Beint í efni

Hjartaborg

Hjartaborg
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í einu prósaljóðanna í ljóðabókinni Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar. Ljóðið heitir “Ljóðaflóð” og þar er því lýst hvernig ljóðin hafa hlaðist upp í “rökkvuðum kjallarakompum” þangað til þau brjótast fram: “Þungbúin hafa ljóðin hlaðist upp, tímanum ekki tekist að vinna á þeim. Í myrkrinu byrja þau að bólgna, tútna út”, þau “blóðlangar eitthvert annað” og loks brjótast byltingarljóðin fram, “fara glaðbeitt um götur og stræti”. Sum ljóðin finnast uppi á hanabjálka og eru “svolítið rykfallin og reikul í spori”. Ljóðin finnast í kjöllurum og á hanabjálkum en þar búa líka draugarnir og því verður til þessi líflega mynd af húsi ólgandi af lífi sem á endanum hlýtur að flæða fram. Ljóðinu er lýst sem þrýstingi, það er eitthvað sem býr um sig í einstaklingi (ef við tökum hina fraudísku mynd um húsið sem tákn einstaklingsins), rásar um innviði hans þar til því tekst að losna úr viðjum og skapa óreiðu allt um kring.

Sú ólga sem birtist í þessu ljóði er ekki endilega lýsandi fyrir ljóðabókina Hjartaborg, sem er langt því frá að vera eitthvað rásandi æðisgengið rit, en þó er ljóst að í hinum fremur stillilegu ljóðum Aðalsteins finnast tilfinningaleg átök, átök sem eru líka lögð á borðið í köflum sem hann tileinkar eiginkonu sinni heitinni og trúnni.

Bókin er fallega hönnuð eins og það efni sem útgáfa Aðalsteins, Dimma, sendir frá sér. Það vekur strax athygli að letrið er ekki kolsvart eins og lesandi á að venjast, og gefur það bókinni allri mildilegri svip. Annað einkenni er afslappaður tónn frásagnarljóða, sem ég minnist ekki í svipinn hafa séð mikið af áður í ljóðum skáldsins. Segja má að þar komist barnabókahöfundurinn að ljóðskáldinu og saman skapa þeir heillandi heima sem ég myndi gjarna vilja sjá meira af. Hápunktur þessa samstarfs þeirra er í ljóðinu um Tom Swift sem er áhugaverð og vel heppnuð samræða við þessar ævintýralegu framtíðarsögur sem nú eru að mestu horfnar, svona svolítið eins og barnæskan:

Þú komst á réttum tíma
kenndir okkur að leita
aðeins lengra, ívið hærra
um að gera að breyta
því sem var úrelt orðið
það skildum við undireins
gleyptum sögurnar hráar
græjurnar, tækniundrin

Undir lok ljóðsins veltir ljóðmælandi fyrir sér ólíkum örlögum lesanda og söguhetju, sögurnar deyja út og skyndilega er Stjörnufleygurinn horfinn á braut og eftir situr lesandinn með minningu um ævintýri og hversdaginn allt um kring.

Þannig takast á fortíðarþrá og ólgandi framtíð í óskrifuðum ljóðum, og inni á milli eru svo ýmsar fallegar stemningar eins og sú sem lýst er í “Framtíð”:

Yfir gamla nýrækt
ösla fuglahræður
til að mæla fyrir
margfaldri dagsláttu
í mýrlendi hugans.

Í þessari sviphendingu er dregin upp mynd af víðáttum og tíma, sem jafnframt er á einhvern hátt kyrrsettur með fuglahræðunni, hvort sem hún á að vera skáldið sjálft, dauðinn, eða bara lesandinn.

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2008