Beint í efni

Innræti

Innræti
Höfundur
Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Árni Davíð Magnússon

Mörg eru þau hversdagslegu hlutverk sem sett eru á svið dag hvern innan fjölskyldu, vinnustaðar, o.s.frv. Hlutverkunum fylgja ólíkar kröfur og væntingar og fela gjarnan í sér einhverja málamiðlun milli þess sem viðkomandi sýnir umheiminum og þess sem hann eða hún er í innstu kviku. Í Innræti, fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur, er mikið ort um slíka hlutverkaleiki sem flestir þekkja vel. Ljóðmælandi bókarinnar er kona og má segja að reynsluheimur kvenna sé eitt mikilvægasta umfjöllunarefni bókarinnar. Þar kveður rammt að samfélagslegum kröfum sem og kröfum ljóðmælanda til sjálfs sín sem geta myndað sterka fjötra.

Tónninn er sleginn í fyrsta ljóði bókarinnar, „Umönnun“ sem hefst svo: „Ég smeygi ólinni um hálsinn / og kippi harkalega í tauminn“. Hér er ort um „skepnu“ sem ljóðmælandi þarf að viðra, gefa vítamín, raka lappir, hugleiða og hátta á kvöldin. Loks hvílast þau saman um nætur, ljóðmælandi og skepnan „innan í rammgerðu búrinu“. Skepnan, sem einnig er kölluð „kvikindi“ er greinilega neikvætt tákn, sú umönnun sem konan, ljóðmælandinn, beitir sjálfa sig til þess að falla að þeim hlutverkum sem hún þarf að leika. Þetta getur verið innilokandi hlutskipti, líkt og fangelsi, sbr. búrið sem hún hvílir í með dýrinu. Unnið er úr þessu stefi í ýmsum öðrum ljóðum bókarinnar á snjallan hátt eins og þegar aðhaldskjóll hjálpar ljóðmælanda að muna „hvar skilin milli sjálfrar mín og heimsins liggja“, í ljóðinu „Morgunsiðir sem ég segi engum frá“. Í raun heldur hlutverkaleikur ljóðmælanda áfram út yfir gröf og dauða, eins og þegar ljóðmælandi skipuleggur eigin útför og erfidrykkju í sérlega hnyttnu ljóði, „Ég frábið mér flatkökur með hangikjöti“, þar sem hún vonar það eitt að gestirnir verði sér ekki til skammar.

Ljóð bókarinnar eru flestöll í fyrstu persónu. Af þeim sökum mætti kannski freistast til þess að kalla þau persónuleg, en það væri þó ofureinföldun. „Ég“ ljóðmælandans er nefnilega alls ekki heilsteypt heldur margbreytilegt og jafnvel klofið á köflum. Ljóðmælandi er þannig ekki einfaldur heldur margfaldur og mátar sjálfsmynd sína við ýmis hlutverk, eins og í ljóðinu með því lýsandi nafni „Liðin hamskipti“ þar sem konan veltir vöngum yfir þeim hlutverkum og sjálfsmyndum sem hún eitt sinn hafði, þegar hún gekk með gleraugu, var ófrísk eða vann á öðrum vinnustað. Jafnvel efast hún um að heimilið og fjölskyldan tilheyri henni í raun:

Þetta er heimili mitt

kemur stundum fram á varir mínar

þegar ég stend á þröskuldinum

 

Barnið sem þú berð á handleggnum

lítur út eins og það ætti að tilheyra mér

Þetta ljóð stendur vel í samhengi við ljóðið á undan „Kona fer að heiman“ þar sem konan varpar af sér öllum hlutverkum áður en hún fer í ferðalag. Þá finnur hún sig „vaxa inn í tómið“ og þegar í Leifsstöð er komið rúmast hún „varla við tveggja manna borð“. Þessi tvö ljóð varpa fram klassískum spurningum um hvað í því felst að eiga sér samastað á lífsins ferðalagi. Þegar farið er að heiman, er þá endurkvæmt heim og verður heimilið það sama?

Táknheimur Innrætis er mjög skýr og lítið um óþarfa orðskrúð eða málalengingar. Einföld tákn eru gjarnan notuð sem gerir flest ljóðin einkar aðgengileg lesendum. Stundum skapast e.t.v. dálítil hætta   á klisjum, en táknbeitingin er yfirleitt lipur og gjarnan öðlast þekkt tákn ákveðinn merkingarauka í ljóðum bókarinnar þegar margbreytileiki þeirra er kannaður. Gott og áhrifamikið dæmi um þetta er ljóðið „Neðansjávar“:

Mér er sagt

að stærsta ókannaða ævintýri jarðarinnar

séu undirdjúpin

 

Langt fyrir neðan öldutoppana

eru dalir, fossar, fjöll

og framandi skepnur

 

Hafið sleikir barnstær

á sólgylltri strönd

sem við flugum fjögur þúsund kílómetra til þess að heimsækja

okkur til geðbótar í svartasta skammdeginu

 

Hafið sleikti barnstær þínar

og það nálgast

Hér er leikið vel á tvíbent eðli hafsins sem tákns. Annars vegar má skilja það í ljósi fegurðar og friðsældar sem er kannski sú ímynd sem vesturlandabúar gera sér af því þegar þeir heimsækja það sér til heilsubótar. Hins vegar fylgir því þögul ógn sem eðlilegt er að túlka í skuggsjá hamfarahlýnunar og hækkandi sjávarstöðu. Hafið nálgast barnið, flæðir yfir framtíðina, meðan sólstrandarferðamenn iðka sína núvitund. Þetta er sterkt ljóð eins og mörg önnur í Innræti, en höfundur vinnur úr sínum þemum á einkar öruggan hátt; engu er ofaukið og heildarsvipurinn er mjög sannfærandi.

 

Árni Davíð Magnússon, júní 2020