Beint í efni

í fjarveru trjáa: vegaljóð

í fjarveru trjáa: vegaljóð
Höfundur
Ingunn Snædal
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Fullorðin kona kemur til mín á bókasafninu og er að fá lánaðar ljóðabækur. Ein þeirra er fyrsta bók Ingunnar Snædal, Á heitu malbiki sem kom út árið 1995. - Ég vissi ekki af þessari bók fyrr en ég las nýju bókina sagði konan, greinilega glöð að hafa fundið meira lesefni eftir Ingunni. Hún er þó ekki alveg viss um nýju bókina - ég var svo hrifin af hinni bókinni, ég hvarf alveg inn í hana, sagði hún. - En ég á eftir að lesa þessa nýju betur.

Sjálf las ég svo bókina almennilega þetta sama kvöld, en hafði bara gluggað í hana áður. Á kaffihúsarölti um sumarlegan miðbæinn spurði vinkona mín mig hvernig mér hefði litist á. Ég var ekki alveg viss frekar en konan á bókasafninu, var svo hrifin af fyrri bókinni og þeirri heildstæðu mynd sem hún dró upp. Þó, bætti ég við, var erfitt að taka stök ljóð úr Guðlausum mönnum og segja: þetta er frábært, því þar var það heildarmyndin sem gaf ljóðunum líf. Í þessari nýju er vissulega ákveðin heild - ferðin um landið - en þó engan vegin eins sterk, sem gerir það að verkum að ljóðin eru sjálfstæðari og öruggari ein og sér.

Það getur verið flókið mál að meta ljóðabók, og það hefur sjálfsagt ekki heldur verið einfalt fyrir Ingunni að fylgja eftir vinsældum ljóðabókarinnar Guðlausir menn - hugleiðingar um jökulvatn og ást sem kom út árið 2006, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, og varð ‘metsölubók’ (miðað við ljóðabækur).

Sá ferski tónn sem einkenndi Guðlausa menn er enn til staðar í Í fjarveru trjáa, þrátt fyrir að sú síðarnefnda sé að mörgu leyti mun hefðbundnari í formi og efnistökum. Líkt og undirtitillinn gefur til kynna þá eru ljóðin vegaljóð, ljóðmælandi ferðast um landið, þjóðvegi og afvegi ýmsa og lýsir því sem fyrir ber, bæði inni í bíl og utan hans. Lesandi fær tilfinningu fyrir mörgum ferðum og ýmiskonar róti endurminninga sem tengist stöðum og upplifunum, auk þess að fá innsýn í landið sjálft. Þannig gæti bókin reynst ágætlega sem vegahandbók, svona álíka og gamla vegahandbókin sem lýst er í ljóðinu “í Húnavatnssýslu”, en þar er

hægt að fara í sund
í hálfhrundum 
mosavöxnum laugum
og kaupa nesti í
löngu niðurlögðum
kaupfélögum

allt ef “farið er eftir / hálfónýtri vegahandbók / annarri útgáfu”. Þetta eru vegahandbækur sem bjóða uppá glaðar villur og tilfinningu fyrir að taka þátt í einhverju sögulegu.

Á þennan hátt eru ljóð Ingunnar lifandi innsýn í land og sögu, við hittum drauga og bændur, rifjum upp gömul ástarævintýri, sorgir og örvæntingu í bland við flisskast yfir því hvað hólarnir í Vatnsdal líkjast brjóstum. Hér eru reglur fyrir puttaferðalanga og topptíu listar yfir hitt og annað í náttúrunni, þó atriðin séu yfirleitt færri en tíu og jafnvel færri en eitt, því í sumum tilfellum álítur ljóðmælandi að lesandi verði bara að mynda sér skoðun sjálfur, því náttúrufegurð getur líka verið einkamál.

Nú þegar vinir, samstarfsfólk og fjölskylda ferðast um landið vítt og breitt og allir dásama fegurð og ævintýri, held ég mig vandlega innan borgarmarkanna, les bækur og hangi á kaffihúsum eins og versta tegund af þeirri 101 staðalmynd sem landsbyggðarfólk á stundum gagnrýnir. - Finnst þér þetta ekki fallegt, spyr fólk og sýnir mér myndir í tölvum, símum, myndavélum og jafnvel eina og eina á pappír. - Jú, svara ég, mjög fallegt og þessvegna bíð ég alltaf spennt eftir að þið komið til baka og segið mér svaðilfarasögur úr sveitinni, svitnandi upp hlíðar og skriður, gínandi yfir gleymdum vötnum og eilífðar smáblómum - allt í lit með myndasýningum.

Bók Ingunnar er einmitt slík saga sem ég nýt þess að lesa. Sumt kannast ég meira að segja við (ég hef keyrt hringinn og oft norðurleiðina), annað ekki, en þegar ég blaða í Í fjarveru trjáa get ég ekki annað en fyllst gleði yfir því hvað það er ólýsanlega gaman að láta segja sér sögur, teikna upp myndir í orðum, gefa tilfinningu fyrir einhverju sem ég hefði annars aldrei fengið að upplifa.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2008