Beint í efni

Játningar af geðdeildinni

Játningar af geðdeildinni
Höfundur
Guðmundur Magnússon
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Til þess var tekið í fjölmiðlum nú nýverið að í jólabókaflóðinu væru áberandi höfundar sem hreppt hefðu Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta í upphafi ferils síns, enda styrkurinn sérlega góður stökkpallur fyrir nýja höfunda. Guðmundur Magnússon (f. 1981) er einn þeirra, en hann hlaut Nýræktarstyrkinn í byrjun sumars fyrir handrit að Talandi steinum og Bjartur gefur bókina út. Guðmundur er menntaður kvikmyndargerðarmaður sem hefur unnið að gerð heimildarmynda og hefur áður birt smásögur í tímaritinu Stínu.

Fremst í bókinni er tilvitnun í ljóðið „Wanting to Die“ eftir Anne Sexton, en það  greinir frá því sem titill þess ber með sér: Skýrum vilja höfundar/ljóðmælanda til þess að deyja. Sexton var ein af bandarísku „játningaskáldunum“ svokölluðu, ásamt m.a. Sylviu Plath, Robert Lowell og John Berryman. Þau voru mest áberandi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, en einkennandi fyrir ljóðlist þeirra voru einföld, en mjög persónuleg ljóð, einhvers konar „leit að sjálfi í sundruðum heimi“. Öll fjölluðu þau um tabú þess tíma, geðveiki, sjálfsvígshugsanir og dvöl á geðspítölum.

Í Talandi steinum er ljóst að höfundur er á slóðum Sexton og játningaskáldanna, þótt ekkert skuli fullyrt um samasemmerki milli hans og ljóðmælandans.  

Strax í upphafi bókar er ljóst að ljóðmælandi er staddur á geðdeild í fyrsta sinn og hann lýsir lífinu á deildinni. Þar ríkir „dularfull ró“ og „sjúklingar sitja þögulir / og stara í andrúmið“ eða „hnikast eftir göngunum eins og vofur“. Hann lýsir því hvernig honum líður og hvað varð til þess að hann er þarna staddur:

Eftir að hafa mátað snöruna
og hnífinn við úlnliðina
kom ég hingað að sjálfsdáðum

Einsemd er í textanum, tómleiki og vanlíðan, eins og gefur að skilja við þessar aðstæður. Aðsóknarhugmyndir láta á sér kræla, það er stóll í herberginu og honum finnst eins og þar sitji einhver sem vill honum ekki vel. Og „Við skrifborð /  áfast veggnum / er spegill / en engin spegilmynd.“

Í skáldskap sem miðar að sjálfsskilningi eru speglar mjög algeng tákn, enda á víst tilfinning fyrir einhvers konar sjálfi að kvikna þegar maðurinn horfir í spegil. Þegar spegilmyndina vantar er gefið til kynna það sem ljóðmælandi upplifir fyrstu dagana á deildinni; tómið eitt ríkir í sálinni. Aðrir sjúklingar virðast upplifa það sama:

Sækja öll
í sama myrkrið

Óska þess
um stundarkorn

að þau séu ekki til

Blóðþrýstingur ljóðmælandans er meira að segja svo lágur að hann fer að gruna að hann sé að deyja, eða sé jafnvel þegar dáinn. Sjálfið er beinlínis fjarverandi.

*

Talandi steinar er 60 blaðsíður og ljóðin renna áfram, án kaflaskipta, heita eða númera. Ljóðmælandi lýsir hversdagslífi sínu og samsjúklinga sinna á deildinni,  daglegu bjástri þeirra með sígarettur og spurningum um hvað sé í matinn. Einsleitni dvalarinnar kemur fram í endurtekningum - því að honum finnst starfskonurnar allar líta eins út og spyr aftur og aftur hvað þær heiti. Og hann er ekki með tímann á hreinu:

Tilveran gengur eins og klukka
en ekki ég
Veit aldrei
hvenær myrkrið kemur
eða birtan

Þótt dagarnir séu hver sem annar eru átökin í sálinni mikil, kvíði og vonleysi hvolfast yfir. „Hér eru engin önnur verkfæri / en sultur“ segir maðurinn og vísar þar til orða Anne Sexton um að sjálfsvígið útheimti einungis verkfæri, ekki ástæðu. Hann reynir að svelta sig og á einum stað lýsir hann löngun til þess að stökkva útum gluggann, en hefur ekki afl til þess.

Ég hef aldrei skilið
þessa löngun til að deyja
Hún hefur alltaf fylgt mér

Glíman við neikvæðar tilfinningar er hörð. Steinar eru víða notaðir sem tákn  sortans sem sérlega erfitt er að vinna á. Ljóðmælanda dreymir að ósýnilegar verur haldi honum föstum og kasti í hann steinum, hann heyrir „suð í muldrandi steinum“,  steinar hæðast að honum „og þeir meina / það sem þeir segja“.

Eftir mikil átök sér hann spegilmynd sína í glugganum „hryggðarmynd í myrkrinu“  – en hún er þó ekki fjarverandi eins og í upphafi bókar.

*

Þegar hugsanir ljóðmælanda eru ekki bundnar við ríkjandi ástand, innilokun geðspítalans, birta þær löngun til sambands fyrir utan. Strax á fyrstu síðu er einhver ávarpaður: „Ég hef aldrei horft í augun á þér / hef aldrei horft í augun á neinum“ og látið að því liggja að skortur á því að ná tengslum við annað fólk hafi orðið til þess að hann leitaði sér aðstoðar. Þetta kallast á við ljóð undir lok bókar, þar sem hann horfir í augun á dóttur sinni og segir: „ - Þau eru græn / augun þín, augun ykkar / Það fallegasta sem / ég hef séð“ og lofar því að fara aldrei frá henni/þeim.

Eitthvað hefur breyst, tengsl við aðra manneskju komin á og sjúkleikinn á undanhaldi, enda er ljóðmælandi ekki lengur á spítalanum. Steinarnir sem áður voru svo ógnvekjandi eru nú í sandkassanum þar sem börnin leika sér, litla stúlkan safnar þeim og geymir í vasanum.

Í lok verksins er svo spegilljóð og nú er heldur bjartara yfir spegilmyndinni, sem fyrst var hreinlega ekki til staðar og breyttist svo í hryggðarmynd. „Konan í hvítu“ hvetur hann til þess að horfa í spegilinn og það vekur honum „furðu mikla kátínu“:

Líkt og barn
sem sér sig
í fyrsta sinn

Hér birtist ný sjálfsmynd og allt bendir til þess að bati sé í sjónmáli.

*

Það eru mikil átök í Talandi steinum og ljóðin eru sannfærandi lýsing á andlegum erfiðleikum og leiðinni út úr þeim. Geðdeildin er hvorki Gaukshreiðursleg með hryssingslegu starfsfólki né full af misskildum snillingum, heldur eru lýsingarnar lágstemmdar og raunsæislegar – á fólki sem þar er statt til þess að leita sér aðstoðar. Vonandi verður Guðmundur Magnússon brautryðjandi í þessari tegund „játninga“ íslenskra karlmanna, því hér er engin kreppa eða eitruð karlmennska, heldur liggur styrkurinn í því að opinbera vanmátt sinn.

Allnokkur byrjendabragur er á bókinni, skáldið hrasar öðru hverju um klisjur og myndmálið er á stundum heldur stirt. Inn á milli glittir þó í eitthvað ferskt og gott sem endilega þarf að rækta áfram – og vonandi uppskera enn ríkulegar næst.
 

Þórunn Hrefna, desember 2022