Beint í efni

Heilandi heimsferðir

Heilandi heimsferðir
Höfundur
Ása Marin
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Heilandi heimsferðir

Þó útgefin verk Ásu Marinar fyrir almennan markað séu ekki ýkja mörg hefur hún markað sér skýra sérstöðu. Þrjár af sex bókum hennar, Vegur vindsins – Buen Camino (2015), Yfir hálfan hnöttinn (2021) og Elsku sólir (2022), eru í sama forminu: ungar konur í einhverskonar krísu eða í það minnsta á krossgötum í lífinu, leggja land undir fót. Heilandi áhrif ferðalaga á framandi slóðir er eitt af grunnstefunum, persónurnar kynnast siðum, sögu, menningu og síðast en ekki síst matreiðslu áfangastaðanna.

Dramatísk átök eða óvæntir „ferðatengdir“ erfiðleikar eru ekki í forgrunni, heldur renna frásagnirnar mjúklega áfram og smám saman skýrist fyrir aðalpersónunum hvernig tökum þær ættu að taka viðfangsefnin heima, um leið og þær ná meiri þroska. Í síðari bókunum tveimur er viðauki með mataruppskriftum og hvatningar til að skrifa niður sínar eigin ferðaminningar og -drauma, sem ýtir enn undir sérstöðuna og hvetur lesandann til annarskonar afstöðu til bókanna en til hefðbundinna fagurbókmenntatexta.  Þær skulu skoðaðast sem „skáldaðar ferðasögur“, eins og segir í káputexta Yfir hálfan hnöttinn. Ása Marin hefur einnig sent frá sér töluvert af kennslu- og léttlestrarbókum, þar sem „verkefni“ á borð við þau sem finna má í viðauka skálduðu ferðasagnanna, eru vitaskuld alvanaleg. Sá hluti höfundarverksins er ekki undir í þessu yfirliti.

Vegur vindsins – Buen Camino, Yfir hálfan hnöttinn og Elsku sólir fylgja nokkurnvegin sama forminu á þremur ólíkum áfangastöðum: Norður-Spáni, Víetnam og Andalúsíu. Ungar konur leggja í ferðalög, drifnar áfram af áföllum, og kynnast á ferðum sínum nýjum stöðum og menningu, fræðast lítillega um sögu og njóta lífsins, matar og drykkjar. Hitta fólk sem hefur áhrif á líðan þeirra og hugsanir, gefa jafnvel góð ráð í glímunni við áskoranir lífsins. Fyrir áhrif áfangastaðarins og samferðafólksins verða þær nokkurs vísari um sjálfar sig, vaxa og þroskast.

Sjálfsleit og þroski eru einmitt útkoman úr ferðalagi hálfsystranna Sunnu og Ársólar í Elsku sólir, en titillinn vísar í nöfnin þeirra, og þannig ávarpar Haddý móðir þeirra þær í bréfum sem drífa atburðarásina áfram.

Haddý hefur verið búsett um árabil í Andalúsíu, í stopulu sambandi við Ársól og engum tengslum við Sunnu, þá eldri. Sunna er gift kona, vel stæð með eitt barn, en Ársól á erfitt með að móta lífi sínu stefnu, er að vinna á kaffihúsi og gerir tilraunir til að hasla sér völl sem áhrifavaldur, að því virðist með slökum árangri.

En nú berst Ársól bréf þar sem Haddý segist liggja fyrir dauðanum og biður þær að koma til sín til að kveðja. Sunna er mjög treg til, en á endanum fær Ársól hana til að koma með sér, og að auki Barböru, gamla vinkonu móður þeirra, sem sjálf hefur ekki verið í sambandi við Haddý lengi.

Fljótlega kemur í ljós að eitthvað annað hangir á spýtunni en kveðjustund við sjúkrabeð. Skilaboð frá Haddý leiða stúlkurnar vítt og breytt um helstu ferðamannastaði Andalúsíu og ferðafrásögnin hefst, í sama stíl og í fyrri bókum Ásu Marinar af sama tagi.

En jafnframt afhjúpast ýmis fjölskylduleyndarmál. Sunna er lengi að sætta sig við ratleikinn sem mamma hennar hefur lagt fyrir þær, en undir lokin kemur í ljós að hann er kannski fyrst og fremst henni ætlaður. Haddý er dáin fyrir nokkru, og ferðinni lýkur hjá Fede, heimamanni sem reynist vera faðir Sunnu og hefur haldið utan um afhendingu bréfanna sem leiðir þær stöllur áfram.

Annað sem afhjúpast er að vinslit Haddýjar og Barböru stöfuðu af því að Orri, eiginmaður Haddýjar og faðir Ársólar, var stóra ástin í lífi Barböru. Að vinkona hennar hafi „stolið“ honum var of mikið til að fyrirgefa, þangað til að þessari ferð um sólbakaða sögu- og sælustaði á Suður-Spáni er lokið, að Barbara nær að sættast við sína látnu fyrrum lagskonu. Systurnar eru líka orðnar mun nánari en áður og hin stefnulausa Ársól hefur ákveðið að hefja ljósmyndanám, jafnvel á Spáni, í skjóli Fede og fjölskyldu hans.

Barbara fann frið í hjartanu í fyrsta sinn í mörg ár. Fortíðin var að baki og hún gat skilið hana eftir þar. Hún dró andann djúpt og áður en hún stóð up til að skoða sig um í bænum leit hún aftur á systurnar, líkt og til að fullvissa sig um að það yrði allt í lagi með þær. Undir brennheitri Spánarsólinni flatmöguðu sólir Haddýjar sem Barböru fannst hún nú eiga heilmikið í. (253)

Verk Ásu Marinar eru ekki það sem oft er kallað „þungavigtarbókmenntir“. Það er léttleiki yfir þeim, skemmtigildið í forgrunni, að viðbættri löngun til að fræða lesendur um fjarlæga staði og æsa upp í þeim útþrána. Viðfangsefnin sem aðalpersónurnar glíma við: tilfinningaleg skipbrot, fjölskylduleyndarmál og erfiðleikar í æsku, banvænir sjúkdómar, jafnvel siðblinda og ofbeldi, eru vitaskuld grafalvarleg, en yfirskyggja aldrei annað og léttara frásagnarefni.

Með ferðasögum sínum hefur hún fundið forvitnilegan farveg fyrir rithöfundarneistann, þó hálfgildingskrimminn Og aftur deyr hún sýni að hún gæti valið að halda í fleiri áttir. Allt mun það koma í ljós eftir því sem ferð hennar vindur fram á höfundabrautinni.
 

Þorgeir Tryggvason, nóvember 2022


Þessi umsögn er hluti af stærri yfirlitsgrein um verk Ásu Marin, sem finna má hér á bókmenntavefnum