Beint í efni

Fljótandi hugsanir og einmanaleiki tilverunnar

Fljótandi hugsanir og einmanaleiki tilverunnar
Höfundur
Svein Nyhus
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Fljótandi hugsanir og einmanaleiki tilverunnar
Höfundur
Svein Nyhus
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Nýverið komu út hjá Dimmu tvær bækur eftir norska höfundinn Svein Nyhus í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar. Bækurnar Enginn og Heimurinn er hornalaus komu upphaflega út í Noregi í kringum aldamótin síðustu og er Nyhus bæði höfundur texta og mynda. Bækurnar eru langt frá því að vera hefðbundnar, hvorki myndheimurinn né textinn, því bækurnar eru einstaklega listrænar og heimspekilegar. Strax við fyrstu sýn má sjá að þarna eru á ferð úthugsuð heildstæð listaverk sem þrátt fyrir að vera ætluð ungum lesendum vekja upp spurningar og krefja lesendur um að kafa dýpra. Útkoman er slík að jafnvel þó að um myndskreyttar barnabækur sé að ræða hreyfa heimspekilegar hugmyndir persónanna jafn vel við fullorðnum lesendum sem og börnum.

Heimurinn er hornalaus er ljóðræn frásögn Viktors sem situr í pappakassa og hugsar um heiminn. Sjónarhornið er Viktors og lesendur fljóta í gegnum huga hans þar sem hann veltir upp misdjúpum vangaveltum um veröldina. Viktor og pappakassinn eru til staðar á hverri síðu og Nyhus fléttar pappakassanum skemmtilega inn í myndheiminn. Þó bókin hafi vissulega upphaf og endi er frásögnin mjög flæðandi og raunar mætti vel hugsa hana sem eitt langt ljóð þar sem lesandinn ferðast, örlítið kaótískt, í gegnum hugsanir Viktors. Því „[h]ugsanir er ekki hægt að negla fastar með nagla“.

Hugsanir Viktors eru allt frá því að vera hversdagslegar pælingar um ósamstæða sokka eða það að venjulegur stóll „ situr aldrei. Hann bara stendur alla ævi“ yfir í djúpar vangaveltur um líf og dauða, æsku og fullorðinsár. Um miðbik bókarinnar fer Viktor að hugsa um ömmu sína og langömmu og kemst að þeirri niðurstöðu að „fólk vex þangað til það getur ekki meira. Þá deyr það.“ Og þó innihald textans geti virðst þungt og full alvarlegt fyrir ungan markhópinn er aldrei langt í húmorinn. Þannig hnýtir Viktor hnút á umræðuna um dauðann með bjartsýni barnshugans að vopni og hugsar:

Þegar við deyjum getum við ekki andað lengur
því dauðinn er þröng peysa.
Og svo verðum við að ryki undir sófanum.
Ég vil ekki vera dauður.
Ég vil frekar vera slökkviliðsmaður.

Þessi athugasemd vakti mikla kátínu hjá börnunum mínum, sem var ekkert farið að lítast á blikuna við frekar þunglyndislegan lestur móður sinnar en skelltu fegin upp úr þegar síðasta setningin var lesin. Önnur hugsun Viktors sem vakti upp hlátrasköll var fullyrðingin: „Grís pissar ekki á sig, því grísinn er ekki í buxum.“

Það er áhugavert að skoða hvernig fullorðna fólkið kemur fyrir bæði á myndum Nyhus og í textanum. Frá sjónarhorni Viktors eru foreldrar hans og annað fullorðið fólk, þungbúið, gráleitt og á sumum myndunum jafnvel bara alveg svartar skuggaverur. Pabbi hans er sérstaklega þungbúinn og lítur út fyrir að vera alltaf uppgefinn. Viktor áttar sig á þessu og lýsir því hvernig mamma hans breiðir alltaf yfir hann sjálfan á kvöldin til að passa að honum verði ekki kalt en pabbi þarf sjálfur að breiða yfir sig. Það er bjartara yfir Viktori á myndunum, hann er með lit í kinnum og stór og forvitin augu. Andstæðurnar milli hans og fullorðna fólksins undirstrika áhyggjuleysi og sakleysi bernskunnar. 

Ýmsar áhugaverðar samræður við börnin mín vöknuðu við lesturinn og þó að bókin sé í þyngri kantinum er hún virkilega holl lesning til að vekja börn til umhugsunar um heiminn í kringum þau.

Enginn er heildstæðari saga með upphaf, miðju og endi sem hnýtir atburðarrásina saman en engu að síður er stíll Nyhus áfram ljóðrænn. Sagan fjallar um Engann sem býr einsamall, og þó hann virðist una sér vel er hann engu að síður einmana. Textinn er hnyttinn og orðaleikir vegna nafnsins sem aðalsöguhetjan ber eru víða: „Svo segir Enginn brandara. Enginn hlær. Og Enginn syngur. Það er fallegt lag sem Enginn hefur heyrt áður“.

Enginn er í raun enginn á meðan hann er einn í heiminum. Hann fer út á meðal fólks en fólkið sér hann ekki. Á myndunum er eins og Enginn sé gagnsær eða ósýnilegur. Augu hans eru glær og tóm. Á einni myndinni rétt áður en Enginn ákveður að fara út og reyna að finna félagsskap, situr hann með opinn munninn og „öskrar og öskrar. En Enginn heyrir það.“ Myndin af Engum að öskra minnir á Ópið eftir Edvard Munch og undirstrikar þannig angistina sem Enginn upplifir.

Sagan af Engum er falleg og sorgleg en á sama tíma fyndin. Aðstæðurnar sem Enginn er í fram eftir sögunni verða oft grátbroslegar. Því þó að Enginn sé augljóslega einmana og líði ekki nógu vel fléttar Nyhus ýmsum fyndnum athugasemdum um athæfi hans inn í textann. Það að „Enginn borðar epli á klósettinu og pissar í vaskinn“ þótti börnunum mínum sprenghlægilegt og stórfurðulegt.

Enginn tekur svo málin í sínar eigin hendur og skrifar bréf til Einhvers. Hann veit ekki hvar Einhver á heima svo hann býr til flugdreka úr bréfinu og sleppir honum þegar hann er kominn á flug. Hann veit ekki hvort bréfið hefur borist Einhverjum svo hann verður áhyggjufullur og þorir ekki að fara að sofa. En þegar Einhver birtist svo á dyraþrepinu hjá Engum er strax augljóst hvernig lifnar yfir honum. Um leið og Enginn sér Einhvern færist líf í augu hans, þau hætta að vera glær og augasteinarnir verða svartir með bliki í. Þetta undirstrikar mikilvægi mannlegra samskipta, einmanaleikinn þjakar okkur öll en vináttan gerir allt betra. Maður er manns gaman. Sagan endar því vel og á lokaopnunni borða Enginn og Einhver pönnukökur saman og eru glaðir.

Bækurnar tvær sem teknar hafa verið til umfjöllunar hér eru virkilega skemmtileg viðbót við barnabókaflóruna hér á landi. Þær eru óvenjulegar og krefjast þess að lesendur séu virkir í hugsun og pæli í hlutunum í kringum sig en krefja líka þau sem eldri eru um að tala við þau yngri og útskýra fyrir þeim flóknari hugmyndir sagnanna. Myndir Nyhus eru virkilega listrænar og fallegar og lyfta textanum upp en á sama tíma gætu þær vel staðið einar og sér. Aðalsteinn Ásberg hefur staðið sig feiknavel við að þýða áhugaverðar barnabækur síðastliðin ár og bækur Nyhus eru engin undantekning á því.
 

Kristín Lilja, nóvember 2022