Beint í efni

Garðurinn

Garðurinn
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Gerður Kristný hefur sent frá sér nokkrar barnabækur á síðustu árum, sú fyrsta var Marta smarta sem kom út árið 2002 og hlaut Bókaverðlaun barnanna það ár, verðlaun sem segja til um hvaða bækur börn á aldrinum 6 til 12 ára þykja bestar. Fleiri fylgdu svo í kjölfarið, til dæmis hin stórskemmtilega Land hinna týndu sokka (2006) ásamt smásögum í safnritum. Ein þeirra er draugasagan „Bara Sara” sem birtist í bókinni Draugurinn sem hló (2006) og nú hefur draugasaga fyrir unglinga bæst í hópinn. Garðurinn er spennandi en þó um leið fallega kyrrlát saga um hina 14 ára Eyju og fjölskyldu hennar, hér er ekki neinn gassagangur á ferðinni eða hraðsoðin atburðarás heldur kjarnast sagan í tilfinningalífi Eyju og þeirri ógnþrungnu spennu sem nær tökum á henni í kjölfar dularfullra atburða í lífi fjölskyldunnar.

Sagan hefst þegar Eyja flytur á Ljósvallagötuna með mömmu sinni og pabba og hún segir hana sjálf í fyrstu persónu frásögn. Fjölskyldan sest að í húsi sem stendur rétt við gamla kirkjugarðinn, Hólavallagarð. Eyja er að flytjast á milli hverfa og er þannig á milli vita, hún hefur sagt skilið við sinn gamla vinahóp og strákinn sem hún hélt að væri kærastinn sinn, en ekki fundið sér stað í nýja hverfinu. Henni finnst ekkert rómantískt eða heillandi við að sjá garðinn útum svefnherbergisgluggann, það vekur einungis með henni ugg, enda er hún tilfinningarík stelpa með afskaplega ríkt ímyndunarafl og fljót að setja hlutina í skáldlegan og stundum nokkuð dramatískan búning. Strax í upphafi sögunnar er sleginn tónn óhugnaðar, Eyja hugsar um alla þá sem hvíla í garðinum og ímyndar sér að þeir geti horft á sig á sama hátt og hún horfir á grafirnar þeirra. Hún reynist svo heyra hluti sem aðrir heyra ekki, til dæmis hvin frá kirkjugarðinum sem hljómar „Eins og í risastórum væng á flugi ...” (35) þegar frændi hennar heyrir ekki neitt. Spennan og óhugnaðurinn er ekki síður skapaður með slíku myndmáli en sjálfri atburðarásinni, en textinn er bæði mynd- og blæbrigðaríkur án þess þó að virka ósannfærandi úr munni hins 14 ára sögumanns. Myndmálið hæfir þvert á móti sýn unglingstúlku mjög vel og gæðir textan miklu lífi. Gerður nýtir sér einnig fíngerðar vísbendingar og kann vel þá list að segja ekki of mikið, sem á auðvitað sérlega vel við í sögu af draugalegum atburðum. Þannig nær spennan einnig tökum á lesandanum, það hvílir stöðug ógn yfir í textanum og lesandinn er alls ekki viss um hvort Eyju muni takast að ráða bug á þeim illu öflum sem ógna bókstaflega lífi hennar nánustu og hennar sjálfrar.

Draugagangurinn hverfist um gamlan stól sem foreldrar Eyju kaupa í antíkverslun þegar þau flytja í nýju íbúðina. Pabbi hennar fellur fyrir stólnum en Eyja skynjar strax í búðinni að það er eitthvað skrýtið við hann „eins og hann væri ekki venjulegt húsgagn heldur dýr í dvala” (12) og reynir árangurslaust að fá foreldrana ofan af kaupunum. Stólinn fer með þeim heim, faðirinn situr í honum löngum stundum og finnur líka í grind hans gömul bréf frá tíma spænsku veikinnar sem stúlka að nafni Halla hefur skrifað einhverjum sem er farin frá henni og hún ávarpar sem „frænda.” Eyja kemst svo að því að orðið frændi hafði víðari merkingu í þá daga, svo ekki er endilega víst að sá sem átti að fá bréfin hafi verið ættingi Höllu, hann gæti allt eins hafa verið vinur eða unnusti. Stóllinn reynist mikill örlagavaldur í lífi fjölskyldunnar, með honum berast áðurnefnd ill öfl inn á heimilið en einnig umræða um spænsku veikina sem vill svo til að er líka rannsóknarefni sagnfræðingsins á heimilinu, pabba Eyju. Í gegnum bréfin og stólinn fléttast sagan af nýju lífi Eyju í Vesturbænum árið 2008 saman við frásagnir af tímanum þegar þjóðin tókst á við þennan vágest „sem kom til Íslands á skipi eins og vond frétt fyrir níutíu árum, í nóvember 1918. Fólk fékk höfuðverk, blóðnasir, lungnabólgu og ægilegan hósta. Svo dó það.” (6) Bréfin og ekki síður stóllin, sem Eyja segir á öðrum stað að sé „eins og gerður úr myrkri”, ýta undir áhuga hennar á þessum tíma og hana fer svo að gruna, þegar pabbi hennar veikist snögglega og mjög hastarlega, að saga stólsins hafi áhrif á þá sem í hann setjast. Hún tekur að grafast fyrir um þessa sögu og endurlitið til tíma spænsku veikinnar verður einn af meginþráðum sögunnar auk sambands Eyju við strák í bláum stakk, Sölva, sem hún kynnist á förnum vegi.

Sölvi þessi er hinn dularfyllsti en verður mikill vinur Eyju og jafnvel meira til og hann hjálpar henni að leysa gátu stólsins. En hann hefur líka undarlega mikinn áhuga á gömlu bréfunum og jafnvel stundum svo að Eyja verður hálf pirruð. Gerður fléttar svo alla þessa þræði fimlega saman, draugasagan myndar ramma um frásögn sem er í senn söguleg og tekur á tilfinningalífi nútímaunglings sem glímir bæði við mjög hversdagsleg vandamál eins og að eignast nýja vini á nýjum stað, fyrstu skotin, og svo önnur sem varða líf og dauða. Fyrstu persónu frásögn Eyju virkar vel, lesandinn fylgir henni í rannsóknum hennar og vangaveltum en þó læðist að honum grunur um ýmislegt sem Eyja virðist ekki koma auga á, eða vill kannski ekki velta of mikið fyrir sér, en þetta á sérstaklega við um samband þeirra Sölva.

Nafn Eyju minnti mig strax á Eiu úr ljóði Halldórs Laxness, „Unglingurinn í skóginum.” Það er samt ekki bara nafnið sem kveikti þessi hugrenningartengsl, heldur líka samband þeirra Sölva og staðurinn sem Eyja fer á þegar hún leikur á flautuna sína, en hún spilar á þverflautu og helsta átrúnargoð hennar er flautuleikarinn Hyo-Jung Lee. Á einum stað lýsir hún þessum stað svona: „Stundum þegar ég var að spila gat ég séð mig fyrir mér allt annars staðar. Oftast var ég alein úti á fagurgrænu túni. Sólin skein á hvirfilinn á mér og gul fiðrildi sátu á sperrtum stráum.” (47) Í ljóðinu leikur Eia í sólskini útí skógi – ekki kannski á hljóðfæri, en þar hittir hún sinn ævintýravin, unglinginn sem er „skógurinn sjálfur.” Í Garðinum flytur listin Eyju á ímyndaðan stað, hún er í sögunni allt í senn græðandi afl, staður til að gleyma sjálfum sér á og einnig bjargvættur í bókstaflegum skilningi því flautan og tónlistin koma verulega við sögu við lausn gátunnar. Og þessi staður tengir Eyju svo einnig sterkt við Sölva, en það myndi kannski skemma lesturinn að segja of mikið um þá tengingu hér svo ég læt það vera.

Garðurinn er skemmtileg og áhugaverð saga fyrir stálpaða krakka og unglinga, hún heldur manni vel við efnið á meðan lestrinum stendur en situr einnig í huganum að honum loknum og vekur forvitni um tíma sem geta virst okkur fjarri, en koma ef til vill aftur upp í hugann núna á nýjum krepputíma í sögu þjóðarinnar, þótt af allt öðrum toga sé.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2008