Beint í efni

Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást

Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást
Höfundur
Ingunn Snædal
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hún lætur ekki mikið yfir sér, ljóðabók Ingunnar Snædal, þó hún beri hinn afarlanga titil, Guðlausir menn: hugleiðingar um jökulvatn og ást. Í raun inniheldur bókin bara eitt ljóð, auk inngangs, en það er ljóðið “dauði, ferðalag og játning”. Þetta ljóð er einskonar sjálfsævisaga, jafnframt því að vera ferðasaga, ljóðmælandi er á ferð yfir landið í jarðarför ömmu sinnar, í bílnum með henni eru systkini hennar. Og hún rifjar upp æskuminningar með afa sínum og ömmu, jafnframt því að velta fyrir sér nútíma systkina sinna. Inn í þetta langa ljóð koma svo stök ljóð, einskonar stef, sms ástarljóð og hugleiðing um fréttir, ættingja, sveitunga. Þannig séð er þetta allt mjög kunnuglegt, ferðaminnið er klassískt ljóðatema, sömuleiðis ástin, náttúran, æskuminningar; hér er meira að segja ljósmyndaljóð sem virðast vera sérlega nærtækt skáldkonum (minnti mig á ofurfalleg ljósmyndaljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur og Þóru Jónsdóttur).

En með þessu er ekki allt sagt, enda ljóðið alltaf dáldið víðsjárvert fyrirbæri. Inní þessu látleysi, þessum kunnuglegum stefjum býr eitthvað dásamlegt sem Ingunni tekst að galdra fram, hægt og hægt teiknast upp heill heimur af hreyfingu, myndum, lykt og hljóðum. Dæmi um lágstemmda en þó einhvernveginn eftirminnilega mynd er í ljóði XVII, ljóðmælandi er “andskotans alltaf” að hugsa um ástvinu sína og óskar þess að hún “gæti hvílt í þeirri tilfinningu / eins og í hengirúmi / örugg og glöð // ég er mjög glöð í hengirúmum”. Hér færumst við frá tilfinningu fyrir óþoli yfir í tilfinningu fyrir öryggi, sem er tengd einhverri líkamlegri upplifun og stöðu, því að liggja í hengirúmi, og endum svo þar, í hengirúminu.

Bygging bókarinnar er einstaklega vel unnin, inngangsljóðið um það að vera í öngum sínum gefur tóninn fyrir það hárfína jafnvægi húmors og trega sem einkennir ljóðin, en þar blotnar ljóðmælandi í fæturna, því hún vill ekki taka á sig krók og stikla á steinunum: “þegar maður er í öngum sínum og veður beint af augum er hallærislegt að taka á sig krók. Svolítið eins og maður sé ekki í nógu miklum öngum.” Og svo heldur músíkin bókstaflega áfram í diskum sem eru spilaðir í bílnum, Radiohead, Ensími, Sigur Rós. Það að leggja bókina upp sem ljóðabálk og stinga svo inní hann stefjum eða stökum ljóðum virkar einstaklega vel, mun betur heldur en ef langa ljóðið hefði staðið sér og stöku ljóðin saman, þetta ýtir undir þann takt og flæði sem drífur bókina áfram. Eina feilnótan sem ég fann voru óþarflega klisjaðar vangaveltur útfrá fréttum, þó fréttaljóðið sjálft væri byggt inn í bálkinn á flottan hátt.

Í Lesbók Morgunblaðsins (28. okt. 2006) lýsir rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl því hvernig hann hafi alist upp við það viðhorf að ljóðið sé dautt: “Alla mína ævi hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að ljóðið sé dautt, meira að segja þegar fjálglega er lýst yfir lífi þess, er forsendan þessi dauði: Ljóðið er aldrei einfaldlega lifandi, það er “ekki dautt”.” Ég hef sem betur fer ekki lifað alla mína tíð við svo voðalega vosbúð, en hinsvegar fylgst undrandi með því hvernig umræðan undanfarinn áratug eða rúmlega það, hefur fest sig í einmitt þessum hjólförum. Þetta hefur komið mér afskaplega mikið á óvart, því mér finnst ég alltaf vera gersamlega að drukkna í góðum ljóðum, ljóðum og ljóðabókum sem ég hef stöðugt samviskubit yfir að gera ekki nóg skil í lestri og skrifum. Þó hef ég sjálfsagt gerst sek í eigin umfjöllunum að mótmæla á þessum dauðaforsendum, og lýsa ljóðið “ekki dautt” í stað þess að glamra um að það sé barasta sprelllifandi. En nú er tækifærið komið uppí hendurnar á mér, hér er ljóðabók sem er svo sannarlega lifandi, þrátt fyrir að útgangspunkturinn sé einmitt dauði. Ljóð Ingunnar Snædal eru í tærleik sínum bæði aðgengileg og áhrifamikil og ættu að laða að lesendur sem annars fælast ljóð vegna meintra flækjufóta þeirra (‘ég skil ekki ljóð’ viðhorfið er einfaldlega ekki hægt hér). Þetta er bók sem býður uppá hvorttveggja, að vaða beint af augum og að taka á sig krók(a), en umfram allt þó að geta, hvort sem er í öngum eða ekki, upplifað gleði í hengirúmum.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2006