Beint í efni

Gæðakonur

Gæðakonur
Höfundur
Steinunn Sigurðardóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

„Því ég er umfram allt mótuð af sorg og eftirsjá“ (14) segir María, aðalsögupersónan í nýrri skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, Gæðakonum, í upphafskafla bókarinnar. Alda Björk Valdimarsdóttir hefur bent á að gamlar ástarsorgir og þráhyggjur liti margar aðalsöguhetjur Steinunnar og María er engin undantekning á því (sjá „Á tímum varanlegra ástarsorga“ í Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur, 2011, bls. 135-164). Hér er þetta þó ekki megin viðfangsefnið, eins og í Tímaþjófinum og fleiri verkum, heldur er nokkuð meiri léttleiki yfir þessu kunnuglega stefi, eins og þetta sé einfaldlega nauðsynlegur og óumflýjanlegur bakgrunnur konunnar. Enda segir Steinunn í ljóðinu „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“: „Lífið gengur einmitt út á það að ná sér“ (Hugástir, bls. 14). Ástarsorg og eftirsjá eru ekki ráðandi tilfinning við lestur bókarinnar, heldur miklu frekar einhvers konar galsi; galsi í tungumálinu, í persónusköpuninni, í atburðarásinni, í fantasíunni, í andrúmsloftinu.

Líf Maríu Hólm Magnadóttur er í nokkuð föstum skorðum, hún er jarðfræðingur af lífi og sál með vasa fulla af steinum. Vinnan er málið, ástarsamböndin búin að vera, hún er að eldast, þyngjast, þreytast þegar í lífi hennar birtist dularfull kona, Gemma, sem vill helst umturna því. Svona byrjun, þar sem dularfull persóna kemur skyndilega inn í líf aðalpersónunnar, hefur reynst margri sagnamanneskjunni drjúgt efni og á sér svo margar hliðstæður og fyrirmyndir að úr verður eiginlega írónísk meðferð á efninu. María virðist meðvituð um þetta sjálf og er í upphafi ákaflega pirruð út í þessa konu sem ætlar að trufla rútínuna hennar, skorðurnar góðu sem lífið er í, og gera hana þannig að persónu í sögu. Hún lætur þó tilleiðast og hefst þar með ævintýri Maríu, sem er í aðra röndina kynlífsævintýri í fjölbreyttum munstrum. Og kynlífið sem tekur við kemur henni á óvart því hér hefur öllu verið snúið á haus, persónurnar eru ekki einhamar, jafnvel margar í einum kroppi. Konur verða menn, eða er það öfugt?, gamlar konur verða óléttar, það er flakkað milli kynja, kyngervis og kynhneigðar – allt með fyrrnefndum galsa en þó tregafullum undirtóni.

Ýmiss konar dularfullir atburðir setja mark sitt á söguna, sem og leynistaðir, leyniheimar, leynisambönd og hugmyndir um femínískar útópíur. Hvergi er lesandanum gert ljóst hvað er draumur og hvað er veruleiki, ímyndun eða tálsýn. Fantasían sem hér um ræðir er það sem Todorov hefði kallað ‚hreina‘ fantasíu, þ.e. það er ekki boðið upp á lausn eða skýringu á því dularfulla, það bara er þarna, um borð í ósköp venjulegum flugvélum eða uppá jöklum, oft fullt af galsa og gleði, en einnig mögulega varasamt og hættulegt.

Utan um allt þetta heldur stílfimi Steinunnar með sínu mjúka gripi. Að venju skiptast á ljóðrænir kaflar, húmor og myndræn sýn, ekki síst í náttúrulýsingunum, sem er mikilvægur þáttur bókarinnar eins og svo oft áður, og þá ekki síður náttúrupólitíkin sem liggur þar að baki. Sumir ljóðrænu kaflanna gætu staðið einir og sér þar sem sameinast ljóðskáldið og skáldsagnahöfurinn. Húmorinn má sjá í farsakenndum flækjum söguþráðarins, í fjölmörgum orðaleikjum, nýyrðasmíði, nöfnum persóna og fyrirbæra og sýn á fólk og umhverfi. Stílfimin hjá nýbökuðum handhafa verðlauna Jónasar Hallgrímssonar er ekki síst áberandi í þessu verki í lýsingum á því líkamlega og kynferðislega, sem er ekki einfalt mál eins og dæmin sanna. María afklæðist fljótlega í sögunni þegar hún fer í hammam í París og horfir á konurnar í kringum sig:

Konurnar sem eiga raddirnar í gufunni eru háar, lágar, ofangrannar og niðurþybbnar, eða öfugt, allt þar á milli, ljóshærðar, dökkhærðar mest, tvítugar, sextugar … sunnankonur í meirihluta, konur með unaðshúð – hammamgyðjur og húðdýrkendur. Snurfusaðir kroppar, ekki eitt aukahár neins staðar, ekki á fótlegg, augabrún, lærkrika, undir höndum. Skapahár snyrt og klippt í lítinn, snögghærðan þríhyrning eins og eftir reglustiku. Get ekki að því gert, mér finnst ó-náttúra í því. (27)

María verður hálf smeyk við alla þessa líkama: „Það er mikil annexía að vera vel hirtur kvenmaður, og nú er hún María mín komin á grúfu á húðslípunarbekkinn með æðahnútinn á kálfanum opinberaðan“ (30). Hún lætur sig þó hafa þetta, lætur skafa af sér dauðu húðfrumurnar svo hún endurfæðist: „Og hvað ætlar nú hamskipta konan að taka til bragðs í nýju skinni? Það er ekki aðkallandi spurning, kannski tekur konan alls ekkert til bragðs, en nógu undrandi er hún til þess að fara fingurgómum líka um bringuna, lærin, til þess að fara fingrunum laust um nýframkallaðan silkiham“ (31). María vill ekkert endilega láta leiða sig á vit nýrra ævintýra, tekur þeim þó nokkuð vel þegar á reynir og lesandinn verður ekki svikinn af því að taka sér far með henni.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2014