Beint í efni

Hestvík

Hestvík
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Nýlega sat ég rithöfundaþing og hlýddi á prófessor í bókmenntafræði spjalla við höfund sem kalla mætti þungavigtarmann í íslenskum samtímabókmenntum. Umræðuefnið var hrollvekjan. Prófessorinn lýsti því hvernig hrollvekjan hefði verið álitin lægst allra bókmenntagreina og ómerkilegust, en þrátt fyrir það, og kannski einmitt þess vegna, hafði hún veitt þungavigtarhöfundinum botnlausan innblástur og hugmyndir um hvernig mætti breyta mögulegu söguefni í góða skáldsögu. Höfundurinn vildi meina að b-myndirnar og reyfararnir hefðu verið búnir að kortleggja dulda óra mannsins löngu áður en höfundar fagurbókmennta hófu að takast á við það viðfangsefni. Þá hefur frásagnartækni hrollvekjunnar komið mörgum skáldsagnahöfundum að góðu gagni og oft hleypt fersku blóði í allt að því staðnaðar bókmenntir.

Þessar vangaveltur um tengingar skáldsögunnar við hrollvekjuna komu upp í hugann við lesturinn á nýjustu skáldsögu Gerðar Kristnýjar sem kom út á dögunum og ber titilinn Hestvík. Sagan gengur aldrei svo langt að vera blátt áfram hrollvekja, heldur leikur höfundur sér með einkenni formsins og eiginleika þess til að skapa fantagóða og spennandi sögu um atburð sem lesendur kannast við úr samtímasögu þjóðarinnar. Hestvík kemur ef til vill óþægilega við lesandann á köflum en hún gengur aldrei fram af honum, heldur kitlar og kemur í veg fyrir að hann leggi bókina frá sér fyrr enn að lestri loknum. 

Sagan segir af Elínu sem fer ásamt tólf ára syni sínum í sumarbústað foreldra sinna sem staðsettur er í Hestvík á Þingvöllum. Þangað hefur hún ekki komið í fjölda ára eða síðan hún var unglingur og naut sveitasælunnar í samvistum við foreldra sína. Nú eru þau bæði fallin frá og ætlunin er að undirbúa bústaðinn fyrir sölu, ná í veðurdagbækur móðurinnar og fleiri gripi sem varðveita minningar um foreldrana og minna á bjarta tíma barnæskunnar. Strax í upphafi, og þegar mæðginin nálgast bústaðinn, aka þau framhjá rútuslysi á Þingvallarvegi sem gefur heldur ófögur fyrirheit um framhaldið. Þá fá lesendur einnig að vita að Elín stríðir við veikindi sem munu vafalaust hafa sín áhrif á frásögnina.  

Sagan fer rólega af stað og höfundur lýsir vel kyrrðinni sem fylgir því að dvelja í sveitasælu sumarbústaðarlandsins fjarri annríki borgarinnar. Minningar Elínar um dvöl með foreldrunum eru notalegar og velta upp myndum af rósemdarlífi sumarbústaðarins; þar sem fjölskyldan hefur það náðugt mitt í kjarrinu með útsýni yfir vatnið, tengist náttúrunni og fylgist með fuglalífi og veðurbreytingum. En fljótlega fer ýmislegt að trufla þessa rólegu sveitasælu og stofna henni í hættu. Fótatak á pallinum við bústaðinn eftir að rökkva tekur ítrekar undirliggjandi spennu og frásagnir af óhugnaði mitt í umgjörð hversdagsleikans gefa til kynna að ekki er allt sem sýnist.  

Lesandinn fær því fljótlega á tilfinninguna að undir sléttu yfirborði textans kraumi mikið undir, en af og til stinga upp kollinum atriði sem lýsa níðingsverkum, ofbeldi og almennri illsku. Þau atriði koma illa við lesandann og gefa í skyn að óhugnaður og óþægileg endalok bíði söguhetjanna.

Hestvík, og þá ekki síst tónn sögunnar og frásagnartækni, minnir að mörgu leyti á sögurnar í smásagnasafninu Eitruð Epli frá árinu 1998. Eins og titill safnsins lýsir vel reynast sögur Gerðar baneitraðar, því mitt í hversdagslegri umgjörð og í sögum af fólki sem við þekkjum flest, birtist eitthvað algjörlega ófyrirséð og vægast sagt skrítið, jafnvel óhugnanlegt, sem kemur lesandanum í opna skjöldu. Og í því liggur einmitt styrkur þeirra og aðdráttarafl. Ég var þrettán ára þegar ég merkti við Eitruð epli í bókatíðindunum fyrir þau jólin og fékk svo síðar í jólagjöf. Í sakleysi mínu, og útfrá mynd af höfundi sem fylgdi auglýsingunni, var ég alveg viss um að um skvísulega bók væri að ræða, og alls ekki skrítna, en allt skrítið var auðvitað helsta hræðsla tánings á hátindi normcors næntísins. Undarlegheit sagnanna reyndist svo eftir allt saman kærkomin, kom óharðnaðri unglingstúlku á bragðið og kenndi henni ýmislegt um töfra og mátt skáldskaparins.

Og talandi um það sem er skrítið og óhugnanlegt; hrollvekjan reynist standa okkur lesendum mun nærri en við almennt gerum okkur grein fyrir. Vísanir í minni sem lesendur þekkja úr ævintýrum sem þeir lásu í æsku, koma ítrekað við sögu í Hestvík, og minna á að hrollvekjan á rætur sínar að rekja þangað. Söguhetjan lýsir því til dæmis hvernig hún hafi oft farið ein í göngutúr um bústaðalandið sem unglingur en skilað sér svo heim þegar hún hafði „borðað úr öllum grautarskálum [og] lagst í öll rúmin.“ (48) Síðar þegar hún leitar týndra barna vonar hún að þau komi „hlaupandi eins og Hans og Gréta að piparkökuhúsinu“ (90) Eins koma við sögu skoffín og aðrar þjóðsagnaverur, sem minna okkur á hvernig við höfum verið alin á allskonar furðufyrirbærum og óhugnaði frá því við fengum að hlýða fyrst á sögur, og hvernig slík stef eru samofin sagnagerð frá örófi alda.

Frásögnin flæðir vel. Textinn er lágstemmdur og meitlaður, og sver sig í ætt við ljóð höfundar sem eru knöpp en segja engu að síður mikla sögu. Gerður hefur á síðastliðnum árum lagt mikla rækt við ljóðformið og uppskorið vel. Síðustu verk hennar bera vitni um hversu góð tök hún hefur á forminu og árið 2010 hlaut hún íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabálkinn Blóðhófnir. Prósi og lengri gerðir frásagna hafa í seinni tíð verið bundin við barnabækur en Gerður hefur sinnt þeim lesendahópi afar vel og hlaut vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010 fyrir söguna Garðurinn. Sú saga sver sig einnig í ætt við hrollvekjuna og fjallar um draugagang og reimleika.

Gerður hefur löngu sannað að hún hefur gott vald á tungumálinu og í Hestvík kemur bersýnilega fram að henni er umhugað um það. Aðalsöguhetjan gerir oft athugasemdir við málfar annarra persóna og hneykslast þegar hún heyrir gamlan kunningja tala um „vonda“ íslensku.  Samkvæmt söguhetjunni er tungan hvorki vond né góð heldur aðeins spurning um hvort viðkomandi sé í raun að tala íslensku þegar hann lætur eitthvað bjagað út úr sér.   

Hestvík sýnir hversu snjall höfundur Gerður Kristný er og leikin í því að skapa sögu sem hefur allt að því seiðandi aðdráttarafl á lesandann. Ég er bara að átta mig á því hér í þessum skrifuðu orðum að ég hef beðið Hestvíkur í bráðum tuttugu ár – allt frá því ég las og heillaðist af eplunum eitruðu þarna í næntís.

Vera Knútsdóttir, nóvember 2016