Beint í efni

Fölsk nóta

Fölsk nóta
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ágætis byrjun hét önnur plata hljómsveitarinnar Sigur Rósar og reyndist þeim sannarlega ágætis byrjun á alþjóðlegum ferli. Ekki skal ég endilega segja um hvort bækur Ragnars Jónassonar muni ná álíka æstum vinsældum, en fyrsta glæpasaga hans, Fölsk nóta, er sannarlega ágætis byrjun og það er erfitt að forðast frasann að hér hafi bæst við nýr tónn í íslenska spennusagnaflóru. Þó er tónninn kannski ekki svo spánnýr, það er ýmislegt í andrúmslofti sögunnar sem minnir á bækur Viktors Arnars Ingólfssonar, auk þess sem ljóst er að Ragnar hefur lært sitthvað af klassískum breskum reyfurum, enda hefur hann þýtt bækur Agöthu Christie.

Það er því nokkuð gamaldags andi sem sveimar yfir vötnum Falskrar nótu, hér er fátt um töffaraskap, slettur, drykkju eða hasar. Í staðinn er spilað á fremur kyrrláta, næstum tilviljanakennda rannsókn ungs manns á afdrifum föður síns. Sagan hefst á því að aðalsöguhetjan, hinn ungi Ari Þór Arason, fær sendan greiðslukortareikning sem stílaður er á föður hans og alnafna, en sá hafði horfið sporlaust níu árum áður. Stuttu síðar fórst móðir Ara í bílslysi í Belgíu og eftir það er drengurinn munaðarlaus og elst upp hjá föðurömmu sinni. Hann hefur þó plumað sig ágætlega og er kominn í háskólanám, auk þess sem óvæntur fundur með stúlku á Landsbókasafninu virðist ætla að færa honum frekari gæfu.

Reikningurinn setur þó nokkuð strik í þessi áform og skyndilega finnur Ari sig knúinn til að reyna að komast að því hvað hafi orðið um föður sinn, þó ekki sé alveg ljóst hvert markmiðið er, eða eins og fyrrum lögreglumaðurinn Lárus segir: „Segðu mér eitt, hvort ertu að leita að föður þínum eða sannleikanum?” (s. 100) Ari verður auðvitað að leita til fortíðarinnar og í leiðinni rifjar hann upp tengsl við fyrrum samstarfsfélaga föður síns, auk fjölskyldumeðlima og annarra sem tengdust foreldrum hans. Fljótlega kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist, en ástæðurnar fyrir því skýrast ekki fyrr en undir lokin.

Vanur lesandi nær nú líklegast að klokka hvað er um að ske nokkuð fljótlega, en það breytir ekki því að sagan er skemmtileg aflestrar, flakk fram og til baka í tíma gerir sig vel og sú mynd sem er dregin upp af fremur einmana ungum manni er áhugaverð og skýr; hér er ekki farin sú leið að velta sér uppúr ýktum tilfinningum heldur er áherslan á að sýna hvernig áfall sem munaðarleysið og dularfullt hvarf föðurins hefur í för með sér, hefur áhrif á einstakling og tilveru hans. Á þann hátt mætti kannski skoða söguna sem einskonar stúdíu á því hvernig manneskjan þarf að takast á við fortíðina til að geta haldið áfram inní framtíðina; en í rannsókn Ara kemur greinilega fram að hann hefur ekki haldið miklu sambandi við það fólk sem tengist fortíð hans og foreldrum. Að þessu leyti sver sagan sig í ætt við bækur Christie, sem eru einmitt að stórum hluta til persónustúdíur - og gefa sér að allir hafi alltaf eitthvað að fela.

Bók Ragnars er því enn eitt dæmið um þá fjölbreyttu möguleika sem búa í glæpasögunni, en þessi eðla grein bókmenntanna reynist sem betur fer ekki vera farfugl við strendur landsins, né sýnir hún merki um hegðun gauksungans, sem svo margir virðast óttast. Glæpasagan er einfaldlega góð og holl viðbót í íslenska bókmenntaflóru og fjarri því að hljóma þar eins og fölsk nóta.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009