.

Hjörtur dvelur um tíma með fjölskyldu sinni í London þar sem hann gengur í skóla og lærir meðal annars um rómantísku skáldin. Þar sem undirrituð er, líkt og Hjörtur, mikill aðdáandi enska skáldsins John Keats var einkar ánægjulegt að lesa um það þegar Hjörtur fer á slóðir skáldsins bæði í London, þar sem ljóðið um næturgalann var ort; og í Róm þar sem skáldið dró sinn síðasta andardrátt. Síðast en ekki síst heimsækir hann svo kirkjugarðinn þar sem Keats, Shelley og fleiri af rómantísku skáldunum liggja. Dauðinn svífur nefnilega yfir vötnum í sögunni. Til að mynda er kirkjugarður helsta afdrep Hjartar og vina hans í London þar sem þeir ræða skáldskapinn, lífið, dauðann og angistina - og er kvikmyndin Bræðralag látnu ljóðskáldanna þeim þar innblástur. „Í skólanum fékk Hjörtur í hendurnar öll þau tæki sem hann þurfti til að skilja og meta bókmenntir. En ástin á skáldskapnum kviknaði í garðinum.“ Hjörtur lærir vissulega bókmenntir í skólanum, en ástríðan kviknar meðal jafnaldranna í gróðri vöxnum kirkjugarðinum. Hann lærir að meta og upplifa náttúruna í gegnum rómantísku skáldin og í kirkjugarðinum mætist allt í senn: Skáldskapurinn, náttúran, lífið og dauðinn.

Þegar fjölskyldan flytur aftur til Íslands setjast þau að í útjaðri sjávarþorps, í hinu nýbyggða og nýstárlega húsi Brimhólum. Í gegnum bókmenntirnar hefur Hjörtur lært að upplifa náttúruna og dvelur hann löngum stundum í sandhólunum við sjávarsíðuna, les ljóð og hlustar á fuglasönginn. Og það er í háu grasinu niðri við hafið sem hann kynnist Cecyliu, vinkonu systur sinnar. Cecylia opnar augu Hjartar fyrir annars konar skáldskap en hann og félagar hans í virðulega einkarekna skólanum í London hafa lesið fram og aftur. Cecylia gefur lítið fyrir hin eldgömlu ljóð eftir dauðu höfundana sem Hjörtur les. En hún er þó tilbúin að lesa skáldin sem eru Hirti hugleikin og Hjörtur vill sömuleiðis lesa uppáhalds skáldin hennar. „Ég er meira að segja til í að lesa ljóð eftir lifandi skáld“ (41), tilkynnir hann henni, og hann stendur svo sannarlega við orð sín. Cecylia er gagnrýnin á forréttindi íslensks samfélags og þar sem hún telur allar alvöru bókmenntir „spretta úr djúpum harmi“ finnst henni ekkert varið í íslenska ljóðlist. Í raun endurspeglast ólíkt hlutskipti þeirra tveggja í orðum Cecyliu þar sem þau sitja úti við hafið: „Íslendingar yrkja um kaffihúsaferðirnar sínar en pólsku skáldin undrast af hverju himinninn yfir Auschwitz og Treblinka sé ennþá blár og hvers vegna fuglarnir syngi enn í trjánum við Bełzec, Chełmno og Sobibór“ (39).

Hjörtur lifir vernduðu hástéttarlífi. Hann er af efnuðu fólki kominn, þarf ekki að hafa áhyggjur af peningum né nokkru öðru að því er virðist, og getur eytt flestum sínum stundum í ljóðalestur og dagdrauma. Á meðan gengur Cecylia þegjandi og hljóðalaust í gegnum sínar eigin raunir. Líf hennar og fjölskyldu hennar er algjörlega undir föður Hjartar komið - líkt og hinn ungi Hjörtur bendir Cecyliu og bræðrum hennar á í byrjun bókar: „Pabbi á allt í þorpinu. … Hann á togarann og hann á frystihúsið. … Hann á fiskinn í sjónum og húsið sem þið búið í“ (9). Valdaójafnvægið á milli þeirra er því marglaga; það er persónulegt og kerfisbundið, nokkuð sem hinn saklausi unglingshugur Hjartar annað hvort áttar sig ekki á eða vill ekki sjá.

Hjörtur þekkir Cecyliu vissulega á sinn hátt, hann nær að sjá undir yfirborð „innflytjandans“ - upplifa anga af pólskri menningu sem fáir Íslendingar leitast eftir að kynnast eða gera sér einu sinni í hugarlund að sé til. En hann fellur þó sjálfur í þá gryfju að varpa sinni eigin ímyndun yfir á Cecyliu. Hún verður tvívítt viðfang þráhyggju hans þar sem hann fylgist með henni úr fjarlægð. Hann verður ástfanginn af þessari fjarlægu mynd, en ekki endilega af stúlkunni sjálfri. Örlög Cecyliu eru að vera stöðugt skilgreind af öðrum. Hún flýr ekki hið karllæga augnaráð, né merkinguna sem aðrir varpa yfir á hana. Hún gefur ekki mikið uppi um sjálfa sig eða lætur mikið af tilfinningum sínum í ljós. Það er til að mynda afskaplega fátt sem gefur til kynna áhuga hennar á Hirti, þvert á móti hundsar hún hann, kemur ekki að hitta hann þegar þau hafa mælt sér mót, samþykkir ekki vinabeiðni hans á Facebook. Þrátt fyrir þetta heldur Hjörtur áfram í ástarsögu sem lifir helst í huga hans og túlkar hann alla höfnunina á sinn eigin hátt án þess að kafa mikið dýpra í líðan eða raunveruleika Cecyliu. Hann tekur eftir vanlíðan hennar en í stað þess að grafast fyrir um það hvers vegna hún þjáist ímyndar hann sér að undir öðrum kringumstæðum hefði hún ekki hafnað honum: „Hann yrði að ræða við hana því að svör hennar gáfu sterklega til kynna að undir einhverjum öðrum kringumstæðum hefði hún ekki verið honum fráhverf“ (104).

Undir lokin áttar Hjörtur sig á því hversu blindur hann hefur verið fyrir því sem gekk á í hennar lífi og því sem hún var í rauninni að ganga í gegnum. Hann hefur verið of fastur í sínum ímyndaða heimi, sinni ímynduðu útgáfu af Cecyliu, til að sjá hennar raunveruleika og taka eftir angist hennar. Þannig má líkja Cecyliu við næturgalann í ljóði Keats sem tengir saman draum og vöku, ímyndun og veruleika. Þegar fuglinn flýgur burt hverfur hinn ímyndaði heimur og raunveruleikinn stendur eftir.

Í rauninni má segja að það sem tengi allt saman í sögunni sé samband Hjartar við náttúruna; við hafið, ströndina, vindinn og fuglana sem yfir öllu sveima. Lýsingin á því þegar haförn sveimar yfir þar sem Hjörtur liggur í grasinu fær mann til að halda niðri í sér andanum - þegar allt þagnar og Hjörtur verður í andartak eitt með náttúrunni. Og það er einmitt þar sem innihaldsríkustu fundir hans við Cecyliu eiga sér stað. Tengsl hans við náttúruna eru í gegnum skáldskapinn, líkt og vinskapur hans við Cecyliu, því hann sér heiminn í gegnum linsu ljóðlistarinnar. Hann les í náttúruna út frá ljóðum Wordsworth og Keats og reynir að lesa í gjörðir Cecyliu með ljóðum pólsku skáldanna sem hún kynnir fyrir honum. 

Cecylia opnar í gegnum skáldskapinn augu hans fyrir öðru sjónarhorni á heiminn. Hún vekur hann upp af takmarkaðri heimssýn sem er lituð af bakgrunni hans og forréttindum. Enda líkir Hjörtur Cecyliu undir lokin við bláþyril Czesław Miłosz. „Í huga Miłosz er bláþyrillinn örsmá viðbót sem breytt getur heildarmynd skynjunarinnar og svoleiðis ert þú í mínum huga“ (126). Þannig áttar Hjörtur sig á því hvernig Cecylia hefur hjálpað honum að skynja heiminn á annan og dýpri hátt, ekki aðeins út frá sínum eigin forréttindum og takmörkuðu lífsreynslu. Brimhólar eru þannig saga af dreng sem áttar sig á blindunni sem fylgir forréttindunum. „Af hverju hlustaði ég ekki á þögnina sem reis upp af þér? Af hverju heyrði ég ekki þögnina sem ríkti á milli foreldra minna? Hvað þér hlýtur að hafa liðið illa á meðan þú þagðir“ (132).

Yfir sögunni ríkir að miklu leyti ákveðið stað- og tímaleysi. Náttúran, formlegur talandi unglinganna og hin aldagömlu ljóð gera það að verkum. Hinsvegar talar þroskasaga Hjartar vel inn í okkar samtíma þar sem ungt fólk er að horfast í augu við forréttindi sín, átta sig á ýmis konar valdaójafnvægi og hlutverki sínu í því að bæta heiminn fyrir komandi kynslóðir. Brimhólar er áferðarfögur skáldsaga og tengslin við Pólland og pólska menningu eru kærkomin og löngu tímabær í íslenskum bókmenntum.
 

Kristín Anna Hermannsdóttir, desember 2022