Beint í efni

Höggstaður

Höggstaður
Höfundur
Gerður Kristný
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er stundum sagt að eitt af því sem skilji að ljóð kvenna og karla sé það að ljóð karla vísi oft til klassískrar bókmenntahefðar, hetja og stórmenna, en ljóð kvenna séu persónulegri og sértækari, fjalli meira um heimilið og það nærtæka, svona líkt og hjá bandarísku skáldkonunni Emily Dickinson sem fór aldrei út fyrir garðinn sinn, hvorki í eigin persónu né í ljóðum.

Og eitt af því sem gerir ljóð Gerðar Kristnýjar svo sterk er að hún sker þvert á þessar ‘markalínur’ og kallast á við kanónur bókmenntasögunnar ekki síður en heimspekileg karlkynsskáld. Nálgun hennar er þó iðulega önnur, stungin írónískum undirtónum, án þess þó að fela í sér höfnun eða afskriftir á þeim verkum sem nefnd eru til sögunnar. Í þessari nýju bók sem ber nafnið Höggstaður eru til dæmis ljóð sem vísa til Trjójustríðsins, Jónasar Hallgrímssonar og Egils sögu, auk þess sem Hallgerður fær ljóð en um hana hefur Gerður áður skrifað. “Dauðastríð Egils” er gott dæmi um hæfni skáldkonunnar til að varpa nýju ljósi á kunnuglegt tema: Egill er deyjandi og draugar sækja að honum en þá kemur dóttirin og ber honum hlýju gegnum blinduna. “Átti hún ekki alltaf / inni hjá þér ljóð?” er spurt, ekki að ástæðulausu. Það er líka áhugavert að bera saman Hallgerðarljóðin í Ísfrétt, fyrstu ljóðabók Gerðar, og Höggstað, en þar hefur hinn herskái tónn mildast nokkuð án þess þó að ádeilan á örlög þessarar miklu konu hafi horfið.

Gerður Kristný hefur sent frá sér bæði skáldsögur, smásögur, skáldsögur fyrir börn, leikrit og sögu Thelmu Ásdísardóttur, auk tveggja ljóðabóka, en með þessari þriðju sýnir hún að þrátt fyrir að framleiðslan hafi ekki verið mikil þá er hún án efa með okkar albestu ljóðskáldum. Sá töffaralegi tónn sem einkennir prósaverkin og virkar á stundum fjarlægjandi er hér tálgaður niður í snarpar en jafnframt tærar myndir, sem eru á stundum hreinlega glitrandi. Upphafsljóðið er gott dæmi um það, en það kallast á vissan hátt á við ljóðið “Hefnd” úr Ísfrétt. Ljóðið nefnist “Ættjarðarljóð” og þar er ættjörðinni lýst sem ískaldri og býr ljóðmælanda kalda hvílu með dúnmjúka drífu sem kodda og snjóbreiðu sem voð: “Landið mitt / útbreytt banasæng / nafn mitt saumað / í hélað ver”. Þó myndin sé ísköld býr hún jafnframt yfir einhverri hlýju, sem kemur fram í hinni heimilislegu og kvenlegu sýn á útsaumað verið.

Það eru fleiri ljóð sem lýsa kulda, sorg og trega og minna mörg á þá tilfinningu einangrunar sem birtist á stundum í annari ljóðabók Gerðar, Launkofa. Eitt slíkra er “Norður” en þar er lýst ökuferð í snjó. Enn er myndmálið sláandi fallegt, bílnum er líkt við búrhveli sem líður í gegnum hvítan sorta. Vegastikurnar leiftra snögglega “eins og eldspýtur / litlu stúlkunnar í ævintýrinu” og lýsa hvalnum þar til hann kemur aftur “upp í vök / að blása”. Ökuferðin breytist í djúpsjávarævintýri með smáviðkomu hjá Hans Christian Andersen og lesandi getur ekki annað en haldið niðri í sér andanum.

En svo eru önnur ljóð sem eru full af gleði og kímni eins og ljóðið um innlyksa brúðkaupsgestina með marsipan í munnvikjunum, ljóðið um hana Önnu sem fær óvænta gesti á nóttunni og tvö ofurfalleg ljóð um barnsvettlinga og barnsaugu. Húmorinn tekur líka á góðan sprett með fjallkonunni í “Ævintýri á fjöllum”, en þar spennir hún á sig “hamrabeltið / og hendist niður hlíðina” því “frést hefur að þýskur ferðamaður / reiki rammvilltur um sveitina” og hún “ætlar að ná honum / áður en björgunarsveitin birtist”. Fjallkonunni tekst ætlunarverk sitt og bregður fæti fyrir manninn - endinn verðið þið sjálf að lesa.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007