Beint í efni

Herra Bóbó, Amelía og Ættbrókin

Herra Bóbó, Amelía og Ættbrókin
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þeir sem hafa deilt híbýlum sínum með heimilisketti hafa eflaust velt því fyrir sér á einhverjum tímapunkti hvað vakir fyrir þessum leyndardómsfullu dýrum. Kettir eru nefnilega ekki allir þar sem þeir eru séðir og þó þeir virki oft yfirvegaðir og svolítið yfirlætislegir geta þeir verið bæði furðulegir og fyndnir á köflum. Í Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin fáum við innsýn í hugmyndir heimiliskattarins Herra Bóbó um lífið og tilveruna og fylgjumst með tilraunum hans til að vinna ástir læðu nokkurrar sem flytur í næsta hús við hann. Bókin er myndskreytt og afar læsileg með þægilegri leturstærð og góðu línubili. Hún hentar vel fyrir lesendur á grunnskólaaldri, en líka fyrir allt áhugafólk um tilfinningalíf og heimspekilegar pælingar katta, sem eru þó nokkuð skondnar í tilfelli Herra Bóbó.

Herra Bóbó er kostulegur karakter, sem heitir að eigin sögn alls ekki Herra Bóbó heldur Loðvík Eðvarð Árelíus Karlamagnús Sesar Ramses sjötugasti og sjöundi, eða kannski var það Tíberíus Friðrik Loðvík Tútankhamon Gerónímó Alexander hundraðasti og sautjándi? Eitthvað í þá áttina alla vega, hann man það ekki alveg nákvæmlega. Hann er hins vegar konungborinn og er skyldur tveimur faraóum og einu ljóðskáldi, hvorki meira né minna. Mannfjölskyldan hans kallar hann samt Herra Bóbó, sem honum finnst frekar óviðeigandi fyrir svo merkilegan kött.

Í húsið við hliðina á Herra Bóbó er nýlega flutt fallegasta kisa sem hann hefur augum litið. Hann verður ástfanginn við fyrstu sýn og einsetur sér að kynnast þessari fögru kisu betur, en það reynist þrautin þyngri. Mannfjölskyldan hans er sífellt að þvælast fyrir og láta hann líta illa út. Þau virðast alltaf vera að koma honum í fáránlegar aðstæður sem fallega kisan, Bella, verður einhvern veginn alltaf vitni að, til dæmis þegar dóttirin í fjölskyldunni límir á hann jólasveinahúfu fyrir myndatöku. Húfan næst ekki af í margar vikur og Herra Bóbó þarf að þola að vera einstaklega hallærislegur á meðan. Bellu finnst Herra Bóbó ekki merkilegur pappír því hún er hreinræktuð angóralæða með ættbók, á meðan hann er bara venjulegur heimilisköttur. Herra Bóbó er reyndar í fyrstu ekki alveg viss um hvað ættbók er en þegar músin Amelía, sem hefur tekið upp búsetu í kjallaranum hjá fjölskyldu Herra Bóbó, útskýrir málið fyrir honum ákveður hann að reyna að verða sér úti um slíkt plagg. Þau félagarnir fá frænda Amelíu, sem býr í gæludýrabúðinni Voff & Mjá til að útbúa ættbók svo hann geti farið með hana til Bellu og sannfært hana um að hann sé jafn merkilegur og hún.

Herra Bóbó þarf að yfirvinna ýmsar hindranir til að nálgast ættbókina. Hann þarf að finna gæludýrabúðina þar sem músarfrændinn býr, muna að sækja ættbókina á réttum tíma þegar hann er búinn að panta hana hjá frændanum, lifa af megrun sem mannfjölskyldan hans setur hann í því þeim finnst hann éta of mikið (hann er ósammála) og komast óskaddaður í gegnum afmælisveislu Maríu, sem hefur ákveðið að hafa smáhundaþema með alvöru hundum í veislunni. Hræðileg hugmynd finnst Herra Bóbó, eins og gefur að skilja.

Sagan er sögð í fyrstu persónu frásögn Herra Bóbó, sem er ekkert sérlega áreiðanlegur sögumaður. Veröldin er alfarið sýnd frá sjónarhorni hans og lesandinn fær eingöngu að sjá aðrar persónur með hans augum en skoðanir hans og hugmyndir eru ekki endilega í samræmi við það sem mannfólk upplifir alla jafna, nema síður sé. Hann er auk þess mjög upptekinn af ágæti katta og hefur ekki mikið álit á öðrum, en það á ekki síst við um mannfjölskylduna hans:

Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir að fæðast sem kettir.
Eins og ég.
Mannfjölskyldan mín til dæmis. Það verður seint sagt að þau hafi unnið í happdrætti lífsins.
Þau eru fjögur: Elskan, Ástin, María og Jónatan. Eftirnafn þeirra er Mín, nema Jónatans, það er Minn. Ástin Mín, Elskan Mín, María Mín og Jónatan Minn.
Pabbinn heitir Elskan og hann er lögga. Mamman heitir Ástin og hún vinnur hjá bænum við eitthvað sem er trúlega tilgangslaust, enda hefur það ekkert með ketti að gera. María og Jónatan eru börnin þeirra. (8)

Honum finnst flest við fjölskylduna frekar glatað, þau ættu til dæmis frekar að starfa við eitthvað gagnlegt eins og að vera sjómenn sem koma með fisk heim til hans, eða vera hundafangarar. Börnin eru líka alveg vita gagnslaus að hans mati þar sem þau eru bæði atvinnulaus, 7 og 12 ára og ennþá í skóla. Hvað Maríu varðar telur hann það reyndar sennilega vera fyrir bestu því hún fær oft frekar brjálæðislegar hugmyndir, sem hann er oftar en ekki óviljugur þátttakandi í og sem enda yfirleitt ekki vel.

Herra Bóbó leggur töluvert á sig til að fá ættbókina, en þegar hann er loksins kominn með hana og er boðið yfir í garðinn til Bellu áttar hann sig á því að kannski var stóra ástin í lífi hans byggð á misskilningi:

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Hvað hefur einn blaðsnepill að segja? Ég geri mér alveg grein fyrir hvers vegna ættbók er mikilvæg. Margir þykjast vera kettir svo kettir þurfa blað sem segir að þeir séu raunverulegir kettir. Ekki þykjustukettir sem reyna að blekkja aðra, eins og urðarkettir, hlaupakettir, hreysiskettir, Kött Grá Pje og verstu bragðarefirnir af þeim öllum: apakettir. (129)

Í öllu þessu fári hefur hann nefnilega ekki áttað sig á því að Amelía er stórfín vinkona en hann á aftur á móti, þegar öllu er á botninn hvolft, eiginlega ekkert sameiginlegt með Bellu. Á endanum ákveður hann að gefa Bellu upp á bátinn og velja vináttuna við Amelíu, og Herra Bóbó er sko ekki hafinn yfir það að biðja vinkonu sína fyrirgefningar á því að hafa látið eins og vinátta þeirra væri eitthvað aukaatriði.

Húmorinn er gegnum gangandi í sögunni og lýsingar Herra Bóbó á sjálfum sér og fjölskyldunni sinni, sagðar með svolítið yfirlætislegum tón hins konungsborna heimiliskattar eru hreint stórkostlegar. Tilraunir hans til að vinna ástir Bellu og kjánalegar aðstæður sem hann lendir í með aðstoð Maríu og stundum Jónatans eru líka afskaplega fyndnar. Inn á milli má líka greina grín fyrir fullorðinn lesanda, svo sem þegar Herra Bóbó býður Amelíu að horfa með sér á Konung ljónanna (en ekki hvað) á meðan fjölskyldan er úti. Honum gengur illa að stjórna fjarstýringunni þó hann hafi oft séð fjölskylduna gera það og telji sig alveg ráða við það eins og þau:

„Kannski er þetta vegna þess að þú ert sérfræðingur í að horfa á fólk nota fjarstýringu,“ segir Amelía. „Kannski þarf maður að vera öðruvísi sérfræðingur til að nota hana. Það er til svo mikið af sérfræðingum að maður getur orðið alveg ruglaður.“ (134)

Amelía hefur allt aðra sýn á hlutina en Herra Bóbó og hittir oft naglann á höfuðið, eins og sjá má, en hún talar bara svo hratt að Herra Bóbó nær ekki alltaf að fylgja henni.

Á nánast hverri opnu má sjá einfaldar myndir í hálfgerðum myndasögustíl, á spássíum eða hálf felldar inn í textann. Myndirnar eru algerlega í takt við léttan og gamansaman tón sögunnar og bæði undirstrika og auka við húmorinn, sérstaklega þegar þær færa í mynd ýmsar hugsanir og hugmyndir Herra Bóbó, svo sem yfirlýsingu hans um að kettir séu betri klifrarar en öll önnur dýr. Þá má sjá Herra Bóbó sjálfan spássera með yfirlætislegan svip á trjágrein á meðan kind, sem augljóslega kann ekki að klifra eins vel og hann, hangir úr sömu grein. Brostið hjarta herra Bóbó sem hann finnur hringla í brjóstkassanum eftir að Bella lítur ekki við honum er annað slíkt dæmi, og óþarflega hlykkjótt leið í gæludýrabúðina sem Herra Bóbó er alveg sannfærður um að sé eina leiðin sem vit er í.

Eftir þetta leiðindaár er alveg nauðsynlegt að hlæja duglega og það má svo sannarlega gera með Herra Bóbó. Sagan er bráðfyndin og fjörug, full af skemmtilegum persónum og skrautlegum uppákomum. Herra Bóbó er afar kattarlegur köttur, ef svo mætti að orði komast og á reyndar þó nokkuð sameiginlegt með öðrum bókmenntaketti, bröndótta kettinum úr Kötturinn sem átti milljón líf eftir Yoko Sano. Báðir eru þeir algerlega sannfærðir um eigið ágæti og yfirburði sína yfir mannfólki, báðir reyna að ganga í augun á fallegri hvítri kisu og báðir þurfa að reka sig á til að átta sig á því sem máli skiptir í lífinu. Bröndótti kötturinn lærir á endanum að hætta að stæra sig af afrekum sínum og að elska einhvern meira en sjálfan sig og í raun má segja að konungborni heimiliskötturinn Herra Bóbó sé í svipuðum sporum. Hann kemst að því að það sem mestu máli skiptir er að vera vinur vina sinna og njóta lífsins saman, óháð öllum ættbókum og öðrum tilganglausum tilbúningi.


María Bjarkadóttir, desember 2020