Beint í efni

Gælur, fælur og þvælur

Gælur, fælur og þvælur
Höfundar
Þórarinn Eldjárn,
 Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Samstarf þeirra systkina, Þórarins og Sigrúnar Eldjárn, hefur gefið af sér fjölda vinsælla og fallegra bóka þar sem fléttast saman leikur með orð og myndir. Margar þeirra eru orðnar að nútímaklassík og orðaleikir Þórarins hluti af tungumálinu. Framlag þeirra systkina til myndlýsinga og orðaleikja er sjálfsagt ómetanlegt, Þórarinn sýnir framá hversu lifandi og margrætt leikfang tungumálið getur verið og myndlýsingar Sigrúnar lifa sjálfstæðu lífi, auk þess að þáttast saman við texta og orð.

Að þessu sinni senda þau frá sér barnaljóðabókina Gælur, fælur og þvælur þar sem Þórarinn leggur upp í ferðalag um íslenska bragfræði, því ljóðin eru öll með sínum rímnahætti - utan að ferskeytlan kemur fyrir tvisvar. Viðfangsefnið er allt frá hversdagslegum fyrirbærum, fiskiflugunni og bóklestri til dæmis, til kynjahluta eins og “Ólíkindatólsins” og “Skúffanna í Jöhönnu”. Ljóðin eru létt og leikandi, oft fyndin og með vísunum í nútímafyrirbæri á borð við Fokker-flugvél í kóngulóarkvæðinu en önnur vísa til fortíðar, líkt og ljóðin um ókindina og “Jónas litla”. Þau eru sömuleiðis misjöfn að vægi, sum virka ansi léttvæg, meira eins og stílæfingar, til dæmis “Hlaupagikkurinn” og “Fuglinn söng”, en þjóna samt sínu hlutverki að gefa tilfinningu fyrir bragarháttum auk þess að geta fallið undir ‘þvælu’ hlutann í titlinum. Önnur eru bráðsnjöll og má þar nefna fyrrnefnd ljóð um bækurnar, ólíkindatólið, skúffurnar í Jöhönnu og ókindina. Einna fallegast er þó lokaljóðið, “Vökuljóð”, en þar fara saman ljúfar og kómískar tilfinningar í vögguljóði afans sem breytist í vökuljóð.

Sigrún Eldjárn myndlýsir og hannar útlit bókarinnar og skilar sínu verki afbragðsvel, allt frá forsíðunni þar sem titilorðunum þremur er gefið líf með því að setja á þau augu, blíðleg fyrir gælurnar, hvöss fyrir fælurnar og ringluð fyrir þvælurnar. Líkt og í eigin bókum og fyrri bókum sem þau hafa unnið saman þá eru myndir Sigrúnar ekki aðeins myndskreytingar heldur þjóna sjálfstæðu hlutverki, þær teikna upp helstu temu ljóðanna, ólíkindatólið, skúffukonuna, ókindina og kóngulóna, en gefa hverju fyrir sig nýjan svip; kóngulóin á átta sokka á snúru, ókindin gengur á bleikum skóm og ólíkindatólið þarf hún að finna upp frá grunni. Að auki stráir Sigrún smákvikindum á myndflötinn sem hafa það hlutverk að fylgjast með atburðum og taka þátt í þeim. Þannig lesa smádýrin í hillunum meðan börnin (eitt svart og eitt hvítt) lesa í rúminu, þau fá sér far á bakinu á skjaldbökunni og rétta kaffikerlingunni kaffi. Sigrún vísar einnig til þekktra fyrirbæra í myndum sínum, líkt og Þórarinn í ljóðunum, og fléttar myndlistasöguna fimlega inn í þar sem það á við.

Bára Grímsdóttir kveður ljóðin á geisladiski sem fylgir með bókinni og er það vel heppnuð viðbót við vel heppnaða og fallega bók.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007