Beint í efni

Fortíðarflakk og óvæntar hetjur

Fortíðarflakk og óvæntar hetjur
Höfundur
Rebekka Sif Stefánsdóttir
Útgefandi
Króníka
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Fortíðarflakk og óvæntar hetjur
Höfundur
Rán Flygenring
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Nútímakrakkar þurfa að takast á við ýmis vandamál. Sum eru ný af nálinni eins og stöðug viðvera á samfélagsmiðlum og aðdráttarafl snjalltækja. Stress og hraði nútímasamfélags ýta sumum út af sporinu og börn fara ekki varhluta af því. Önnur vandamál eru sígildari og láta alltaf á sér kræla en mis oft þó. Þannig eru höfuðlýs og njálgur með hversdagslegri vandamálum í barnafjölskyldum en slíkir faraldrar virðast aldrei hætta að geisa. Eldsumbrot verða svo reglulega á Íslandi en síðast liðin ár hafa flest börn orðið vör við eldgos í umræðunni. Þessi viðfangsefni koma við sögu í tveimur nýútkomnum barnabókum sem hér verður fjallað um, Gling gló eftir Rebekku Sif Stefánsdóttur með myndskreytingum eftir Sjöfn Asare og Eldgos þar sem Rán Flygenring er bæði höfundur texta og mynda.

Rebekka Sif hefur verið virkilega iðin við skriftir og útgáfu á árinu sem er að líða. Hennar fyrsta skáldsaga, Flot, kom út snemma á árinu og síðan fylgdi skáldsagan Trúnaður sem var skrifuð sem hljóðbók og kom út hjá Storytel. Að lokum sendi Rebekka Sif frá sér barnabókina Gling gló sem er hennar fyrsta bók fyrir lesendur á barnsaldri. Sagan segir frá Elfu, ellefu ára gamalli stelpu sem þarf að segja skilið við móður sína þegar sú síðarnefnda ákveður að flytja tímabundið norður til foreldra sinna á Akureyri til að jafna sig á kulnun. Elfa og pabbi hennar verða tvö eftir heima í Reykjavík. Strax í upphafi sögunnar byrja svo að berast fréttir af dularfullum barnshvörfum.

En þrátt þessi stóru vandamál í umhverfi sínu á Elfa erfitt með að sýna samkennd og er sjálfselsk og hrokafull. Hún er svo viss um að hún fái aðalhlutverkið í leikriti skólans að hún telur sig ekkert þurfa að æfa sig. Hún er líka mjög háð símanum sínum og spjaldtölvunni og getur ómögulega sofnað nema hún horfi á eitthvað í símanum sínum þangað til hún lognast út af. Henni þykir það mun stærra vandamál þegar síminn hennar dettur í morgunkornsskálina og eyðileggst en að móðir hennar sé lasin og ekki hjá henni. Pabbi hennar reynir að setja henni mörk eftir að mamma hennar er farin og tekur af henni spjaldtölvuna. Elfa stelst samt til þess að fara í tölvuna eftir að hann er sofnaður. Hún nær í nýjan leik í tölvuna, Gling gló, og það næsta sem hún veit er að hún vaknar úti í hrauni í Hafnarfirði árið 1992. 

Atburðarrásin sem tekur við er æsispennandi og lestrarstundirnar þau kvöld sem við átta ára sonur minn lásum bókina urðu óvenju langar því hvorugt vildum við leggja frá okkur bókina. Veruleikinn sem mætir Elfu í fortíðinni er mjög ólíkur því sem hún og lesendur bókarinnar eiga að venjast. Enga snjallsíma eða tölvuleiki er að finna og fyrsta kvöldið í fortíðinni þegar Elfa leggst til hvílu getur hún ekki sofnað, hún hefur nefnilega engan skjá til að horfa á. 

Hún sneri sér við og rak þá augun í bókastaflann sem Foringi hafði komið með til hennar fyrr um kvöldið. Hún sótti vasaljósið sem Foringi hafði lánað henni, teygði sig í efstu bókina og settist við borðið. Bókin sem hún hafði náð sér í hét Bróðir minn ljónshjarta. (82-83)

Eftir mikla rannsóknarvinnu með vinum sínum Foringja, sem hún kynnist í fortíðinni og Fanndísi Rósu, stúlku sem kemur einnig úr framtíðinni átta þau sig á hlutverki Gling glóar í hvarfi þeirra. Í nútíðinni er pabbi Elfu svo sjálfur að rannsaka hvarf Elfu og kemst að því að öllum horfnu börnunum er haldið sofandi í sýndarveruleika. Þó að ráðgátan leysist og Elfa komist aftur til síns heima heldur Rebekka því opnu hvernig hvarf hennar átti sér stað í raun og veru. Var þetta allt bara sýndarveruleiki eða ferðaðist Elfa raunverulega aftur í tímann. Á það verða lesendur sjálfir að leggja sitt mat. Persóna Elfu þroskast mikið í gegnum söguna og þegar hún losnar úr tímaferðalaginu hefur hún öðlast sterkara samband við bæði pabba sinn og mömmu og við sjálfa sig.

Þó að inntak sögunnar sé einfalt (nútímatækni eins og snjallsímar og spjaldtölvur er vandamál og börn í dag hafa gott af því að leika sér meira úti, vera frjáls og lesa bækur) dettur Rebekka ekki í predikunargryfju. Lesendur fá sjálfir rými til að meta atburði sögunnar og þó að fortíðin sé lituð ljóma er hún ekki fullkomin og það sem skiptir mestu í lokin er að börn fái að vera börn og eyða gæðatíma með foreldrum sínum. Rebekka skýtur nefnilega líka á foreldra í bókinni. Mamma Elfu er svo útbrunnin í nútímasamfélaginu að hún þarf að yfirgefa dóttur sína, foreldrar Foringja skilja hann eftir hjá ömmu sinni og afa meðan þau fara erlendis í nám og Algríma, hönnuður Gling glóar tapar vitinu vegna þess að foreldrar hennar eyddu öllum hennar uppvaxtarárum í tækniþróun og vinnu og skildu hana eftir afskipta.

Gling gló er virkilega góð bók fyrir börn á grunnskólaaldri. Hún er æsispennandi og gefur skemmtilegt sjónarhorn inn í tíma sem börn nútímans fá ekki að kynnast. Fléttan er vel úthugsuð og atburðarásin svo spennandi að erfitt er að leggja bókina frá sér.

*

Í Eldgosi fléttar Rán Flygenring fræðslu um eldgos saman við skemmtilega, fyndna og spennandi sögu. Mamma Kaktuss hleypir honum ekki í skólann því þar geysar lúsafaraldur. Hann neyðist því til að fara með mömmu sinni, sem er leiðsögumaður, í vinnuna. Fjölbreyttur hópur ferðafólks fylgir Kaktusi og móður hans í ferð um íslenska náttúru þar sem þau verða vitni að því þegar byrjar að gjósa. Hópurinn samanstendur af erlendu og innlendu ferðafólki, fuglapari og tófu. Persónurnar eru lifandi og skemmtilegar og hver og ein hefur sinn sérstaka sjarma.

Þegar komið er að eldstöðvunum kemur í ljós að Kaktus býr yfir hafsjó af fróðleik um hraun. Þannig nær Rán að flétta inn í söguna fræðslu um jarðeðlisfræði eldsumbrota. Teikningar hennar af mismunandi gerðum hrauns prýða svo síðuna þar sem fróðleikurinn veltur upp úr Kaktusi. Í sögunni læra lesendur svo líka hvernig skuli hegða sér þegar farið er í skoðunarferð að eldgosi. Hvað þurfi að hafa meðferðis og hvernig skuli vara sig á gasmengun og síbreytilegum hraunstraumi.

Eins og við er að búast frá Rán er bókin mjög myndræn, á hverri síðu er samfelldur texti þar sem sögunni vindur fram en auk þess eru margar litlar hliðarsögur sem sagðar eru með myndunum og samskiptum persónanna í talblöðrum. Sagan er fyndin og margar þessara litlu sagna bjóða upp húmor sem miðaður er að þeim sem eldri eru eins og áhrifavaldurinn sem er með í för og konan sem er með móður sína í duftkeri meðferðis.

Rán skapar skemmtilega dýnamík með því að hafa persónur sögunnar alltaf svarthvítar á meðan náttúra landsins fær að vera í lit og flestar síðurnar eru þaktar rauðglóandi hrauni. Með þessu verður eldgosið ein af aðalpersónum bókarinnar. Rán leikur sér meira með myndasöguformið á síðum þar sem Kaktus og mamma hans leita að ferðafólkinu í hópnum eftir að þau verða öll viðskila. Kaktus lítur í gegnum kíki og finnur loks alla ferðalangana. Síðurnar eru alveg svartar og lesendur sjá aðeins ramma sem afmarkast af linsum kíkisins.

Einn meðlimur hópsins, Tófa, hefur lent í sjálfheldu á síminnkandi skeri í miðjum hraunelgnum. Þá koma óvæntar hetjur til sögunnar. Kaktus hafði náð sér í lús áður en móðir hans tók hann úr skólanum og þessar litlu lífverur fá aldeilis uppreist æru í meðförum Ránar. Þær hoppa úr höfði Kaktusar, yfir hraunið til Tófu. Þær eru svo léttar að þær skutla sér bara yfir brennheitt hraunið. „Þær vinna saman eins og þaulæfð, pínulítil björgunarsveit“. Lýsnar bíta Tófu samtímis í fæturna með þeim afleiðingum að hún skýst upp af sársauka og nær að komast í öruggt skjól.

Eftir lestur bókarinnar er uppáhalds leikur fjögurra ára sonar míns að standa uppi á húsgögnum og ímynda sér að gólfið sé rauðglóandi hraun. Hann kallar svo á hjálp og ég á að senda ímyndaðar lýs úr hausnum á mér að bjarga honum. Ég vona svo bara að hann fái ekki lús í bráð því ég er ekki viss um að hann myndi leyfa mér að útrýma þessum miklu hetjum. Í lok sögunnar er Kaktus ekki viss um að hann komist aftur í skólann því þar er líka njálgur að ganga. Við bíðum því spennt eftir framhaldi frá Rán þar sem njálgur bjargar málunum í jarðskjálftahrinu.

*

Gling gló og Eldgos eru hvor um sig virkilega vel heppnaðar barnabækur. Sögurnar segja frá krökkum sem lenda í ævintýralegum ferðalögum. Persónurnar þurfa að beita hugrekki og útsjónasemi til að leysa hættuleg vandamál. Elfa þarf að læra að feta sig í veröld þar sem engin snjalltækni getur dreift huga hennar þegar vandamál sækja að. Kaktus og ferðafélagar upplifa magnþrungna orku eldgosa og læra á hætturnar sem fylgja því mikilfenglega sjónarspili. Sögurnar vekja lesendur til umhugsunar og kveikja á forvitni þeirra. Í kjölfar lestursins eru þeir margs vísari um æskuumhverfi foreldra þeirra sem gátu ekki lifað lífinu fyrir framan skjáinn og hina miklu orku sem ólgar undir fótum okkar og brýst fram þegar byrjar að gjósa.
 

Kristín Lilja, desember 2022