Beint í efni

Hálmstráin og Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu

Hálmstráin og Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu
Höfundur
Magnús Sigurðsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Smásögur
Hálmstráin og Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu
Höfundur
Magnús Sigurðsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2008
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Magnús Sigurðsson er nýr rithöfundur sem hefur feril sinn með stæl og sendir frá sér tvær bækur samtímis, ljóðabókina Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu og smásagnasafnið Hálmstráin. Á síðasta ári gaf hann út þýðingar sínar á ljóðum Ezra Pound og það er greinilegt af þessum tveimur bókum að hann er undir miklum áhrifum frá því sérstæða skáldi. Hér er verið að vinna með mörk skáldskaparins, landamærin sem greina þýðingar frá frumsömdum verkum, sjálfsævisögulegar frásagnir frá skálduðum.

Þetta er sérstaklega áberandi í ljóðabókinni en hún hefst á þýðingum úr kvæðum Katúllusar, sem var rómverskt skáld og orti ástarljóð til konu sem hann nefndi Lesbíu. Seinna í bókinni eru lokaorð Finnegans Wake eftir James Joyce fótnótuð nákvæmlega og í bókarlok er að finna kafla úr Eneasarkviðu eftir Virgil. Það er því ljóst að Magnús er að kallast á við hina módernísku hefð sem gerði mikið úr tilvísunum í klassísk skáld (í leiðinni er ágætt að rifja upp að póstmódernisminn situr ekki einn að kjötkötlum bókmenntalegra textatengsla, módernistarnir iðkuðu slíkar af kappi). En það eru ekki einu skáldin sem birtast í textum Magnúsar, Ísak Harðarson á ljóð sem er í anda hans fyrstu ljóða og svo mætti sjálfsagt lengi telja.

Og svo inniheldur bókin einnig allskonar ljóð, ‘venjuleg’ ljóð um afa og ánamaðka sem skapa mikilvægt mótvægi við hinn klassíska farangur í einfaldleika sínum. Í heild er í bókinni sögð einskonar ástarsaga, römmuð inn af ljóðum Katúllusar (sem enda á aðskilnaði og þrá eftir að læknast af ástarsorg) og álögum ástarinnar sem Dídó leggur á Eneas þegar hann yfirgefur hana. Um leið er fjallað um önnur sambönd, eins og við afann fyrrnefndan, pabba og barn - og önnur skáld.

Ég ætla mér ekki að leggja mat á þýðingar Magnúsar eða Joyce-fræði hans en geri þó ráð fyrir að hinar fyrrnefndu séu hæfilega frjálslegar en hinar síðarnefndu síður; það sem vekur athygli hér er, eins og áður segir, vinnan með landamæri hins frumsamda. Þannig skapast í bókinni áhugaverð samræða milli fjölmargra heima, hins klassíska, sem oft virkar upphafinn og fjarlægur, en er hér gerður nærtækur, hins móderníska, sem sömuleiðis hefur fengið á sig yfirbragð hins fjarræna, og loks heimur hversdagsleikans, ástar og ánamaðka, jarðbundinn heimur gróðurhúss föðurins og ævi afans. Þessir heimar fléttast saman í krafti skáldskaparins sem einnig er gegnumgangandi þema bókarinnar.

Sum ljóðanna í Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu kallast svo á við sumar smásagnanna í Hálmstráunum. Þar er einnig unnið með skáldskaparleg landamæri, að þessu sinni þau sem marka skil uppspuna og staðreynda - smásögu og minningabrota eða sjálfsævisögulegra kafla. Upplausn þessara marka er öllu kunnuglegri en sú skörun sem Magnús vinnur með í ljóðunum og smásögurnar eru jafnframt veikari. Reyndar fannst mér eins og niðurstaðan af lestrinum væri hvorki fugl né fiskur, öfugt við ljóðin sem skilja eftir í huganum dálítið skemmtilegt bragð af framandi heimum skáldskapar og skáldlegra leikja, þá eru smásögurnar bragðlitlar.

Hér er einnig sagt frá ástum og sorgum og skáldum og bókum - og bókasöfnum, en þær sögur hlýjuðu bókaverjunni hvað mest um hjartað. Sagan “Verkframkvæmdir” sem lýsir baráttu smiðs við vatnsbólginn þröskuld á litlu héraðsbókasafni og undarlegum draumi sem hann dreymir hefur alla burði til að vera mjög fín lítil frásögn, en einhvernveginn vantar herslumuninn á að hún komist verulega á flug. “Greniveröld”, saga af jólatréssögu býr einnig yfir miklum möguleikum og skapar í fyrsta hlutanum verulega fallega stemningu jóla, trjáa og gamaldags gilda viðskipta (sem vel má rifja upp á þessum tímum siðleysis), en rennur síðan dálítið út í sandinn.

Sumar sagnanna (og reyndar líka sum ljóðanna í Fiðrildi) gerast í Barcelona og er Hálmstráin því þriðja íslenska bókin þetta haustið sem gerist í þessari fallegu borg. Hinar eru Rán Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og Vetrarsól Auðar Jónsdóttur og það er eftirtektarvert að allar lýsa þessar sögur gerólíkri sýn á þessa borg undranna.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008