Beint í efni

Eyja gullormsins

Eyja gullormsins
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Þessi nýjasta bók Sigrúnar Eldjárn er, samkvæmt bókarkápu, fyrsta bókin í þríleik og því ljóst að hún heldur hér áfram með það form sem svo vel tókst til með í þeim síðasta, Týndu augunum, Frosnu tánum og Steinhjartanu. Útlit Eyju gullormsins er líka svipað þeim bókum og brotið það sama, eilítið minna en hið hefðbundna “kaflabókabrot” sem gerir bækurnar fallega kubbslegar og freistandi í hendi, og ætti þessi nýja bók því strax að kveikja hugrenningatengsl við fyrri seríuna hjá þeim sem hana þekkja.

Eins og titillinn gefur til kynna er Eyja gullormsins ævintýri. Söguhetjurnar eru áttundu bekkingarnir Gunna og Ýmir og börnin sem þau eru að passa, hin fjögurra ára systir Ýmis, Sunna María, og ungabarnið Tumi. Ýmir og Gunna þekkjast ekki í upphafi sögu en Ýmir hefur þó lengi haft augastað á henni í skólanum, langað til að tala við hana og dansa við hana á skólaböllum en aldrei þorað. Það er svo hinni alls ófeimnu og uppátektarsömu Sunnu Maríu að þakka að þau fara að tala saman þegar þau rekast hvort á annað niður við Tjörn. Umhverfið er því kunnuglegt reykvískum börnum og mörgum fleirum, krakkarnir búa í Þingholtunum og eru á röltinu í bænum þennan júnídag þegar sagan hefst. Þau eru rétt búin að hittast þegar þau finna bát við tjarnarbakkann og ákveða að róa út í hólma. Ýmir er að vísu tregur til, en stelpurnar þeim mun ákafari svo hann lætur til leiðast.

Þegar út í hólma er komið tekur svo ævintýrið við, þessi kunnuglegi staður, sem þó er svo fjarlægur nema þegar Tjörnina leggur, breytist snögglega í ókunnugt land, grátt og vindasamt og börnin vita bókstaflega ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Umskiptin eru óundirbúin, krakkarnir hafa aðeins náð að taka nokkur skref í hólmanum þegar þau eru allt í einu stödd á nýjum og ógnvekjandi stað sem þau hafa ekki hugmynd um hvar er né vita þau hvernig þau eiga að komast frá aftur. Það er sniðugt að nota Tjörnina sem hlið að landi ævintýra, hún býr í sjálfri sér yfir ákveðnum dularmætti og auðvelt er að ímynda sér að þar geti nánast hvað sem er gerst. Ævintýralandið sem börnin fara til er líka eyja, stærri en hólminn en þó svo lítil að það tekur Ými ekki langan tíma að ganga allan hringinn meðfram strandlengjunni. Þaðan sést hins vegar ekki til lands og eyjan er líka þeirrar náttúru að hún vaggar eins og bátur og virðist geta siglt. Börnin hafa því vægast sagt ótryggt land undir fótum og þurfa að standa saman og sýna hugrekki og framtakssemi til að komast af. Þessi ævintýraeyja er undarlegt sambland gamals heims og nútíma, þar er t.d. enginn sími en íbúarnir kannast þó við slík tæki. Sögusviðið er því dálítið “loðið” ef svo má að orði komast, og hefði að ósekju mátt mála það skýrari dráttum.

Sigrún notar ýmis kunnugleg ævintýraminni og vísanir, svo sem það sem titillinn vísar til, seiðkona og galdur koma einnig við sögu svo og álög og dóttir sem er gefin gegn vilja sínum til að bjarga samfélaginu, svo eitthvað sé nefnt. Þarna hefði einnig mátt vinna frekar úr, það er nóg af ævintýralegum hlutum en bakgrunnur sögunnar er nokkuð óljós og hefði mátt undirbyggja hana betur. Atburðarásin fer rólega af stað eftir að börnin eru lent á eynni en spennan eykst eftir því sem á bókina líður. Hún felst fyrst og fremst í því að fá að vita hvers vegna börnin hafa verið hrifin á þennan dularfulla stað og hvað sé á seiði á þessari eyju sem í fyrstu virðist mannlaus en reynist það síður en svo þegar til kemur. Það er Ýmir sem segir söguna í endurliti, ýmist í 1. persónu köflum sem eru skáletraðir og með bláu letri og því skýrt afmarkaðir frá frásögninni að öðru leyti, eða í 3. persónu köflum sem eru meginuppistaða bókarinnar.

Í þessum sögumannsköflum, sem lesandinn veit ekki að eru sagðir af Ými fyrr en undir lok sögu, hefur sögumaður mun meiri yfirsýn og sér atburði einnig frá sjónarhornum annarra persóna, fyrst og fremst þeirra Gunnu og Sunnu Maríu, en einnig stráksins Péturs sem þau kynnast á Eyju Gullormsins. Það síðastnefnda gengur að vísu ekki alveg upp, í ljósi atburðarásar sögunnar hefur Pétur varla náð að segja Ými sögu sína, svo gera verður því skóna að hann skáldi í þær eyður eigi sjónarhornið að vera trúverðugt, en sjálfur segir hann lesanda að stelpurnar hafi sagt sér sínar sögur. Að mínu viti er þetta galli á textanum, nema að lesandinn taki þann pól í hæðina að frásögnin sé einfaldlega öll skáldskapur listamannsins Ýmis, en hann er ástríðufullur teiknari sem leggur helst ekki teikniblokkina frá sér. Framan við fyrsta kaflann er svo stuttur kafli þar sem einhver kona virðist vera að galdra börnin fjögur til sín og er þar strax sleginn tónn óhugnaðar og forvitni lesanda vakin.

Krakkarnir hafa öll skýr sérkenni og eru skemmtilegar persónur, hver á sinn hátt. Við kynnumst Ými eðlilega best, hann er næmur á umhverfi sitt og varkárastur af krökkunum og eins og fyrr segir síteiknandi allt sem fyrir augu ber. Myndirnar hans prýða söguna og hann er því í senn höfundur hennar og myndskreytir, líkt og skapari hans. Það eru ekki síst myndirnar sem hjálpa honum við að rifja söguna upp eftir á og þannig verða þær hluti af skrásetningu hennar.

Ýmir er að öðru leyti ósköp venjulegur strákur sem er að verða unglingur, honum finnst leiðinlegt að þurfa að eyða sumrinu í að passa litlu systur sína og vildi miklu frekar vera í unglingavinnunni, en er þó furðu þolinmóður gagnvart uppátækjum hennar. Eins og áður sagði er hann skotinn í Gunnu þótt ekki sé neitt meira gert með þær tilfinningar hans í sögunni en að segja frá þeim í upphafi hennar. Sunna María er grallarinn í hópnum enda bara fjögurra ára, en mjög fullorðinsleg í tali . Hún skilur aldrei dúkkukerruna sína við sig en hún full af alls kyns dóti sem stelpan sankar að sér. Gunna er svolítið spekingsleg, hún hefur kenningar um flesta hluti og er líkt og Sunna María áræðin og sjálfstæð, en hefur ríka ábyrgðarkennd gagnvart Tuma litla sem hún er að passa þetta sumar. Hún býr ein með mömmu sinni og segist aldrei hafa átt neinn pabba, en gefið er í skyn að hann komi við sögu í bókinni þótt Gunna viti sjálf ekki af því, og lesandinn er skilinn eftir með þá von að hann eigi eftir að dúkka upp aftur í framhaldinu. Þannig skapast eftirvænting fyrir næstu bók í þríleiknum og má því einum þræði líta á þessa sem nokkurs konar inngang eða kynningu fyrir áframhaldandi ævintýri krakkanna.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2006