Beint í efni

Fimbulkuldi og fegurð í nýrri furðusögu

Fimbulkuldi og fegurð í nýrri furðusögu
Höfundur
Ingi Markússon
Útgefandi
Storytel
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Svanhvít Sif Th Sigurðardóttir

Nú í nóvember kom út furðusagan Skuggabrúin sem er fyrsta skáldsaga höfundarins Inga Markússonar. Verkið hlaut Nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta árið 2020 og er fyrsti hlutinn í væntanlegum þríleik. Sögusviðið í Skuggabrúnni er myrkur og ísilagður heimur þar sem himintunglin hafa slokknað hvert af öðru þar til aðeins ein stjarna lýsir upp vetrarmyrkrið. Þennan heim byggja stjarneygingar, fólk sem hefur aðlagast lífinu í fimbulkulda þessarar framandi veraldar, með þykkan feld og sjáöldur eins og stjörnur í laginu sem þau draga nafn sitt af. Framan af í sögunni er ekki alveg ljóst hvar við erum stödd, hvort sagan gerist á fjarlægri plánetu, jörðinni í óræðri framtíð eða í allt öðrum heimi. Það kemur þó brátt í ljós að siðmenning stjarneyginganna reis eftir fall mannkynsins þannig að þó svo að tímaramminn sé ótilgreindur virðist jörðin vera sögusviðið. Hún er þó mikið breytt frá bláa hnettinum sem við þekkjum í dag en jörð stjarneyginganna er í heljargreipum langrar ísaldar.

Sagan segir frá unglingunum Dimmbrá og Hnikari, góðum vinum sem kvöld eitt fara út að vaka yfir síðustu stjörnunni. Seiðurinn, trúarbrögð stjarneyginganna, boðar að það skuli veita stjörnunni félagsskap til að varðveita ljós hennar. En þessa örlagaríku nótt gerist hið óhugsandi, síðasta stjarnan slokknar og heimurinn myrkvast. Í þorpinu þar sem vinirnir búa ríkir glundroði og margir vilja kenna unglingunum um hvarf stjörnunnar, að þau hafi brugðist á vökunni og þess vegna sé stjarnan eina horfin. Þau verða viðskila við hvort annað í öllu uppnáminu sem fylgir hvarfi stjörnunnar og upp frá því fylgir bókin sögum þeirra í sitthvoru lagi.

Dimmbrá flýr reiði þorpsbúanna sem vilja skella skuldinni á hana. Hún hleypur án þess að vita hvert hún eigi að fara þangað til hún rekst á gamlan einbúa sem hefst við skammt frá þorpinu. Hann segir henni frá fornum spádómi um:

stúlku sem verður vitni að því þegar síðasta stjarnan hverfur. Hún ákveður að leita stjörnunnar. Heldur út á jökulauðnina, fer yfir fjöllin þar til hún kemur til Borgarrústanna og finnur Skuggaturninn. Í turninum er kort af heiminum, og fyrir ofan, stigi til himna. Stúlkan klífur stigann upp í himinhvolfið, finnur stjörnuna einu, vekur hana til lífsins. (27)

Í örvæntingu sinni skeytir Dimmbrá ekki um það hvort einbúinn segi satt eða ekki, hún ákveður að halda yfir fjöllin til Borgarrústanna þrátt fyrir að hafa aldrei áður heyrt þennan spádóm. Einhvern vegin verður hún að bæta fyrir að hafa valdið hvarfi stjörnunnar einu þó svo að hún viti vel að það sé feigðarflan að halda yfir fjöllin ein síns liðs. Á meðan er Hnikar tekinn höndum af Hrími, valdamesta manni þorpsins, sem gæti með því hafa bjargað honum undan reiði þorpsbúa. Hrímur getur hins vegar ekki bjargað honum þegar Narzfim, höfuð seiðgildisins í þorpinu, vill fara með Hnikar til höfuðstaðarins. Narzfim hefur sín eigin áform og Hnikar er lykillinn að þeim.

Dimmbrá og Hnikar eru bæði munaðarleysingjar og hálf utangarðs í þorpssamfélaginu. Litarhaft Dimmbrár sýnir að hún er ekki af sama ættbálki og aðrir þorpsbúar og hefur vegna þess verið kölluð óheillakráka síðan hún kom þangað á barnsaldri. Hnikar missti málið eftir hræðilegt slys úti á ísnum þar sem báðar mæður hans létust og síðan hefur hann einungis getað talað við Dimmbrá. Það má því segja að vinirnir séu haldreipi hvors annars og ósk þeirra að finna hvort annað á ný eftir að þau skiljast að er leiðarstef í sögunni. Unglingarnir eru ein síns liðs megnið af bókinni og þurfa að bjarga sér sjálf í viðsjárverðum heimi sögunnar, þar sem þau vita ekki hverjum þau geta treyst og hættur leynast við hvert fótmál. Það er ekki einungis náttúran sem er varasöm með myrkri, kulda og válindum veðrum, heldur eru aðrar sögupersónur sem á vegi þeirra verða ekki allar þar sem þær eru séðar og Dimmbrá og Hnikar þurfa að beita öllum sínum ráðum til að komast á leiðarenda og leysa leyndardóminn um hvarf stjörnunnar einu.

Það er margt nýstárlegt sem fyrir augu ber í Skuggabrúnni og ein skemmtilegasta nýbreytnin er að aðalsöguhetjurnar séu ekki mennskar heldur fólk af nýrri tegund. Eins er dýralífð framandi og frerabirnir, snæhýenur og ístúatörur deila ísilagðri jörðinni með stjarneygingum. Nýjar tegundir eru algengar á síðum vísindaskáldsagna en stjarneygingar búa þó ekki yfir mikilli tækni. Þau virðast lifa fremur frumstæðu lífi hvað það varðar en nýta sér ýmsar tæknilegar leifar eftir útdautt mannkynið. Bæði hversdagslegar eins og rafmagnslýsingu og meira framandi eins og erfðabreytta hvali sem fararskjóta yfir höfin. Þau búa aftur á móti yfir göldrum sem er svo algengt í fantasíum. Það er seiðurinn, sem einnig er trúarbrögð stjarneyginganna, og seiðfólkið býr yfir yfirskilvitlegum hæfileikum sem þau rækta með sér frá unga aldri. Það fá aðeins útvaldir aðgang að þeirri huldu þekkingu og meðal stjarneygingar hafa ekki mikinn skilning á dulmagni seiðsins þó svo að í hverju þorpi sé seiðgildi. Hið yfirskilvitlega leikur stórt hlutverk í sögunni og stjarneygingar eru ekki þau einu sem búa yfir dularfullum kröftum. Ístúatörurnar, tegund af kyngimögnuðum heimskautaeðlum er einnig kynnt til sögunnar, en þær fylgja Dimmbrá á ferðalagi hennar og gera sitt besta til að aðstoða hana.

Furðusögur eru oft flokkaðar annað hvort sem vísindaskáldskapur eða fantasíur og óvissan um í hvorn flokkinn Skuggabrúin fellur eykur mikið á spennuna við lestur bókarinnar. Lesandinn getur ekki treyst á venjur bókmenntagreina til að átta sig á atburðum sögunnar og útskýra heiminn sem hún gerist í. Skuggabrúin spannar þessi landamæri bókmenntagreina og leikur sér með þau og er því furðusaga með sanni. Söguheimurinn er haganlega smíðaður, margslunginn og dularfullur og spennandi að komast að leyndarmálum hans eftir því sem sögunni vindur fram. Lesandinn deilir lengi vel óvissu sögupersónanna um lögmálin sem þar ráða ríkjum og fær nóg rými fyrir ímyndunaraflið til að fara á flug. Hvað kom fyrir himininn, stjörnurnar og sólina? Stjarneygingar tala um dag og nótt þrátt fyrir að það ríki stöðugt rökkur. Einnig kölluðu þau árstíðirnar hinn bjarta vetur og hinn dimma vetur áður en himintunglin hurfu þó svo að jafnvel elstu Stjarneygingar muni ekki eftir síðasta sumri.

Þó svo að aðalsöguhetjur bókarinnar séu unglingar er hún síður en svo einungis fyrir þann aldurshóp heldur finna eldri lesendur hér einnig sögu við sitt hæfi. Skuggabrúin er frábær furðusaga þar sem bæði söguþráðurinn og frásagnarmátinn seiða lesandann til sín. Hún gerist í fallegum en nöturlegum heimi og ýmist fléttar saman eða teflir gegn hvor annarri andstæðum ljóss og myrkurs, kulda og hlýju, siðmenningar og náttúru, drauma og veruleika. Þessi fyrsta bók komandi þríleiks lofar góðu um það sem koma skal því hún er bæði sterk sem sjálfstæð saga en vekur einnig upp spurningar og forvitni lesandans um hvað gerast muni næst.
 

Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, nóvember 2022