Beint í efni

Gott kvöld / Mamma er best / Romsubókin

Gott kvöld / Mamma er best / Romsubókin
Höfundur
Áslaug Jónsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Gott kvöld / Mamma er best / Romsubókin
Höfundur
Björk Bjarkadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Gott kvöld / Mamma er best / Romsubókin
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þegar ég les Kalvin og Hobbes myndasögurnar verður mér oft hugsað til umræðu um ímyndunarafl - sérstaklega barna. Kalvin lifir að hluta til í eigin heimi, en þar er tuskutígurinn Hobbes raunveruleg persóna og risaeðlur ráðast á leikvöllinn og borða börn. Einn nemandi minn benti nýlega á í lokaritgerð sinni að þessháttar fantasíulíf þætti tilheyra bernsku en væri hinsvegar orðið óviðeigandi þegar aldurinn færðist yfir; þá er það dæmi um geðveilu eða fortíðarþrá. Hún vildi hinsvegar meina að það væru ímyndaðir heimar bernskunnar sem eignuðust endurnýjað líf í myndlist, hennar og annarra. Þetta finnst mér falleg hugmynd og mikilvæg áminning um hlut lista og mynda í daglegu lífi - og sérstaklega í tengslum við texta. Mig undrar alltaf jafnmikið sú hugmynd sem oft heyrist að myndlýsingar við skáldverk drepi niður ímyndunaraflið, ekki síst í því ljósi að myndlistamenn halda því síðan fram að texti með listaverki hafi sömu áhrif. Þetta er undarleg hugmynd, því ritað mál og mynd eru gerólík form og geta aldrei komið í stað hvors annars, hinsvegar geta myndir við texta gefið nýja sýn á hann, líkt og texti með myndum opnar innsýn í listaverk. Þetta samspil mynda og texta er auðvitað það sem myndasagan gengur útá og hefur gert í meira en öld. Í hvorugu tilfellinu fær ímyndunaraflið fjötur um fót, þvert á móti, þá auðgast það til muna. Vissulega er það mikilvægur hluti bóklesturs að ‘sjá’ fyrir sér persónur og atburði, en voðalega er það samt heillandi þegar einhverjar myndir fylgja með sem gefa óvænta innsýn inn í heim skáldverksins. Í fullorðinsbókum eru það helst kápumyndir sem þjóna þessu hlutverki og ber að þakka sérstaklega fyrir þær miklu framfarir sem orðið hafa í kápuhönnun á undanförnum árum.

En nóg um það, þetta eru bara hugleiðingar í tengslum við nokkrar barnabækur sem ég hef verið að lesa um helgina, bækur sem allar eru ríkulega myndlýstar. Hér munu þrjár þeirra verða til umræðu, síðan fylgir önnur umsögn um tvær að auki.

Áslaug Jónsdóttir hefur tvívegis hlotið Dimmalimm verðlaunin fyrir myndlýsingar sínar, en hún er einnig rithöfundur. Bókin Gott kvöld (Mál og menning, 2005) er saga um lítinn dreng sem er skilinn einn eftir heima, eina kvöldstund. Á meðan hann bíður eftir foreldrunum á hann að passa bangsann sinn, sem ekki veitir af, því bangsinn reynist afar banginn við þessa einveru og óttast mjög innrás allskonar óvætta. En stráksi ákveður bara að slá upp veislu og bjóða vandræðagemsunum til borðs og friðar með því bangsahjartað. Og svo koma þau hvert af öðru, hungurvofan, fýlupokinn, hræðslupúkinn og óþekktarormarnir, sem allir taka á sig bókstaflegt form í teikningum Áslaugar, leiðindaskjóðan er taska, vælukjóinn er maður með fuglshöfuð og óþekktarormarnir eru hvasseygir litglaðir ormar. Að vanda búa teikningar Áslaugar yfir undarlegu samblandi mýktar og þunga, hún leikur sér með að hafa myndflötinn á hæfilegri hreyfingu og nýtir bókina alla, en sagan hefst og endar innan á kápunni. Hér er einmitt verið að fjalla um ímyndunaraflið, sem í þessu tilviki þjónar svona líka hentugu hlutverki. Efni og myndir haldast fullkomlega í hendur, myndirnar lífga textann og textinn leikur við myndirnar. Kalvin hefði orðið stoltur.

Björk Bjarkadóttir sendi í fyrra frá sér bókina um Ömmu og þjófinn í safninu, en þar sagði frá ofurömmunni sem fer um á nóttunni og hefur hendur í hári ræningja og þjófa. Saga Bjarkar þetta árið er öllu einfaldari, en Mamma er best (Mál og menning, 2005) segir frá því að Tommi litli verður fyrir því að komast ekki lengur fyrir í fangi mömmu, því þar er komin kúla. Honum líst þunglega á ástandið og lítur í kringum sig eftir mögulegum staðgenglum, en í ljós kemur að tígrismamma, mörgæsamamma og fiskamamma henta allar jafnilla. Eins og áður segir er sagan mjög einföld og minnir nokkuð á litlu bókina um moldvörpuna og kúkinn, en þar ferðumst við einnig um dýraríkið. Hinsvegar gera myndirnar afarmikið fyrir þessa litlu sögu, myndir Bjarkar eru skemmtilega barnslegar í dálítið ferköntuðum og hífuðum stíl og hinar ólíku dýramömmur sem eru tilbúnar að taka Tomma í fóstur eru bæði fallegar og áhugasamar um þetta skrýtna dýr - og allar með gasalega fín og löng augnhár, þó aðeins sumar beri handtösku.

Romsubók (Dimma, 2005) Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar með myndlýsingum Höllu Sólveigar Þorgeirsdóttur er efnismesta bókin af þessum, en romsurnar eru bæði langar og margar. Þó sýnist mér að bókin sé frekar ætluð yngri lesendum, þó líklega gangi hún fyrir allan aldur! Romsur Aðalsteins eru rímaðar og stuðlaðar og margar afarskemmtilegar, þó ekki ráðleggi ég neinum að lesa þær allar í einu. Sumar eru léttgeggjaðar og í ‘bull’ stíl, aðrar öllu alvarlegri, ef svo má segja. Af þessum skemmti bullið mér betur, en sumar romsurnar hefði að ósekju mátt stytta. Ég heillaðist sérstaklega af “Sérfræðingaromsunni”, þar sem talin eru upp hin undarlegustu fræði, “Mýrarkattarromsan” segir litla sögu af ævintýrum mýrarkattarins, sem gladdi mig líka mikið, en þó held ég að “Ruslakompuromsan” hafi slegið mest í gegn hjá mér, en þar eru taldir upp allir þeir aðskiljanlegu hlutir sem detta í höfuð þeirra sem villast á slíka undrastaði. Halla Sólveig fer þá leið að skapa romsunum graffítí yfirbragð, væntanlega með tilvísun til rapparamenningar og endurnýjaðra vinsælda og nýs forms rímnakveðskapar. Inní þetta fléttar hún svo myndir og form sem vísa til efnisins, fólksfjöldi í “Mannanafnaromsu”, köttur í “Mýrarkattarromsu” og draugar í “Draugaromsu”. Yfirbragðið er með grófkenndri áferð, líkt og mynd á sjónvarpsskjá eða einskonar þrykk. Myndirnar gera mikið fyrir romsurnar sem annars gætu auðveldlega orðið dálítið harðar undir tönn, en romsurnar eru settar upp í stíl við myndirnar, með tilheyrandi leturgerða- og litaleik. Allt er þetta afskaplega skemmtilega gert og bókin hreinlega iðar af lífi.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2005