Beint í efni

Fjórar þýddar fantasíur

Fjórar þýddar fantasíur
Höfundar
Roderick Gordon,
 Brian Williams
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Cornelia Funke
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Mark Walden
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Fjórar þýddar fantasíur
Höfundur
Jonathan Stroud
Útgefandi
Ugla
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Bóklestur er viðfangsefni Corneliu Funke í bókinni Blekhjarta (Bjartur, 2008), en hún er ein af fjölmörgum ævintýrabókum sem komið hafa út á undanförnum árum og er beint til stálpaðra krakka. Það er einkar viðeigandi að byrja umfjöllun um nokkrar slíkar á bók sem gerir út á mikilvægi þess að lesa og að kunna að njóta góðra bóka og þeirra ævintýra sem þær hafa uppá að bjóða. Jafnframt fjallar sagan um hættur bókarinnar, eða kannski hættur þess að tapa sér alveg í bókum, en í Blekhjarta er ást manns á bóklestri svo mikil að hann kallar fram hluti og fólk úr sögunum með upplestri sínum. Því miður er þetta fólk ekki endilega æskileg viðbót í veruleikann.

Maðurinn sem les persónur út úr bókum heitir Mó, en dóttir hans Meggí deilir með honum bókaástinni. Eitt kvöldið kemur gestur til Mó og morguninn eftir pakkar Mó saman og segir Meggí að þau séu að fara í ferð. Í ljós kemur að þau hafa ferðast mikið í gegnum árin, að því er virðist á flótta undan gestinum. En gesturinn gefst ekki upp og nær þeim áður en þau ná að flýja og ferðast með þeim til frænku Meggí, en sú á gífurlegt bókasafn. Þar er margt undarlegt á seyði, og virðist allt tengjast bók sem Mó felur í bókasafni frænkunnar. Og svo byrja ógnvænlegir atburðir að gerast, Mó er rænt og Meggí fer að leita hans.

Cornelia Funke hefur áður skrifað um mörk veruleika og fantasíu í Konungi þjófanna, en þar kemur hringekja við sögu. Hún hefur ágæt tök á því að flétta saman ævintýri og raunsæi en ætlar sér stundum um of og því virka sögur hennar dálítið jafnvægislausar. En hún er óhrædd við að fjalla um óhugnað og tekst vel upp í því að skapa andrúmsloft ótta jafnhliða því að fjalla á fallegan hátt um þá gleði sem góð bók gefur.

Í Býkúpu (JPV útgáfa, 2008) Marks Walden er líka fjallað um ógnir, en þar segir frá skóla fyrir upprennandi glæpamenn. Nemendurnir eru þó ekki alltaf sjálfviljugir og segir sagan frá einum slíkum, Ottó Malpense, sem skipuleggur flótta í félagi við nokkra samnemendur sína. Blekhjarta kallast sterklega á við Gulleyjuna er hér er fyrirmyndin enginn annar en Harry Potter, en eins og segir í tilvitnun aftan á bókinni er Býkúpan “eins og skuggahliðin á Hogwarts”.

Sérskólinn fyrir upprennandi ofurglæpamenn er vel falinn en virðist þó fyrst og fremst dularfullur í krafti tækni og hæfileika, frekar en galdra. Þó eru hæfileikar sumra kennaranna slíkir að það jaðrar við hið yfirnáttúrulega. Það að nota tækni í stað galdra er vel heppnað og bókin ber með sér andrúmsloft hasar / vísinda-mynda, með gnótt eftirlitsmyndavéla og gervigreindarforrits sem hefur öðlast sjálfsvitund. Hugmyndin um ofursnjalla glæpamenn, sem láta sér ekki nægja að fremja glæpi sína á venjulegan hátt, heldur leggja mikið upp úr glæsilegum sviðsetningum og umgjörð hverskyns kallast á við heim ofurhetjumyndasögunnar, en þar eru glæpir ekki bara brot á reglum heldur úthugsuð hugarfóstur.

Síðasti hlutinn, sem segir meðal annars frá óvæntum hæfileikum annars hæfileikasnauðs nemanda á sviði líftækni og ræktunar (minnir slík persóna á nokkurn?), minnir síðan mest á hrollvekjur, en þessi lokahnykkur er bráðskemmtilegur og hleypir ævintýrinu á stökk.

Það vantar heldur ekki ævintýrin í Göngum Rodericks Gordon og Brians Williams (Bjartur, 2008), né hrollvekjuna. Af þessum fjórum sögum sem hér eru til umfjöllunar stendur Göngin næst hrollvekjunni og er sérlega vel heppnað dæmi um vel út færða ævintýra-hrollvekju fyrir yngri lesendur. Göngin segir frá heilu neðanjarðarsamfélagi sem Burrows-feðgarnir uppgötva óvænt. Aðalsöguhetjan er þó sonurinn, Will, sem í félagi við vin sinn Chester eltir föður sinn niður löng göng sem leiðir þá inn í neðanjarðarsamfélag sem liggur undir allri Lundúnaborg.

Íbúar þess samfélags eru ekkert átakanlega hrifnir af heimsókninni og í ljós kemur að þetta samfélag hefur viðhaldið gömlum hefðum og siðum og er stjórnað af fólki sem nefnist Styx. Neðanjarðarbyggðinni er haldið gangandi af allsérstæðri tækni, auk þess sem leyndarmál þess er vel geymt af fáeinum ‘efri-byggðar-búum’.

Þeir sem ferðast með jarðlestum hafa sjálfsagt flestir einhverntíma velt fyrir sér möguleikanum á neðanjarðarheimum, og hér er sú hugmynd tekin alla leið. Einnig var mér hugsað til hinnar sokknu borgar Atlantis og sögu Verne um ferðina niður um Snæfellsjökul, en Göngin fangar fullkomlega þá hríslandi samþáttun ævintýra og ógnar sem finna má í þessum sögum.

London er einnig vettvangur fyrstu sögunnar í Bartimæusar-þríleiknum, sem nefnist Verndargripurinn frá Samarkand  (Bókafélagið Ugla, 2008) og er eftir Jonathan Stroud. Sú innbyggða gagnrýni á ógnarstjórn og lagskipt samfélag sem finna má í Göngunum er hér eitt af viðfangsefnum sögunnar, og kallast sömuleiðis á við umræðu um stéttaskiptingu sem er mikilvægur þáttur Harry Potter bókanna. Sú London sem hér er lýst er höfuðborg galdra, en galdrar eru almennt viðurkenndur hluti heimsmyndarinnar. Og það eru galdramenn sem eru við völd og þeir hafa lítið álit á almúganum. Galdrar þeirra eru þó ekki til komnir vegna einhverrar sérgáfu heldur lærðum hæfileikum til að kalla fram anda, eða djinna, og púka og því má segja að þessir galdrar tilheyri heimi kabbalisma, særinga og austrænnar andatrúar, en einn slíkur andi, Bartimæus, er önnur aðalsögupersóna bókarinnar.

Hin er Nathaniel, ungur lærisveinn galdrameistara, sem er bæði metnaðarfullur og hefnigjarn og hefur því lagt ofurkapp á námið til að geta kallað fram öflugan djinna, Bartimæus, og ná honum á vald sitt. Sagan segir svo frá hefndaráætlunum Nathaniels og vandræðum hans með Bartimæus, sem reynist ekki auðveldur viðfangs. Áður en veit eru þeir komnir á kaf í pólitísk átök galdramannanna og svikavefi ýmiskonar.

Það sem gerir söguna áhugaverða er að báðar aðalpersónanna eru nokkuð fráhrindandi. Bartimæus er lævís og lyginn djinni, sem hefur engan áhuga á að vera þræll galdramanns og svífst einskis til að sleppa frá honum. Nathaniel er hrokafullur og sér ekkert rangt við ofurvald galdramannana og fyrirlitningu þeirra á almúganum. Þetta gefur sögunni fleiri blæbrigði en venjan er í fantasíum fyrir þennan aldurshóp.

Að vanda er hlutverk þýðenda mikilvægt en þar á Rúnar Helgi Vignisson sérstakt hrós skilið, en Göngin var gersamlega laus við það þýðingarbragð sem því miður stakk sér niður á stöku stað í hinum bókunum. Frágangur hefði þó almennt mátt vera betri og enn á ný finn ég mig knúna til að kvarta yfir óþarfa fjölda prentvilla. Slíkar voru reyndar sérlega slæmar í Blekhjartanu og mjög til baga. Það er ánægjulegt að sjá að bókaútgefendur sinna þessum lesendahópi svona vel með vönduðum verkum, en óskiljanlegt að ekki skuli vandað betur til útgáfunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008