Beint í efni

Eldsbirta og Mamma þarf að sofa

Eldsbirta og Mamma þarf að sofa
Höfundur
Kristrún Guðmundsdóttir
Útgefandi
Espólín forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Eldsbirta og Mamma þarf að sofa
Höfundur
Díana Sjöfn Jóhannsdóttir
Útgefandi
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Eldsbirta og Mamma þarf að sofa eru ljóðabækur tveggja kvenskálda sem komu út nú á vormánuðum. Sú fyrri er eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur sem sent hefur frá sér fjölda ljóðabóka síðan sú fyrsta, hugfró, kom árið 1996. Sú seinni er eftir yngri höfund, Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur, sem áður hefur gefið út skáldsöguna Ólyfjan auk ljóðabókarinnar FREYJU sem kom út árið 2018. Kristrún hefur sinnt bókmenntakennslu á Suðurnesjum í fleiri ár og Eldsbirta ber þess merki en við sögu komu ýmsar kvenhetjur bókmenntahefðarinnar - skáld, rithöfundar og sögupersónur. Ljóðabók Díönu er aftur á móti óður til móðurhlutverksins og nálgunin er persónuleg; ljóðmælandi skrifar um sína eigin móður, minningar um hana frá æsku en einnig um þann átakanlega tíma þegar móðirin deyr, og svo loks þegar hún sjálf verður móðir, eignast litla dóttur og hugsar sterkt til móðurinnar sem er horfin á þeim tíma.

 

Feminískur lestur og greining frá kynjuðu sjónarhorni – er það ekki eitthvað gamaldags? Eru það ekki önnur og meira aðkallandi viðfangsefni sem við þurfum að takast á við í dag? Í ljósi nýlegrar lagasetningar og banni við fóstureyðingum í stórum hluta Bandaríkjanna má velta fyrir sér hvort að þessi málefni séu ekki ef til vill einna mest aðkallandi í dag. Kvenréttindi eru mannréttindi því þau eiga jú við helming jarðarbúa og auðvitað hinn helminginn líka ef betur er að gáð. Og þó að sprenging hafi orðið í femínískri bókmenntagreiningu fyrir mörgum árum, nánar tiltekið á áttunda áratug síðustu aldar, er það enn svo að karlhöfundum er hampað fram yfir kvenhöfunda og leitað til verka þeirra þegar bókmenntir eru notaðar til samfélagsgreiningar. Jaðarstaða er hinsvegar þekkingarstaða sem endurspeglast í sjónarhorni þess sem stendur á jaðrinum og horfir inn á miðjuna. Þeir sem standa í miðjunni mættu því gjarnan hlusta á þá sem standa á jaðrinum og leyfa þeim að miðla af reynslu sinni og þekkingu.

 

Hvernig birtist þetta kynjaða sjónarhorn í Eldsbirtu eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur og Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur? Hvað getur það sagt okkur eða upplýst um samfélagið?

 

Eldsbirta eftir Kristrúnu Guðmundsdóttir, Espólín forlag

„Síðasti tónninn úr hálsi jarðarinnar syngur í öllum tóntegundum“ (15)

Ljóðmælandi í verki Kristrúnar er kona sem komin er yfir miðjan aldur og greinist með ólæknandi sjúkdóm. Hún er dauðvona en á sama tíma tekur Reykjanesið að hristast og skjálfa og spúa eldi og eimyrju þegar eldgos við Fagradalsfjall hefst. Ljóðmælandi sér speglun eða líkindi með eigin ástandi og jarðhræringunum – lífið tekur enda til þess að hefjast að nýju, hringrás lífsins, endurnýjun og svo framvegis. Hún gengur að gosinu til að berja það augum og sækja sér kraft en hún leitar einnig til kvenhetjanna úr lífi hennar – kvenskáldanna sem á undan henni fóru og til sögupersóna sem þurftu að taka á honum stóra sínum.

 

Verkið skiptist í fimm hluta en hver hluti hefst á inngangsorðum sem leggja línurnar fyrir ljóðbálkinn sem fylgir á eftir, skapa sviðið og lýsa umhverfi ljóðmælanda en einnig hugarástandi. Inngangsorðin að öðrum hluta draga til að mynda fram líkindi á milli ytra umhverfis og hins innra: „Undir Fagradalsfjalli vex takmarkalaus hugsun eins og til að minna á hvaðan hún kom og til hvers hún snýr við“ (15). Textinn er háfleygur og dramatískur, þéttur og skorinn, setningarnar eru tálgaðar og stuttar en margt býr undir. Ljóðmælandi vísar í goðafræði, norræna en einnig gríska, og skáldkonurnar Jakobína Sigurðardóttir, Júlíana Jónsdóttir og Emily Dickinson koma við sögu. Þá skipar Antigóna úr leikriti Sófóklesar veigamikið hlutverk – hún sem fórnaði lífi sínu til að geta veitt bróður sínum sómasamlega útför og grafið hann í heilaga jörð. Á sumum stöðum er gerð grein fyrir vísununum með neðanmálsgreinum en ég velti fyrir mér hvort það hefði verið betur við hæfi að nota aftanmálsgreinar, til að leyfa textanum að standa ótrufluðum en um leið gera lesendum kleift að leita sér upplýsinga með því að fletta aftast í bókina. Smásmugulegt hugsa eflaust sumir en í ljóðagerð og lestri skiptir hvert greinamerki sköpum svo einstaka neðanmálsgrein sem tekur mikið pláss á síðunni, skapar óþægilegt inngrip og tekur frá lesandanum eitthvað af glímunni við textann.

 

Það má velta fyrir sér hvaða hlutverki vísanirnar þjóna í textanum. Af hverju velur ljóðmælandi að vísa út fyrir textann með þessum hætti og af hverju vísar hún í nákvæmlega þessar skáldkonur og sögupersónur? Með vísunum tengir ljóðmælandi verkið hefðinni og sýnir þar með að ekkert vex úr engu – ljóð spretta upp úr öðrum ljóðum (rétt eins og jörð sprettur upp úr jörð við eldgos) og skáld eiga sér fyrirmyndir í öðrum skáldum sem kynntu þau ef til vill fyrir ljóðlistinni til að byrja með. Vísanirnar eru þannig merkingaraukar og að nefna til leiks ákveðin skáld gefur til kynna ákveðna hefð eða þemu; veltir upp spurningum á borð við : hvaða viðfangsefni unnu fyrrnefndu skáldkonurnar með í sínum ljóðum og af hverju? Þá virðist ljóðagerðin veita ljóðmælanda hugarfró á erfiðum tímum, sem og sjónarhorn og perspektív til að takast á við erfiðasta viðfangsefnið þeirra allra – dauða sjálfsins. Að yrkja ljóð veitir líkn segir hún á einum stað: „Orð sem hún notar og veita vellíðan“ (23).

 

Mamma þarf að sofa eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur

 

Titillinn á ljóðabók Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur vísar í ljúfsárt ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi en þessar línur úr ljóðinu eru birtar aftast í bókinni:

Mamma þarf að sofna.

Mamma er svo þreytt.

-og sumir eiga sorgir,

sem svefninn getur eytt.

Í ljóði Davíðs er ljóðmælandi eldra systkini sem talar til yngri systur. Biður hana að hafa ekki hátt svo að mamma geti sofnað og gleymt sorgum sínum. Á öðrum stað í verki Díönu Sjafnar vísar ljóðmælandi í þekktan dægurlagatexta eftir Freymóð Jóhannsson, línuna „Ertu vakandi mamma mín.“ Þessar vísanir leiða hugann að mynd móðurinnar í ljóðagerð og þá staðreynd að svefn og móðir eru oft nefnd í sömu andrá. Hvers vegna? Svefninn og móðirin vekja tilfinningar berskjöldunar – sem eru allt að því sammannlegar því allir eiga móður og allir þurfa að sofa – og hvort tveggja eru mikilvæg skjól í lífi sérhvers manns. Þannig birtist ímynd móðurinnar í skáldskap sem hlý og umvefjandi, - en hvernig fjallar móðirin um sjálfa sig í skáldskap? Eru til mörg ljóð og textar sem fjalla um það að verða móðir og þá ástríku en djúpstæðu togstreitu sem því fylgir?

 

Verk Díönu Sjafnar skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti ber titilinn „Móðureign“ og lýsir æskuminningum ljóðmælanda um móður sína – þegar móðirin veitir hlýju og öryggi, oft um nætur þegar litla stúlkan getur ekki sofið:

haf af hári á kodda

hönd þín strýkur yfir kollinn

 

hér eru mínar hvíldarlendur.

(15)

Annar hluti verksins ber titilinn „Móðurlát“ og lýsir því þegar móðirin greinist með illvígan sjúkdóm og deyr skömmu síðar. Þar birtist meðal annars þessi fallegi útúrsnúningur á ljóðlínum Davíðs sem nefndar voru hér fyrir ofan:

mamma ætlar að sofna

góða nótt

góða nótt

 

sumum sorgum

getur svefninn ekki eytt

(39)

Þriðji hlutinn „Móðurgerð“ lýsir því þegar ljóðmælandi er ekki aðeins móðurlaus dóttir heldur eignast sjálf dóttur og verður móðir. Hér vakna nýjar tilfinningar og ný hólf í heilanum opnast eða myndast.  Mér þykja þessar línur lýsa ástandi hinnar nýbökuðu móður nokkuð vel:

konan er handalaus

konan sem er móðir

er handalaus

hún er sífellt að bera

bera barn

bera poka

bera á borð

bera allt uppi

 

konan er fött

konan sem er móðir

er fött

sveigð í stöðugri togstreitu

fött í baki

en fattar allt

fattar að barnið muni

vakna

tveimur mínútum fyrir

grátinn

(82)

Móðirin er fött því henni er alltaf illt í bakinu, hefur stanslausan bakverk af því að bera barn sem þyngist með hverri vikunni og mánuðinum, sífellt að lyfta því upp, leggja það niður og magavöðvarnir eru slappir eftir meðgöngu og allar þær líkamlegu breytingar sem átt hafa sér stað síðasta árið. Móðirin er kona sem fattar því innsæið styrkist svo mikið við það að verða móðir. Eða kannski er það meðvitundin um innsæið sem styrkist – magatilfinningin / mavefornemmelsen – þegar tengslin milli hugar og líkama eflast  við meðgöngu og fæðingu. Ef til vill er það þessi ofurfókus sem verður til þegar konur verða mæður og þegar þær fatta að þær bera ábyrgð á nýju lífi og að þetta nýja líf andi, borði, sofi og tja, skili af sér þessu sem það borðar. Hin nýbakaða móðir vill umfram allt standa sig vel og heiðra þannig móður sína í leiðinni:

vil vera þér allt

sem mamma var mér

pönnuköku – og vöffluilmur

dans upp úr þurru

sykur og rabbarbari

faðmur og hvíldarlendur

(103)

Mamma þarf að sofa er heillandi ljóðabók, orðaleikir ljóðmælanda hafa dáleiðandi áhrif og textinn er fallegur en um leið ljúfsár og örlítið erfiður.

 

Ljóðmælandinn í Eldsbirtu eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur sækir sér fyrirmyndir til bókmenntahefðarinnar, lítur til kvenhetja sem á undan fóru, raunverulegra eða skáldaðra, til að takast á við yfirvofandi endalok. Reynsluheimur móðurinnar er aftur á móti yrkisefni Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur í ljóðabókinni Mamma þarf að sofa, lífsreynsla sem stór hluti jarðarbúa á sameiginlega og hefur þess utan áhrif á alla sem ganga lífsveginn (ég vil ganga minn veg, þú vilt ganga þinn veg og allt það). Það er því undarlegt að tala um að slík reynsla komi af jaðrinum. Þegar aftur á móti er litið til nýlegrar lagasetningar um fóstureyðingar má glögglega sjá hversu fjarri vestanhafslöggjafar eru reynsluheimi kvenna. Já, þessir dómarar þyrftu að leggjast í kvennabókmenntir eða bara læra að hlusta, nema og skilja.

 

Vera Knútsdóttir, júní 2022

 

Eftirskrift : Titill greinarinnar er vísun í ljóðabók Ingibjargar Haraldsdóttur frá árinu 1995 sem leikur sér að ljóðlínum Sigfúsar Daðasonar „mannshöfuð er nokkuð þungt“ (Ljóð, 1951).