Beint í efni

Högg á vatni

Högg á vatni
Höfundur
Hermann Stefánsson
Útgefandi
Óþekktur/Unknown
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Ný ljóðabók Hermanns Stefánssonar, Högg á vatni, er nokkuð eðlisólík fyrri ljóðabók hans, Borg í þoku, frá 2006. Sú bók fléttaði skemmtilega saman nokkurs konar ferðasögu og ljósmyndum í fallegri bók sem leyfði lesanda að villast um rigningarborg. Í nýju bókinni eru engar ljósmyndir, nema á kápu sem sýnir mjög bókstaflega útfærslu á titlinum – hamar heggur vatn – svo minnir á verk Sigurðar Guðmundssonar. Mynd og titill gefa tóninn – hér er ekki ráfað í þoku, heldur hoggið og kallað á lesandann í ljóðum af ýmsum stærðum og gerðum. Tónninn er agressívari og erindið virðist þannig brýnna, þó aldrei án húmors og leiks og auðvitað fjölda vísana hingað og þangað, eins og höfundi er tamt.

Bókin skiptist í þrjá númeraða hluta, ljóðin í öðrum hluta eru sýnu styst, en í þeim fyrsta má meðal annars finna nokkur prósaljóð og í þeim síðasta eru svo nokkrir lengri bálkar. Það er því hér ýmislegt prófað varðandi gerð og lengd og það heppnast mjög vel. Styttri ljóðin eru orðheppin og fyndin, spanna allt frá ástum til klósettferða og taka með sér annan kveðskap, eins og ljóðið ‚Off‘ sem leikur á vísuna um Loff malakoff eða ‚Truflanir‘ sem uppfærir hér frægt ljóð Einar Más Guðmundssonar um sjónvarpið:

Væri ég þjófstolin ljóðlína
eða skuggablettur í ljósleiðara

Væri ég bilun í blogspot.com
myndi ég vafalaust valda frekari truflunum í lífi ykkar

Eins og áður var nefnt er tónninn hér á stundum nokkuð agressívur og það fæst ekki síst með því að nota aðra persónu – ‚þú‘ – sem getur haft svo frekjulegan tón á íslensku (eins og allir vita sem hafa þýtt uppskriftir eða leiðbeiningar úr ensku, sjá t.d. muninn á því að segja ‚Blandið saman og hrærið vel og bakið svo í ofni‘ eða ‚Blandaðu þessu saman, hrærðu vel og bakaðu í ofni‘, það er allt að því innifalið upphrópunarmerkið). Það eru ýmsir ávarpaðir hér, og ekki alltaf ljóst hver, en stundum er ljóðmælandi að tala við sjálfan sig, stundum ástina sína, lesandann og jafnvel Buffalo Bill. Ýmis vopn koma við sögu, byssa, hnífur, rýtingur og fleiri – morð og dauði, sem ýtir undir þennan tón. Þetta eru ekki hvíslandi viðkvæm ljóð, heldur ljóð sem virðast æpa á lesandann og sum er nauðsynlegt að lesa upphátt til að ná fram hrynjandinni og áherslunum, sem markvissar endurtekningar skapa, svo þau liggja augljóslega vel við performans af einhverju tagi.

Í lengri ljóðunum gefst færi á að skapa ljóðheima sem lesandinn er dreginn inn í, eins og ‚Rödd úr holunni‘ sem boðar heimsendi ‚kemur færandi hendi / með ógn úr / undirdjúpunum / þínum eigin‘. Eða háðulegan myrkan heim í ‚Fyrsta apríl‘ þar sem ekki einu sinni er að marka sjálfsmorðið: ‚allir dagar þínir eru fyrsti apríl jafnvel þegar þú deyrð‘.

Í nokkrum ljóðanna er fjallað um orðin (‚Bannorð‘, ‚Lesbjart‘ o.fl.) og áður en lesendur Bókmenntavefsins grípa fyrir augun og æpa ‚nei, nei! er til meiri tilgerð!‘ þá geta þeir andað rólega því hún fyrirfinnst ekki hér. Í ljóðinu ‚Roð:‘ eru teknar í sundur nokkrar myndlíkingar um fyrirbærið í hverju erindi sem enda öll á orðinu ‚nei‘ eins og sést hér í upphafserindinu:

Að blása lífi í orðið
lífga það við með hverri þeirri
blástursaðferð
sem hendi er næst tungunni síst töm nei

Það er ekki meiningin að skora það á hólm, taka það hálstaki, ættleiða það. ‚Nei‘ við lok hvers erindis setur tappa í þá ætlan – stöðvar klisjukennd og háleit markmið Skáldsins, en lokalínan snýr á lesandann, þar sem segir: ‚Nei en allt þetta og aðeins til‘.

Hér hefur aðeins verið tæpt á nokkrum ljóðanna í bókinni, eins og gagnrýni er nauðug til, en það eru fjölmörg önnur sem hefði verið vert að ræða frekar, því þau geyma heila heima og sterka sýn, má þar nefna meðal annars ljóð eins og ‚Högg af vatni‘ , ‚Skáldsaga‘ og ‚Annað líf‘. Högg á vatni inniheldur því mjög fjölbreytt ljóð, þó svo hér hafi verið reynt að benda á hina og þessa sameiginlegu eiginleika, en í gerð hennar hefur líka verið hugað að heildinni því bókin er vel uppbyggð. Henni lýkur á ljóðinu ‚Skilin að skiptum‘ sem endar svo:

Þú sem lest
Hér með
erum við skilin að skiptum

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2009