Beint í efni

Fléttur

Fléttur
Höfundur
Guðrún Hannesdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavik
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Guðrún Hannesdóttir hlaut fyrr á þessu ári Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið „Offors”. Ekki er þó hægt að segja að titill þess lýsi vel stemningunni í ljóðum þessarar fyrstu ljóðabókar hennar, Fléttur, en þar sýnist mér frekar annar titill eiga við: „Kyrrð”.

Fléttur er ekki bók sem lætur mikið yfir sér, hér er fjallað um náttúru, bernskuminningar og stemningar og margt er vel gert án þess þó að vera stórkostlegt. Bestu ljóðin minna mig á ljóð Þóru Jónsdóttur, og á það jafnt við um náttúrustemningar sem og ákveðna tóntegund íhygli og trega. Það er viss fortíðarstemning yfir ljóðunum sem fellur vel að fremur gamaldags ljóðmáli og hugsun, en hér ber ekki mikið á tilraunastarfsemi.

Það þarf þó ekki að koma í veg fyrir að ljóðin séu vel saman sett, margar sveitamyndanna eru til að mynda lúmskt fyndnar og sniðugar eins og „Í minningu vinkonu” sem fjallar um ruslafötu með matarafgöngum sem hænurnar fá, og „Afturganga” sem segir frá hinum afturgengna Blesa í formi heimareyktra bjúgna „sem felldu mig / við kamarsetuna / daglangt”. Þó hér sé ekki verið að fjalla um hefðbundinn draugagang leika nokkur draugalýsulog um önnur ljóð og leitar skáldkonan þar til íslenskra þjóðsagna og goðsagna, eins og í „Órum”, en þar „leita / ýmsar geigsendingar / og furðubjartir / viðsjálsgripir / leiða á sandöldunum / og finna / hvar stráð hefur verið / smáum, hvítum / mjólkurtönnum mikilmenna / í slitróttan slóða / en auðrataðan / í tunglskininu.” Í „Fyrir daglátum” er fjallað um hannyrðir á nóttu og degi og dregin upp mynd kvenna sem norna og mæðra. Einnig er vísað til ævintýra, til dæmis í „Sama sagan” en þar er aftur sleginn kvenlegur tónn í ljóði sem fjallar um heimsóknir hetja til risa, en þar „er langoftast kona “ sem opnar dyr í laumi / og hleypir okkar manni inn.” En svo hverfur hún úr sögunni eftir að risinn sofnar og hetjan fær lag.

Æðri máttarvöld koma við sögu í „Dómsdegi”, en þar viðurkennir ljóðmælandi að hafa ekki sinnt því að geyma afskornar neglur og hár, „láðst að varðveita / ýmis líffæri / tennur sem týndust”, „svo ekki sé minnst á / ljóma augna minna / limamýkt / og ljúft geð.” Því verður hún bara að koma eins og hún stendur á efsta degi. „Andskotann” hittir ljóðmælandi svo tvívegis í búðum, „í fyrsta sinn / í Czeski Krumlov” þarsem hann er strengjabrúða og „í Bratislava / var hann mér aftur falur” en nú sem lítill „látúnsklumpur / með glóandi hnýfla.” Og svo bíður hann þolinmóður eftir þriðja fundi í von um að ljóðmælanda „verði kauphöndin / ljúf og hlýðin.”

Það er í svona stemningum, þarsem hið háleita er gert hversdagslegt, sem skáldkonunni tekst best upp. Hér er tekist á við kunnugleg minni á áhugaverðan hátt en án alls offors.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007