Beint í efni

Konungsbók

Konungsbók
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
hljóðbók.is
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Konungsbók Arnaldar Indriðasonar er ólík fyrri bókum hans um margt. Í fyrsta lagi er lögguteymið, Erlendur, Sigurður Óli og Elínborg, víðsfjarri. Í öðru lagi gerist sagan öll utan samtímans og í þriðja lagi er hún ekki sérlega vel heppnuð sem spennu- eða glæpasaga. Svo bregðast krosstré sem önnur, og einmitt þegar ég áleit að Arnaldur gæti ekki slegið feilnótur, svo flínkur væri hann orðinn, þá sendir hann frá sér verk sem hlýtur að valda vonbrigðum.

Þetta hefur ekkert með það að gera að Erlendur og kó eru víðsfjarri: Arnaldur byrjaði snemma á ferli sínum að hvíla þau, þriðja skáldsaga hans, í kjölfar fyrstu tveggja Erlendar-sagnanna, Synir duftsins og Dauðarósir, var Napóleonsskjölin, hressileg og skemmtileg spennusaga sem tengist hinni nú yfirgefnu herstöð í Keflavík. (Það er kannski ástæða til að árétta þetta með að Napóleonsskjölin, sem kom út árið 1999, var spennusaga, en fleiri en einn umsegjandi hins ágæta Skips Stefáns Mána hefur útnefnt hana fyrstu íslensku spennusöguna). Eftir að hafa tekið upp Erlendar-þráðinn í einum þremur sögum, Mýrinni, Grafarþögn og Röddinni, setti Arnaldur aftur nýja plötu á fóninn og skrifaði Bettý, sögu í anda ‘noir’, eða harðsoðna reyfarans. Bettý er sömuleiðis vel heppnuð og skemmtileg, og bæði þessi hliðarspor einkennast af dálítið meiri léttúð, leik og léttleika en finnast í Erlendar-sögunum. Ég átti því von á góðu þegar ég frétti að Konungsbók væri enn eitt hliðarsporið, enda má með nokkrum rétti segja að þar séu ýmis einkenni hinna hliðarsagnanna, svo sem öllu æsingslegri atburðarás.

Konungsbók segir frá ungum nema í handritafræðum, Valdemar, sem siglir til Kaupmannahafnar árið 1955 og ætlar að hefja framhaldsnám í norrænum fræðum. Hann ætlar að starfa undir handleiðslu þekkts íslensks prófessors við Kaupmannahafnarháskóla, en sá hefur verið að stúdera Konungsbók Eddukvæða undanfarinn áratug eða rúmlega það. Prófessorinn reynist drykkfelldur og geðstirður, en það er ástæða fyrir því, og áður en Valdemar veit af er hann kominn á kaf í ævintýralega atburðarás sem á sér rætur í fjársjóðaleit nasista í stríðinu. Auk Konungsbókar sjálfrar, sem leikur aðalhlutverkið, er hér einnig fjallað um örk nokkra sem vantar í Konungsbókina og geymir mögulega týnd kvæði. Jafnframt fléttast umræðan um handritin inní málið, staða þeirra innan íslenskrar menningarsögu og svo náttúrulega spurningin um eignarhald og eignarrétt yfir þeim.

Hér má vísa í ýmsar áttir, ég hafði heyrt söguna nefnda ‘íslenska Da Vinci lykilinn’, en finnst hún ekki beint líkjast þeirri bók, minnir mig frekar á fjársjóðsleitarmyndina National Treasure ef eitthvað er, svo ekki sé minnst á Nafn rósarinnar. Einnig gat ég ekki annað en rifjað upp skáldsögu Hjartar Marteinssonar, AM 00 (2000), en hún fjallar líka um íslensku handritin í Kaupmannahöfn, reyndar á tímum Árna Magnússonar sjálfs. Og svo er það auðvitað okkar eigin Flateyjargáta, Viktors Arnars Ingólfssonar (2002) sem einnig fjallar um þekkt handrit og handritamálið.

Baksvið Konungsbókar er heimur handritanna og allt sem að því lýtur er vel gert og liggur þar greinilega mikil heimilda- og rannsóknarvinna að baki. Vissulega tekur höfundur sér skáldaleyfi, en alveg að skaðlausu. Einnig má segja að samskipti þeirra félaga, Valdemars og prófessorsins, séu sannferðug, prófessorinn er einskonar lifandi goðsögn og neminn uppfullur af lotningu, og verður sömuleiðis afar ringlaður þegar maðurinn í reynd er ekki eins og goðsögnin. Vandamálin eru hinsvegar of mörg, til dæmis persónusköpun þessara tveggja að öðru leyti, en þeir verða fljótlega hálf eintóna og all ólíkir þeim skemmtilegu og lifandi karakterum sem ég á að venjast frá Arnaldi. Annað vandamál er plottið sjálft, sem er ekki nægilega undirbyggt – þrátt fyrir að hér bregði fyrir skemmtilegum sprettum þá vantar dálítið botninn til að skilja fyllilega hina miklu ásókn nasistanna í Konungsbók. Í þriðja lagi verður umræðan um mikilvægi handritanna, og þá sérstaklega Konungsbókar, fyrir íslenska þjóðarsál dálítið of hástemmd á köflum og flækist fyrir, sérstaklega þarsem hún er endurtekin óþarflega. Hlutinn sem varðar týndu örkina (sem raunverulega var til og er týnd) er best heppnaður (ekki síst fyrir orðaleikinn sem þar laumar sér inn), en hann nægir því miður ekki til að halda þessari miklu sögu gangandi. Þó er ekki hægt að segja að mér hafi nokkurntíma verulega leiðst (nema þegar hátíðni handritanna birtist), en þrátt fyrir góða spretti get ég heldur ekki sagt að ég hafi skemmt mér sérstaklega vel.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2006