Beint í efni

Íslensk dægurlög og Alhæft um þjóðir

Íslensk dægurlög og Alhæft um þjóðir
Höfundur
Hugleikur Dagsson
Útgefandi
Ókeibæ(!)kur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Myndasögur
Íslensk dægurlög og Alhæft um þjóðir
Höfundur
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Útgefandi
Ókeibæ(!)kur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Æ, heimurinn er svo stór, jólin eru svo stór, ævisögulegu skáldsögurnar eru svo stórar. Og hafið, það er líka stórt. En maður hagar seglum eftir vindi. Nú skellur myrkrið á og þá er ekki hægt að biðja til guða hinna stóru hluta, þegar sólin sést hvergi og samfélagið situr heima í öreindum sínum. Þá má leggja traust sitt á minni hluti, til dæmis kökugaffal, ullarvettling, krossgátu eða tvöfalda sérhljóða almennt. Þegar jólin loksins ryðjast yfir er gott að geta gengið að þessum hlutum vísum, og þegar maður er á gangi er gott að hafa litla bók í vasanum til að lesa þegar maður sest niður aftur. Tvær slíkar komu út nýverið: Íslensk dægurlög eftir Hugleik Dagsson og Alhæft um þjóðir eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur. Þær eru gefnar út af nýju forlagi Hugleiks og Ólafíu Erlu Svansdóttur sem nefnist Ókeibæ(!)kur, en þar verður að sögn lögð áhersla á myndasögur og listaverkabækur, og er víst ekki vanþörf á.

Íslenskum dægurlögum svipar meira en lítið til Okkur-bókanna. Þetta eru liðlega sextíu einrömmungar, hver á sinni síðu; grófir brandarar í grófum svarthvítum teikningum og hvergi glittir í grátt. En hér bætist við ný vídd, það sem bindur bókina saman: titlar á eða brot úr íslenskum dægurlögum. Hugleikur leggur út frá línum eins og ,,hei kanína / komdu í partí” eða ,,tunglið tunglið taktu mig” og finnur þeim eitthvert sjúklegt samhengi í teikningum sínum. Annarstaðar er hálfdulinn pervertismi bakvið rómantíkina dreginn fram í línum á borð við ,,það er draumur að vera með dáta”, og enn annarstaðar eru innantóm eða út í loftið textabrot myndskreytt blátt áfram til þess einmitt að sýna hversu innantóm og út í loftið þau eru (,,rugguhestur og uxakerra” eða ,,þúsund sinnum segðu já”). Þarna er kannski ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur, enda virðist engin þörf á því: Hér má sjá tunglið sveifla u.þ.b. þrjú þúsund kílómetra löngum getnaðarlim (að vísu séð frá jörðu), sem hlýtur að vera stærsti typpabrandari ársins. Hvernig er það, er ekki löngu kominn tími á að veitt séu sérstök verðlaun fyrir slíkt?

Í Alhæft um þjóðir kveður hins vegar við allt annan tón. Hér er einnig um að ræða svarthvíta einrömmunga en teikningarnar eru margtóna, fullar af tilþrifum og smáatriðum sem gefa persónunum og umhverfi þeirra heilmikinn karakter. Þetta notar Lóa þó eingöngu til þess að gera fólk fráhrindandi, en persónurnar (ef hægt er að tala um persónur í einrömmungum) eru flestar heil- eða hálfpartinn ógeðfelldar. Á hinn bóginn virðast þær í langflestum tilfellum sáttar við lífið og aðstæðurnar sem dregnar eru upp í bókinni eru ósköp saklausar ef bera má saman við Íslensk dægurlög. Þótt myndirnar séu með annan eða báða fætur í gróteskunni þá er húmorinn sem svífur yfir ekki andstyggilegur eða með hausinn í forinni, heldur léttur, fjarstæðukenndur og kíminn.

Fólk alhæfir án þess að taka eftir því eða án þess að hugsa út í það. Ferðalangar sem millilenda í Þýskalandi koma heim og segja að Þjóðverjar séu stundvísir og tillitsamir. Og svo eru til þeir sem ljúga blákalt að fólkinu heima í götu, sér til stækkunar eða skemmtunar, að Þjóðverjar séu með fjóra handleggi. Alhæft um þjóðir grípur þetta allt saman á lofti og hnoðar úr miður huggulegar staðalímyndir ýmissa þjóða. Hún skopstælir þannig alhæfingagleðina en leyfir sér um leið að gera rætið grín að hinum og þessum þjóðum, og sækir brandarana þá eitthvert út í buskann frekar en að fara beint í klisjurnar. Tónninn í lýsingunum minnir stundum á dýralífsmynd þar sem markmiðið er ekki síður að uppfræða en að skemmta, og smitandi áhugi á viðfangsefninu skín í gegn. Bókin er einfaldlega lítil gersemi og óvæntasti gleðigjafinn þennan stóra, langa bókavetur.

Björn Unnar Valsson, desember 2009